Að Hoppa og Asnast ferða sinna

Ljósmynd/Helga Lind Mar

Ljósmynd/Helga Lind Mar

Deilihjól og rafskútur

Fullorðnar manneskjur á hlaupahjólum er sýn sem fólk á höfuðborgarsvæðinu má fara að venjast. Þau sem hafa verið á ferli á háskólasvæðinu hafa vafalaust tekið eftir alls konar fólki svífandi ferða sinna á hlaupahjólum, hvort sem það eru stressaðir nýnemar eða háttvirtir prófessorar. Frá því í september hefur nemendum á háskólasvæðinu boðist tvær nýjungar í ferðamáta. Um er að ræða rafskútuleiguna Hopp og deilihjólaleiguna Donkey Republic. Miðað við vinsældir þessara farartækja má telja líklegt að samkeppni verði á þessum markaði innan tíðar.  

Deilihjól ættu að vera mörgum kunn enda er Donkey Republic ekki fyrsta leiga sinnar tegundar á Íslandi. Donkey Republic er með hjól á leigu í mörgum borgum erlendis en leigan á rætur sínar að rekja til Kaupmannahafnar. Hér á landi sér fyrirtækið Framúrskarandi um hjólaleiguna.

Hopp er fyrsta rafskútuleigan á Íslandi en rafskúta er nýyrði yfir rafmagnshlaupahjól. Þau sem hafa farið í borgarferð erlendis nýlega hafa kannski nýtt sér svipaða þjónustu en þetta er víða orðinn vinsæll ferðamáti fyrir styttri ferðir. Rafmagnshlaupahjól njóta sívaxandi vinsælda hérlendis en þau hafa rokið út úr þeim búðum sem selja slík tæki.

Upp með snjallsímann

Til þess að leigja hjól eða rafskútu þarf að byrja á því að sækja smáforrit (e. app) í símann. Hopp og Donkey Republic eru bæði með samnefnd smáforrit sem má nálgast bæði í gegnum Android og Apple. Í smáforritunum er hægt að sjá hvar næsta hjól eða rafskúta er staðsett.

Hjá Donkey Republic er bæði hægt að kaupa árs- og mánaðaráskrift en einnig er hægt að borga fyrir staka ferð. Borgað er eftir að ferð lýkur og verður hún hlutfallslega ódýrari eftir því sem lengur er hjólað. Sem dæmi má nefna að ferð sem tekur um hálftíma kostar 300 krónur en ferð sem tekur um tvo tíma kostar 600 krónur. 100 krónur kostar að aflæsa rafskútu hjá Hopp og hver mínúta á henni kostar 30 krónur. Borga þarf sérstakt gjald hjá báðum fyrirtækjum ef farartæki er skilið eftir utan þjónustusvæðis. Þjónustusvæðið er miðsvæðis í Reykjavík í báðum tilvikum en hægt er að skoða það nákvæmlega í smáforritunum.  

Flest þekkja vonandi hjól og hjólareglur en meirihluti fólks er líklega óvant hlaupahjólum. Því skal tekið fram að rafskútuna má einungis nota á hjóla- eða göngustígum. Hver rafskúta er aðeins ætluð fyrir einn. Hún drífur ágætlega upp brekkur og kemst á 25 km/klst. 

Í lok ferðar þarf að skila hjólunum á eina af þeim 40 hjólastöðvum sem sjá má í smáforritinu. Þeir sem leigja sér rafskútu eru beðnir um að leggja hjá hjólastöndum þegar það er í boði en eru annars minntir á að leggja henni ekki fyrir inngöngum, á göngustígum eða römpum. Ferðalagið er endað á því að tekin er mynd af rafskútunni til þess að tryggja að vel hafi verið gengið frá henni. 

Hvorn ferðamátann sem fólk velur eru það að sjálfsögðu hvatt til að vera með hjálm!

Græni fiðringurinn

Deilihagkerfi, fyrirkomulag þar sem fólk skiptist á að nota hluti eða samnýtir þá, fara ört vaxandi. Undir deilihagkerfið flokkast fyrirtæki eins og Donkey Republic og Hopp og líklegt er að fyrirtæki sem þessi séu komin til að vera. Það virðist henta fólki vel að geta skotist í styttri ferðir án þess að fara akandi og einnig er þægilegt að geta skilið farartækin eftir á áfangastað. Kostirnir við slíka þjónustu eru margir en ekki einungis eru rafskútur og hjól umhverfisvænir valkostir heldur getur oft verið þægilegra að nýta sér þá en einkabílinn. Því má í lokin líta á nokkra kosti þess að velja deilihjól og rafskútur:

Enginn bílastæðavandi.

Skemmtilegur ferðamáti.

Enginn útblástur.

Útivist.

Engin umferð.

Hreyfing.

Donkey Republic deilihjólaleigan veitir stúdentum 20% afslátt af áskrift með afsláttarkóðanum: hihjolar1