„Allir geta skrifað uppistand“
Það var þétt setið á Stúdentakjallaranum þann 21. febrúar síðastliðinn á úrslitakvöldi um titilinn „Fyndnasti háskólaneminn 2019“. Hver háskólaneminn á fætur öðrum steig á svið og lét gamminn geisa um málefni líðandi stundar, hlægilegar hliðar hversdagsins og persónulega sigra og ósigra. Mikil spenna var í loftinu þegar tilkynnt var um sigurvegarann, en að þessu sinni var það eðlisfræðineminn Sigurður Bjartmar Magnússon sem bar sigur úr býtum. Blaðamaður Stúdentablaðsins mælti sér mót við Sigurð og ræddi við hann um keppnina, grínið og framtíðina.
Á úrslitakvöldinu segist Sigurður Bjartmar hafa viljað halda uppistand um eitthvað sem allir gætu tengt við, til dæmis tækninýjungar og hliðstæður í íslensku samfélagi og bandarísku. „Ég reyndi að hafa þetta bara einfalt og skemmtilegt og grínaðist með eitthvað sem fólki myndi ekki líða illa yfir.“
Uppistandið var frekar á almennum nótum en persónulegum, en þó sagði Sigurður frá upplifun sinni af því að vinna í versluninni Epli á Laugavegi og fyndnum samskiptum sem hann hefur átt við viðskiptavini verslunarinnar. Hann segir vandmeðfarið að fjalla um eigin persónu í uppistandi án þess að hafa skapað sér nafn sem grínisti: „Fólk veit ekki hvernig týpa ég er þegar ég kem upp á svið svo það er erfitt að gera grín að sjálfum sér, en núna er ég með uppistand í bígerð þar sem ég tala kannski meira um mig.“
Tróð upp með Mið-Íslandi
Hvað innblástur varðar segist Sigurður Bjartmar yfirleitt fá hugmyndir að uppistandi með vinum sínum, en hins vegar komi bestu hugmyndirnar oftar en ekki í draumkenndu ástandi milli svefns og vöku. „Þegar ég er alveg að sofna fæ ég oft hugmyndir og berst þá við að skrifa þær niður í símann minn. Þegar ég les þetta svo yfir daginn eftir er þetta ennþá jafn fyndið.“
Sem fyrirmyndir í uppistandi nefnir Sigurður meðal annars Mið-Ísland hópinn sem stendur þessa dagana fyrir uppistandssýningu í kjallara Þjóðleikhússins. Meðlimir Mið-Íslands voru einmitt dómarar í keppninni um fyndnasta háskólanemann og buðu Sigurði í kjölfarið að taka þátt í sýningunni. Hann segist þakklátur fyrir boðið og þá dýrmætu reynslu sem hann hafi öðlast.
Áhugi númer eitt
„Þrátt fyrir að þetta hafi ekki endilega verið markhópurinn sem ég skrifaði uppistandið fyrir gekk allt mjög vel. Þetta voru auðvitað svolítil viðbrigði, á Stúdentakjallaranum voru vinir mínir í salnum en þarna þekkti ég engan. En þetta var ótrúlega skemmtilegt og góð æfing.“
Að mati Sigurðar Bjartmars skiptir það höfuðmáli í uppistandi að áhuginn sé til staðar. „Þetta er bara eins og með alla aðra hluti, ef þú byrjar að hafa áhuga á þessu þá byrjarðu að skrifa niður brandara í símann þinn. En ef þú hefur engan áhuga á þessu þá myndirðu aldrei skrifa þá niður. Ég held að það séu langflestir færir um að skrifa mjög fyndið uppistand en það hafa bara ekki allir áhuga á því.“
Þá segir hann það vera mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér og umkringja sig fólki sem hefur húmor fyrir manni. „Það sem hindrar fólk í því að skrifa niður uppistand er yfirleitt að það heldur að það sé ekki nógu fyndið. Svo fyrsta skrefið er eiginlega bara að kynnast fólki sem er tilbúið að hlæja að manni.“
Nýtt andlit í bransanum
Aðspurður um framhaldið segist Sigurður stefna á nýtt uppistand. „Það er pæling að halda eitthvað stærra, en strákarnir í Mið-Íslandi hafa hvatt mig mjög mikið áfram og vilja greinilega sjá ný andlit í bransanum. Þeir eru ekki bara orðnir miðaldra heldur komnir í mjög sterka stöðu sem uppistandarar og finnst bara gaman að fá svolitla samkeppni á markaðinn. Það er líka eitthvað af ungu fólki að semja uppistand núna og það væri gaman að gera annaðhvort þátt eða sýningu með einhverjum þeirra.“
Þegar kemur að fjármálum er Sigurður Bjartmar í góðum málum, en í verðlaun á úrslitakvöldinu fékk hann veglegt gjafabréf frá Landsbankanum. Það er þó ekki alltaf tekið út með sældinni að vera fyndnasti háskólaneminn eins og Sigurður hefur komist að raun um.
„Það hefur reyndar ekki gengið áfallalaust að nýta gjafabréfið, það er gígantískt stórt og reyndist eftir allt saman ekki vera alvöru kreditkort. Svo þurfti ég að bera það heim af Stúdentakjallaranum í roki og rigningu en það er nánast ómögulegt fyrir eina manneskju að halda á því. Á endanum fauk ég um koll og hef ekki þorað að fara með það út úr húsi síðan.“