Hressandi fjallgöngur á höfuðborgarsvæðinu
Þó haustið sé komið og veturinn nálgist óðfluga þýðir það ekki að útivistarskórnir þurfi að fara upp í skáp. Nóg er af útivistarmöguleikum í kringum höfuðborgarsvæðið og þó kólnað hafi í veðri eru ýmis fell og fjöll til að ganga á svæðinu.
Hér að neðan eru nokkrar hugmyndir að léttum og fallegum fjallgöngum sem hvorki eru langar né langt í burtu og henta því vel í lærdómspásunni eða þegar skóla líkur. Það er fátt sem jafnast á við góða útivist til að hreinsa hugann og ná smá hreyfingu á milli verkefna dagsins. Allar eftirfarandi leiðir eru stikaðar og ættu að henta flestum. Athugið að þó kílómetralengd þeirra sé mjög svipuð, er hækkun þeirra nokkuð misjöfn og því gæti verið gott að byrja á því felli sem hefur lægsta hæð og fikra sig svo upp.
Eins og alltaf þegar haldið er út í náttúruna er mælt með að skoða veðurspána og passa að vera nægilega vel klædd, skóuð og með réttu græjurnar meðferðis. Einnig er gott að taka með sér vatn og smá nasl, jafnvel kaffi til að ilja sér við uppi á toppi. Hin gullna regla er að láta alltaf einhvern vita af ferðaplönum okkar, því þó við stefnum ekki á langa ferð getur alltaf eitthvað óvænt komið uppá.
Helgafell í Mosfellsbæ
Hæsta hæð er 216 m og lengd göngu um 6.5 km
Einkabíll: stysta leið frá HÍ (17.4 km)
GPS bílastæðis: (64°10’42.2”N 21°40’07.5”W)
Engar strætósamgöngur
Mosfell
Hæsta hæð er 276 m og lengd göngu um 3.8 km
Einkabíll: stysta leið frá HÍ (20,6 km)
GPS bílastæðis: (64°11’07.9”N 21°37’12.1”W)
Strætóstopp: Háholt (Leið 15) – Panta þarf ferð áleiðis í Mosfell (Leið 27) minnst 30 mínútum fyrir brottför. Frekari upplýsingar um pöntunarþjónustu eru á Straeto.is
Stórihnúkur - Úlfarsfell
Hæsta hæð er 295 m og lengd göngu um 4.6 km
Einkabíll: stysta leið frá HÍ (12.8 km)
GPS bílastæðis: (64°08’11.5”N 21°43’31.3”W)
Strætóstopp: Skyggnisbraut (Leið 18)
Helgafell í Hafnarfirði
Hæsta hæð er 338 m og lengd göngu um 6 km
Einkabíll: stysta leið frá Hí (17.1 km)
GPS bílastæði: (64°01’34.7”N 21°52’30.1”W)
Engar strætósamgöngur
Esjan að Steini
Hæsta hæð er 597 m og lengd göngu um 6.6 km
Einkabíll: stysta leið frá HÍ (21 km)
GPS bílastæðis: (64°12’31.2”N 21°42’45.4”W)
Strætóstopp: Esjurætur – Hiking Center (Leið 57)
Móskarðshnjúkar
Hæsta hæð er 807 m og lengd göngu um 6.3 km
Einkabíll: stysta leið frá HÍ (24.9 km)
GPS bílastæðis: (64°13'23.2”N 21°33’07.1”W)
Engar strætósamgöngur