Verkfæri til að velta fyrir sér eigin hæfni og möguleikum

Vefurinn er að færast í þá átt að vera „gagnlegur ungum sem öldnum, foreldrum, kennurum og ráðgjöfum auk þess að styðja við náms- og starfsfræðslu í skólum þar sem hann virðist töluvert mikið notaður,“ segir Arnar. Stúdentablaðið/Unsplash

Vefurinn er að færast í þá átt að vera „gagnlegur ungum sem öldnum, foreldrum, kennurum og ráðgjöfum auk þess að styðja við náms- og starfsfræðslu í skólum þar sem hann virðist töluvert mikið notaður,“ segir Arnar. Stúdentablaðið/Unsplash

„Til eru störf og námsleiðir sem henta öllum,“ er yfirskrift á forsíðu Næstaskref.is en vefurinn aðstoðar fólk úr hinum ýmsu áttum við upplýsingaleit um nám og/eða starf.

„NæstaSkref.is  er upplýsinga- og ráðgjafavefur á vegum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, en tilgangur vefjarins er fyrst og fremst að auðvelda aðgengi að upplýsingum um nám og störf á Íslandi. Þar er að finna um 280 stuttar almennar starfslýsingar, lýsingu á um 150 námsleiðum, rafræna áhugakönnun, upplýsingar um raunfærnimat og vísi að rafrænni ráðgjöf auk þess sem ýmiss konar efni bíður birtingar,“ segir Arnar Þorsteinsson umsjónarmaður síðunnar.

Fyrir öll þau sem velta fyrir sér framtíðinni

Til að byrja með var vefnum ætlað að styrkja fullorðið fólk með takmarkaða formlega menntun. „Upphaflega var um að ræða hluta stærra verkefnis sem ætlað var að efla starfshæfni fullorðinna með litla formlega menntun en vonandi getur vefurinn í raun verið til gagns öllum þeim sem eru að velta fyrir sér framtíðaráformum í tengslum við náms- og starfsval.

Fókusinn við þróun hans er raunar alltaf að færast lengra og lengra í þá átt að hafa mun breiðari skírskotun og vera gagnlegur ungum sem öldnum, foreldrum, kennurum og ráðgjöfum auk þess að styðja við náms- og starfsfræðslu í skólum þar sem hann virðist töluvert mikið notaður.“

Á vefsíðunni eru meðal annars aðgengilegar náms- og starfslýsingar, áhugakönnun, raunfærnimat og rafræn ráðgjöf. Ljósmynd/Skjáskot

Á vefsíðunni eru meðal annars aðgengilegar náms- og starfslýsingar, áhugakönnun, raunfærnimat og rafræn ráðgjöf. Ljósmynd/Skjáskot

Horfðu öfundaraugum til nágrannalanda

Innblásturinn að vefnum kemur frá Skandinavíu. „Við höfðum lengi horft öfundaraugum til nágrannaþjóðanna þar sem finna má vefi á borð við hinn danska UddannelsesGuiden og norska vefsvæðið Utdanning.no sem sannarlega má kalla heildstæð upplýsinga- og ráðgjafarkerfi um nám og störf, nokkuð sem okkur á Íslandi hefur sárlega vantað.

Árið 2012 fékkst Evrópustyrkur þannig að hægt var að hrinda vinnu við vefinn af stað í samvinnu FA og Sérfræðiseturs í ævilangri náms- og starfsráðgjöf. Það var að vísu skammgóður vermir þar sem fjármagnið var strax ári síðar afturkallað, vegna pólitískra sviptivinda og lá vinnan því að mestu niðri fram á haust 2016 þegar ákveðið var að taka þráðinn upp að nýju,“ segir Arnar.

Lengi vel vantað aðgengilegar upplýsingar

Arnar segir að löngum hafi upplýsingar um nám og störf hérlendis verið óaðgengilegar. „Upphaflegt markmið var að búa til heildstætt upplýsinga- og ráðgjafarkerfi um nám og störf á Íslandi sem spratt af þeirri staðreynd að upplýsingar um nám og störf hér á landi hafa lengi verið  brotakenndar og óaðgengilegar og löngu orðið tímabært að gera aðgengilegt efni sem styddi við ráðgjöf og fræðslustarf um tengsl náms og starfs.

Svona til skemmri tíma er stefnan því aðallega að veita upplýsingar og ráðgjöf til fólks óháð stund og stað þó langtímamarkmið tengist því að gera vefinn að sem heppilegustu verkfæri til að velta fyrir sér eigin hæfni og möguleikum í námi og starfi, meta eigin færni og þjálfast í að stýra eigin starfsferli.

Ávinningur hins almenna notanda er vonandi bætt aðgengi að upplýsingum og þjónustu náms- og starfsráðgjafa en hvort tveggja fræðslukerfið í landinu sem og atvinnulífið ættu einnig að hafa hag af því að hlutlausar og samræmdar upplýsingar séu aðgengilegar á einum stað,“ segir Arnar.

Starfaáttaviti á teikniborðinu

Á vefnum er meðal annars mögulegt að taka áhugakönnun en „mikilvægt er að taka mið af eigin áhugasviðum þegar ákvarðanir um nám og störf eru teknar,“ segir á Næstaskref.is.

„Könnunin sem aðgengileg er á vefnum er í raun bara einfaldari útgáfa af Bendli IV sem hugsuð er fyrir fullorðna á íslenskum vinnumarkaði. Þetta verkfæri er unnið í samvinnu við Bendil og í sjálfu sér aðallega hugsað til að leiða fólk áfram að náms- og starfslýsingum á vefnum sem eru eitthvað í áttina að áhuga viðkomandi. Hugmyndin er svo sem ekki að þessi útgáfa sé notuð mikið í ráðgjöf nema þá með allskyns fyrirvörum. Annars eru fleiri slík verkfæri á teikniborðinu, til dæmis starfaáttaviti sem er ekki ósvipuð hugmynd og námshjól H.Í. sem nýlega var gert aðgengilegt,“ segir Arnar.

Það getur verið flókið að fóta sig í nútímasamfélagi. „Í dag er til dæmis nánast óþekkt að fólk mennti sig til tiltekins starfs sem það svo sinnir án mikilla breytinga starfsævina á enda,“ segir Arnar. Stúdentablaðið/Unsplash

Það getur verið flókið að fóta sig í nútímasamfélagi. „Í dag er til dæmis nánast óþekkt að fólk mennti sig til tiltekins starfs sem það svo sinnir án mikilla breytinga starfsævina á enda,“ segir Arnar. Stúdentablaðið/Unsplash

Það er fleira í boði á vefnum, en þar má til dæmis nefna raunfærnimat sem ætlað er fólki sem hefur náð 23 ára aldri og hefur að lágmarki þriggja ára starfsreynslu. Einnig má nefna rafræna ráðgjöf en Arnar segir mikla eftirspurn eftir rafrænu ráðgjöfinni.

„Fyrsta kastið tökum við bara við erindum í gegnum vefinn, svörum einfaldari fyrirspurnum en vísum annars til þeirra náms- og starfsráðgjafa í atvinnulífi eða skólakerfinu sem líklegastir eru til að geta veitt þá ráðgjöf sem þarf í hverju tilfelli fyrir sig. Því er lítið um beina rafræna ráðgjöf á vefsvæðinu sjálfu þó við séum að fikra okkur áfram í samvinnu við þá sem slíkri ráðgjöf sinna svo sem NSHÍ og ráðgjafa símenntunarmiðstöðva.

Af þeim erindum sem berast sjáum við ljóslega þörfina en þau berast á öllum tímum sólarhrings og víða að. Þetta er raunar eitt af því sem hvað mikilvægast er að þróa áfram á vefnum, til alls í senn; koma til móts við breyttar þarfir, auka aðgengi að ráðgjöf og styrkja samstarfsnet náms – og starfsráðgjafa.“

Markviss náms- og starfsfræðsla í skólum „lausnin á flestum heimsins vandamálum“

Aðspurður segir Arnar að nútímamanneskjan eigi gjarnan erfitt með að ákvarða hvaða leið hún vilji feta í lífinu. „Að mörgu leyti má gera ráð fyrir því, möguleikarnir eru fleiri, hraðinn meiri og breytingar tíðari. Í dag er til dæmis nánast óþekkt að fólk mennti sig til tiltekins starfs sem það svo sinnir án mikilla breytinga starfsævina á enda. Þetta kallar á skilvirka upplýsingagjöf, aukna ráðgjöf og ýmis hjálparmeðöl til að auðvelda fólki bæði ákvarðanatökuna og leiðina í gegnum lífið í námi og starfi.“

Arnar minnir í lokin á mikilvægi náms- og starfsráðgjafar. „Hvað NæstaSkref.is varðar erum við vonandi bara rétt að byrja og komin á beinu brautina í átt að markvissari upplýsingagjöf og verkfærum sem hjálpa fólki við að taka sjálfstæðar og upplýstar ákvarðanir um eigin framtíð í námi og starfi. Í beinu framhaldi af síðustu spurningu er þó rétt að hnykkja á nauðsyn markvissrar náms- og starfsfræðslu í skólum sem í mínum huga er lausnin á flestum heimsins vandamálum.“