Að senda gagnrýni hingað og þangað: Pönkhljómsveitin Eilíf sjálfsfróun

Ljósmynd/Juliette Rowland

Ljósmynd/Juliette Rowland

„Verið velkomin í heim eilífrar sjálfsfróunar, þar sem pönkið ræður ríkjum. Hér er litlum köllum í stærri stöðum sagt stríð á hendur og engir fávitar eru leyfðir. Hér eru kúgarar kúgaðir, útskúfarar útskúfaðir, hatarar hataðir og nauðgarar fordæmdir. Hér vex skynsemi á trjánum, samfélagsmeðvitund rennur í vatninu og vindurinn hvíslar kaldar staðreyndir í eyru fólks. En umfram allt - þá er hér gleði og gaman.“

Svo hljóðar formálinn að nýrri plötu hljómsveitarinnar Eilíf sjálfsfróun, sem ber nafnið Sjálfs er höndin hollust og kom út síðastliðinn september. Hljómsveitin er skipuð fjórum æskuvinum úr Mosfellsbæ, þeim Halldóri Ívari Stefánssyni sem syngur, Þorsteini Jónssyni á trommum, Árna Hauki Árnasyni á bassa og Davíð Sindra Péturssyni á hljóðgervil.

 

Nafnið eldra en hljómsveitin

Hljómsveitarnafnið kann ef til vill að vekja undrun og spurningar meðal lesenda. Það á rætur að rekja til einkabrandara hljómsveitarmeðlima frá því í grunnskóla, en þeir hafa þekkst frá því í fyrsta bekk. ,,Við vorum að spila á einhverri árshátíð í áttunda bekk og vantaði nafn á hljómsveitina okkar,“ segir Árni Haukur. ,,Einhverjum fannst Eilíf sjálfsfróun fyndið nafn, en við enduðum á að hætta við, því það er hræðileg hugmynd að hljómsveitarnafni fyrir grunnskólaárshátíð.“

Halldór Ívar segir brandarann hafa óvænt skotið aftur upp kollinum í desember á síðasta ári, þegar bekkurinn hittist aftur. ,,Við ákváðum á staðnum að nú væri kominn tími til að stofna hljómsveitina Eilíf sjálfsfróun.“ Árni bætir við: ,,Okkur fannst þetta eiginlega bara of fyndið til að stofna ekki hljómsveit.“

Ekki strangpólitísk pönkhljómsveit

Nýútkomin plata sveitarinnar, Sjálfs er höndin hollust, inniheldur níu lög sem flest eru stutt, hröð og kraftmikil. Segja má að hljómsveitin sé ,,ekta“ pönkhljómsveit, söngstíllinn er hrár og hljóðfærasetningin einföld, textinn beittur og sviðsframkoman skapheit. Platan spannar breitt svið, allt frá laginu ,,Einræðisherrar götunnar“ sem skilja má sem húmorsfullan hatursóð til strætóbílstjóra, til ,,12 ár and counting“ sem fjallar um loftslagsvána sem ógnar öllu lífi á jörðinni eins og það leggur sig.

,,Við erum samt ekki strangpólitísk pönkhljómsveit eins og margar eru,“ segir Þorsteinn. ,,Við tölum líka bara um hluti sem fara persónulega í taugarnar á okkur, eins og geitunga og strætóbílstjóra. Við sækjum klárlega innblástur til gömlu pönksenunnar, bæði hinnar íslensku og bresku, en við hlustum ekki endilega mikið á pönktónlist.

Hljómsveitinni hefur oft verið líkt við aðrar pönkhljómsveitir. Þeir segja það þó algjörlega ómeðvitað. Þeir sæki ekki innblástur til ákveðinna pönktónlistarmanna, heldur frekar í andrúmsloft og hugmyndafræði pönkstefnunnar í heild. ,,Við viljum ekki einskorða okkur við ákveðinn hljóðheim eða textastefnu, heldur notum við bara það sem böggar okkur þá stundina og setjum það inn í form pönksins,“ segir Davíð Sindri.

Halldór segist þó eiga sér fyrirmyndir þegar kemur að sviðsframkomu. ,,Ég sæki persónulegan innblástur til raddbeitingar Óttarrs Proppé. Mér finnst sviðsframkoma Brynhildar Karlsdóttur í Hórmónum líka mjög skemmtileg. Hún er svo mikill karakter á sviði og það langaði mig að vera líka. Ekki bara standa á sviðinu og öskra í míkrófón.“

 

Óvæntur árangur

Í apríl tók Eilíf sjálfsfróun þátt í Músíktilraunum í Norðurljósasal Hörpu. Þegar tilkynnt var að hljómsveitin hafi komist í úrslit keppninnar kom það meðlimunum nokkuð á óvart. ,,Þetta var algjört flipp,“ segir Halldór. ,,Eins og allt sem þessi hljómsveit gerir. Við vorum bara búnir að æfa saman fjórum sinnum en ákváðum samt að skrá okkur í Músíktilraunir á lokadegi umsókna, rúmum hálftíma áður en fresturinn rann út.“ Þorsteinn segir þá alls ekki hafa búist við því að komast í úrslit. ,,Við bjuggumst ekki einu sinni við því að komast inn í keppnina,“ segir hann. ,,Allt í einu vorum við svo bara mættir upp á svið.“

Þátttaka hljómsveitarinnar í Músíktilraunum reyndist ómetanleg reynsla sem hafði dýrmæt tækifæri í för með sér. Til dæmis fól hún í sér þátttöku í Hitakassanum, námskeiði á vegum Hins hússins, Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar.

,,Það var frábært,“ segir Árni. ,,Þetta voru tíu skipti þar sem okkur var kennt allt mögulegt um tónlistarbransann.“ Auk þess hafi kynnin við hinar hljómsveitirnar verið dýrmæt. ,,Það hefur gefið okkur ótrúlega mikið að kynnast öðru ungu fólki sem er í sömu sporum og við,“ segir Þorsteinn.

 

Skapandi útrás

Þorsteinn lýsir tónlistarsköpuninni sem útrás. ,,Þetta snýst um að koma frá sér innbyggðri reiði í formi tónlistar. Textarnir, sem eru samdir af Árna, eru allir um eitthvað sem við erum reiðir yfir.“ Árni segir stefnu hljómsveitarinnar koma skýrt fram í formálanum að plötunni, sem lesa má í upphafi þessa viðtals.

,,Þetta er spurning um að senda gagnrýni hingað og þangað, til fólks sem heldur að það sé stærra en það er í raun, er með leiðindi og forræðishyggju. Við viljum samt ekki predika eða vera leiðinlegir, heldur í grunninn hafa gaman, dansa og djamma.“

Davíð segir þessa nálgun vinsæla meðal áhorfenda. ,,Maður sá það á salnum í Músíktilraunum að fólk hefur gaman af húmornum í sviðsframkomunni og textanum, enda var það salurinn sem kaus hljómsveitina áfram í úrslit.“

Til viðbótar við léttari texta hljómsveitarinnar inniheldur platan þó einnig pólitískan tón, en þeir fjalla meðal annars um aflandsfélög og spillingu. ,,Við viljum líka tala um stóru hlutina sem maður á að sjálfsögðu að vera reiður yfir. Það er kjarni pönksins að setja út á stjórnvöld og það á fullkomlega rétt á sér, enda höfum við haft alveg nóg að setja út á undanfarið,“ segir Árni. ,,Ég myndi samt ekki segja að í daglegu lífi værum við gífurlega pólitískir. Við erum ekki í ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka og sitjum ekki á kvöldin og ræðum stjórnmál. Við getum samt verið pirraðir fyrir því. Uppáhaldslagið mitt á plötunni er til dæmis lagið ,,12 ár and counting“ sem fjallar um loftslagsmál, en það er málefni sem skiptir mig raunverulegu máli.“

Plötucover - Andrea Dagbjört Pálsdóttir Vatnsdal.jpg

Platan Sjálfs er höndin hollust er aðgengileg á Spotify, en auk þess má fylgjast með hljómsveitinni á Facebook, YouTube og Instagram (@eilif_sjalfsfroun).

Einnig má nálgast plötuna á vínyl í Reykjavík Record Shop.

 

Hér eru nokkur textabrot úr lögum á plötunni:

Mótmæli

Fylkjum okkar liði og flykkjumst út á götu

Berjum potta og pönnur og brennum nokkrar Lödur

Dýfum fyrirmennum í bæði tjöru og fiður

Öskrum yfirvaldið á og leggjum það svo niður

 

Skammdeyjið

[...]

Fólk út á göngum í chemo!

Niðurnídd kjarnorkusíló!

Skil nú loksins af hverju

krakkar verða emo.

[...]

Vanhæfni á flestum sviðum hrjáir samfélagið.

Við leyfum ennþá R.Kelly að taka fokking lagið.

Félagsmálaféhirslurnar tæmdar fyrir annað.

Auðæfi eru í skattaskjólum, ekkert virðist bannað.

 

12 ár and counting

Yfir okkur hanga nokkrir heimsendar í senn,

Hlýnun, mengun, ónæmir sýklar

og valdaóðir menn

Fellibylir fjölmargir sækja nú á sífellt fleiri lönd

Olía og plastrusl þekja

hverja og eina strönd.

[...]

Vörn gegn ímynduðum óvinum

við viljum geta veitt,

svo við byggjum ýmis dómsdagstól

sem eyða - endalaust.

Fyllum sjó af plasti,

nennum ekki að endurvinna neitt

En árlega samt lofum

að við reynum aftur

- í haust