Loftslagskvíði

„Það er ekki hægt að sannfæra fólk um að þetta séu ekki raunverulegar áhyggjur.“ Ljósmynd/Elín Edda Þorsteinsdóttir

„Það er ekki hægt að sannfæra fólk um að þetta séu ekki raunverulegar áhyggjur.“ Ljósmynd/Elín Edda Þorsteinsdóttir

Loftslagskvíða hefur borið á góma í síauknum mæli undanfarið ár. Fyrirbærið er nýtt af nálinni og hefur því ekki verið rannsakað til hins ýtrasta. Kristín Hulda Gísladóttir, meistaranemi á öðru ári í klínískri sálfræði fullorðinna við Háskóla Íslands og formaður Hugrúnar geðfræðslufélags, veit þó nokkuð um málefnið. Hugrún hefur í samstarfi við Unga umhverfissinna fjallað um tengsl loftslagsbreytinga og geðheilsu.

„Loftslagskvíði hrjáir fólk sem almennt er ekki haldið kvíða og hefur miklar áhyggjur af umhverfismálum. En einnig er líklegt að fólk með almenna kvíðaröskun, sem kemur fram í miklum áhyggjur af alls konar hlutum, hafi einnig áhyggjur af loftslaginu,“ segir Kristín. „Áhyggjur af umhverfismálum eru eðlilegar í ljósi ástandsins og geta hjálpað fólki að bregðast við. Þær geta þó orðið of miklar og haft hamlandi áhrif, til dæmis ef fólk liggur andvaka allar nætur því það hefur svo miklar áhyggjur af umhverfismálum eða ef áhyggjurnar hafi virkileg áhrif á ákvarðanatöku fólks í lífinu, svo sem varðandi barneignir.“ Kristín talar um að loftslagskvíði hrjái einnig börn: „Það eru þá líklega í mörgum tilvikum börn sem eru með almenna kvíðaröskun því þau grípa það sem er í umhverfinu og hafa áhyggjur af því. Kannski eru þetta börn sem hefðu fyrir fimmtíu árum haft áhyggjur af kjarnorkustríði en kvíða núna loftslagsbreytingum.“

        

Sjálfstæður vandi

Kristín segir að loftslagskvíði komi oft fram hjá fólki sem glími yfirleitt ekki við kvíða: „Ég er til dæmis almennt ekki kvíðin manneskja en ég hef miklar áhyggjur af loftslagsvandanum og ég finn það alveg í kringum mig að það eru margir í sömu stöðu. En þetta er vissulega ekki greining, það er enginn greindur með loftslagskvíða. Það er líka af því að þetta er svo nýtt.“

        

Loftslagskvíði ólíkur almennum kvíða

Loftslagskvíði líkist að mörgu leyti kvíðaröskunum á borð við almenna kvíðaröskun, því þau eiga það sameiginlegt að einkennast af miklum og íþyngjandi áhyggjum. Þó er eitt veigamikið atriði sem greinir á milli. „Það sem gerir kvíða að röskun er að það er ekki næg innistæða fyrir honum. Áhyggjur fólks með kvíðaröskun eru óraunhæfar miðað við aðstæður. Loftslagsmálin eru hins vegar raunverulegur vandi. Það er að einhverju leyti munurinn á kvíðaröskun og loftslagskvíða. Það er ekki hægt að tækla þetta þannig að fólk eigi ekki að hafa þessar áhyggjur eða hafa þær í miklu minna mæli eins og í kvíðaröskunum því það er mikil ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af loftslaginu,“ segir Kristín.

 

Raunverulegar áhyggjur

Loftslagskvíði getur haft slæm og hamlandi áhrif á líf fólks. „Hömlurnar eru fólgnar í því að þetta byrjar hafa áhrif á líðan og hegðun fólks til hins verra. Það getur haft mjög hamlandi áhrif á lífið sjálft ef áhyggjurnar eru svo miklar að þær taka yfir annað hugrænt ferli. Ýktasta birtingarmynd þessa væri ef fólk ætti erfitt með að halda uppi samræðum eða hugsa um aðra hluti, hugurinn leitaði stöðugt í áhyggjur af loftslaginu “ segir Kristín sem kveðst jafnframt ekki vita um svo alvarleg dæmi loftslagskvíða. Hún veit þó til þess að Kvíðameðferðarstöðin sé byrjuð að sjá mikla aukningu í skjólstæðingum með loftslagskvíða og hafi því þurft að skoða sérstaklega hvernig eigi að meðhöndla hann, því ekki er hægt að taka á honum eins og kvíðaröskunum. „Það er ekki hægt að sannfæra fólk um að þetta séu ekki raunverulegar áhyggjur. Það er svolítið það sem kvíðameðferð gengur út á: Að sýna fólki fram á að það þurfi ekki að hafa svona miklar áhyggjur. Það er ekki alveg hægt að gera það með sama hætti þegar vandinn er svona ofsalega stór og raunverulegur.“

 

Streita mannkyns og jarðar

Kristínu er mjög umhugað um loftslagsmál og sér tengsl á milli hrakandi geðheilsu og loftslagshamfara. Kristín útskýrir: „Við erum orðin svo vön því hugarfari að það sé bara eðlilegt að keyra sig út, vera undir álagi, gera milljón hluti og mér finnst að við höfum sett þá kröfu á jörðina líka. Við erum að keyra okkur út langt fram yfir öll mörk og við gerum það sama við jörðina. Það er búið að reikna út að það þyrfti átta jarðir til að standa undir neyslumynstri Íslendinga og við látum svolítið eins og við eigum áttfaldar orkubirgðir og við séum átta manneskjur – að við getum átt milljón áhugamál, verið ótrúlega dugleg í ræktinni, mætt í skólann, verið í 100% starfi og öðru 50% starfi með – og að það sé bara flott, að þá séum við að standa okkur vel. Fólk keyrir sig mikið út og endar í kulnun. Við erum að kulna og jörðin er að hlýna.“

 

Tengsl baráttumála

Kristínu eru hugstæð tengsl hinna ýmsu baráttumála og leggur mikið upp úr samvinnu félagasamtaka á Íslandi. „Baráttan gegn neysluhyggju er eitt helsta baráttumál bæði femínista og umhverfissinna af því að neysluhyggjan hefur mjög skaðleg áhrif á staðalímyndir, þá sérstaklega kvenna. Það eru endalausar kröfur um að vera eitthvað ákveðið og kaupa neysluvörur til að verða það, konur þurfa að vera fallegar, eiga réttu hlutina, til dæmis sjampó og förðunarvörur, sem eiga að gera konur líkari þessari staðalímynd – og það sama gildir um karla. Þetta á sérstaklega við með auknum áhrifum samfélagsmiðla og lífsstílsbloggara. Sömuleiðis skiptir neysluhyggja miklu máli í umhverfisvernd. Ofneysla veldur loftslagsbreytingunum. Við erum að keyra jörðina út og nýta meira en hún ræður við. Þótt þessi öfl séu ekki alltaf að berjast saman þá eiga þau sameiginlegt markmið: að draga úr neysluhyggju til að hafa betri áhrif á sjálfsmynd kvenna, auka jafnrétti og draga úr gildi efnislegra og ómerkilegra hluta. Þar komum við líka inn á geðheilsu; neysluvara lætur okkur ekki öðlast raunverulega hamingju, hún lætur okkur aðeins líða vel til skamms tíma. Oft teljum við okkur þó trú um að veraldlegar eignir muni auka lífsánægjuna“             

Það má því segja að loftslagskvíði sé afurð margra samfélagslegra vandamála sem kristallast í hamfarahlýnun. Kristín telur einmitt að mestu framförunum verði náð með samvinnu baráttufólks fyrir bættu samfélagi. „Það hefur enginn orku til að einbeita sér að öllu sem má bæta í samfélaginu. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því sem þarf að laga en það getur enginn verið virkur á öllum sviðum. Þá myndum við keyra okkur út. Mér finnst mikilvægt að þeir sem eru að berjast fyrir umbótum í samfélaginu geri sér grein fyrir tengslunum og starfi saman þegar það er hægt. Til dæmis með því að femínistar og umhverfissinnar beiti sér saman gegn neysluhyggju í stóra samhenginu.“*

 

*Stúdentablaðið mælir með þætti Kristínar Huldu Gísladóttur Umhverfisvernd. Femínismi. Geðheilsa. í útvarpsþáttaröðinni Fólk og fræði.