„Skólaverkfall fyrir loftslagið“

Ljósmynd/Carlos Machin Mendez

Ljósmynd/Carlos Machin Mendez

Loftslagsverkföll og barátta aðgerðasinnans Gretu Thunberg hefur ekki farið fram hjá  heimsbyggðinni. Þann 20. ágúst 2018 fór Greta ekki í skólann heldur settist hún fyrir framan ríkisþinghúsið í Stokkhólmi með mótmælaskilti, þar sem hún krafðist þess að  stjórnvöld tækju meira mark á þeirri hamfarahlýnun sem á sér stað í heiminum. Í framhaldinu hefur fjöldi ungmenna um allan heim fylgt henni og mótmælt í hádeginu á föstudögum.

Blaðamaður settist niður með forseta Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Jónu Þóreyju Pétursdóttur, og ræddi við hana um aðgerðirnar á Austurvelli á föstudögum en fyrsta verkfallið hér á landi fór fram þann 22. febrúar 2019.

 

Loftslagsverkfall á Íslandi

Stúdentaráð var að skipuleggja landsþing LÍS (Landssamtök íslenskra stúdenta) í vor. Þemað á landsþinginu var sjálfbærni, umhverfisvitund og allt það sem því tengist. Í því skipulagsferli komst Stúdentaráð ekki hjá því að hugsa út í loftslagsmálin. Í framhaldinu ákvað Stúdentaráð í samstarfi við LÍS að taka þátt í aðgerðum á Austurvelli, svokölluðum föstudagsverkföllum.

 

„Fær fólk til þess að tala og hugsa um þetta“

Jóna Þórey tók við sem forseti Stúdentaráðs í maí 2019 en þá var Elísabet Brynjarsdóttir forveri hennar þegar farin að taka þátt í föstudagsverkföllum. Jóna Þórey tók við keflinu og varð ein af fjórum aðalskipuleggjendum frá fjórum samtökum, Lands­sam­tökum íslenskra stúd­enta, Stúd­enta­ráði Háskóla Íslands, Sam­bandi íslenskra fram­halds­skóla­nema og Ungum umhverf­issinn­um. Þau hafa komið sér á framfæri til dæmis í viðtölum og með því að hitta verkefnahóp sem vinnur að endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar í loftslagsmálum. Þá hafa þau hitt umhverfis- og auðlindaráðherra nokkrum sinnum.

Jóna segir mikilvægt að halda mótmælin vegna þess að stjórnvöld séu ekki að gera nóg og það þurfi að leita leiða til þess að fá þau til að gera meira. „Vitundarvakningin sem felst í þessu er að þetta fær fólk til þess að tala og hugsa um þetta,“  bætir Jóna við. „Sumir tala og komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé eitthvað skrítið og þá er þetta bara þeirra niðurstaða, en þá er þetta allavega í umræðunni og á einhverjum tímapunkti munu þeir kannski skipta um skoðun.“

 

Vilja að lýst verði yfir neyðarástandi

Jóna segir að stjórnvöld hafi brugðist við með ákveðnum hætti þannig að þau leiti til unga fólksins. Jóna var t.a.m. skipuð sem varafulltrúi í Loftslagsráði Íslands vegna aðkomu sinnar og vinnu í málaflokknum. Hún var auk þess skipuð „key listener“ fyrir hönd Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP25) sem fór fram í desember. „Okkur er boðið í samtal en stjórnvöld eru ekki að koma til móts við það sem við erum að biðja um. Það sem við erum að biðja um er að lýsa yfir neyðarástandi, vera með auknar fjárfestingar í loftslagsmálum og í raun aðgerðaáætlun sem fylgir neyðarástandinu.“ Jóna bætir því við að síðasta aðgerðaáætlun sem kom út varðandi loftslagsmál hafi ekki verið mælanleg, „Hún var mjög almenn og dugði skammt.“

Ljósmynd/Carlos Machin Mendez

Ljósmynd/Carlos Machin Mendez

 „Að öll séu í þessu saman“

Síðasta allsherjarverkfall fyrir loftslagið var í vikunni 20. – 27. september 2019 og var það ákall Gretu Thunberg til að fá eldri kynslóðir til þess að koma á mótmælin. „Þann 20. september 2019 vorum við með viðburð á Austurvelli og komu þá aðilar eins og Kári Stefánsson að tala og fengu fulltrúa eldri kynslóðanna sem hafa verið áberandi í ýmsum málaflokkum til þess að sýna fram á að eldri kynslóðin er til staðar þótt verkföllin séu í nafni unga fólksins,“ segir Jóna.

Jóna segir það líklega sjást best í kommentakerfunum á netinu hver afstaða sumra sé gagnvart því að þetta sé bara ungt fólk sem standi fyrir verkföllunum. „Líka þegar við erum að birta eitthvað á Facebook, sérstaklega í kringum síðasta verkfall, þá voru athuasemdir sem voru algjör útúrsnúningur og allt gert til þess að forðast vandamálið og eigin ábyrgð. „Það er bara verið að varpa henni yfir á börnin en það eru þau sem eru að reyna að taka ábyrgð á sinni framtíð,“ segir Jóna.

 

Háskólinn eigi að vera leiðandi afl og til fyrirmyndar í þessum málum

Að sögn Jónu þarf að verða viðhorfsbreyting innan háskólasamfélagsins. Hún sótti málþing um daginn þar sem Andri Snær Magnason var með tölu og hann orðaði það þannig að það þyrfti viðmiðaskipti í samfélaginu, að viðmiðin héðan í frá séu að slökkva á 650 Eyjafjallajöklum sem eru á fullu spúi, því það er það sem er að gerast. Það sem þarf að skoða er námsefni, námsleiðir og námsframboð sem tekur mið af þessu vandamáli. Jóna hefur farið þess á leit við Jón Atla Benediktsson, rektor við Háskóla Íslands, að lýst verði yfir neyðarástandi og búin verði til aðgerðaáætlun í samræmi við það. Yfirlýsingin er enn ekki komin og finnst Jónu það ekki viðunandi þar sem Háskóli Íslands eigi að vera leiðandi afl og til fyrirmyndar í þessum málum.

„Við erum búin að þrýsta mikið á Hámu og Félagsstofnun Stúdenta sem hafa verið að breyta úrvalinu á mat í miklu meira grænkerafæði og veganmat og ég vona að Stúdentakjallarinn fylgi. Síðan er Stúdentaráð búið að fá afslátt frá hjólaleigunni Donkey Republic,“ segir Jóna og bætir við að þetta snúist líka um að Háskóli Íslands standi við bakið á nemendum skólans.

 

Stefnumál Stúdentaráðs í loftslagsmálum

Stúdentaráð er með umhverfis- og samgöngustefnu og eru vistvænar samgöngur í forgangi. „Stefna Stúdentaráðs er almennt til þess gerð að umhverfismál séu í forgrunni og séu í forgangi. Það eru búnar að koma tillögur sem ganga lengra, til dæmis er tillaga um að hætta sölu á nautakjöti í Hámu, en nautakjöt er óumhverfisvænasta kjötframleiðslan,“ segir Jóna.

Ljósmynd/Carlos Machin Mendez

Ljósmynd/Carlos Machin Mendez