Opinská umræða um píkuna
„Við erum að vona að það að tala opinskátt um píkuna muni opna umræðuna og verða til þess að láta konum líða eins og þær geti talað um líkama sinn án skammar. Hvort sem það er að tala um blæðingar, túrverki, sjúkdóma tengda þessu svæði eða annað,“ segir Sandra Kristín Jónsdóttir formaður Femínistafélags Háskóla Íslands.
Félagið stendur fyrir dögum sem miða að því að „opna umræðuna um málefni tengd píkunni“ að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Dagarnir standa yfir frá 26. til 28. mars. Stjórn Femínistafélagsins þykir nauðsynlegt að opna umræðuna um píkuna og fræða fólk um hana þar sem vitneskja almennings um píkuna er takmörkuð.
„Ég held að það sé miklu eðlilegra í okkar samfélagi að tala um typpi en það er að tala um píkur. Við þurfum að getað rætt um eigin líffræði til þess að vera meðvituð um hvað sé eðlilegt og hvað ekki, en líka til þess að geta sett í orð og skilið hvað okkur finnst gott,“ segir Sandra.
Aðspurð segir Sandra að það sé enn hálfgert tabú að tala um kynfæri kvenna. „Við teljum að það sé enn mikið tabú að tala um píkuna. Margar konur veigra sér til dæmis við því að leita sér hjálpar þegar eitthvað er að og umræða um sjúkdóma eins og PCOS og Endómetríósu eru frekar nýjar hér á landi.“
Ræða við þingmenn um þungunarrofsfrumvarp
Aukin umræða um píkuna helst í hendur við aukið kvenfrelsi, að mati Söndru. „Við tengjum píkuna sterkt við kvenfrelsi. Sérstaklega í ár þar sem nú er verið er að ræða nýtt þungunarrofsfrumvarp í Velferðarnefnd. Við fórum fyrir nefndina ásamt Kvenréttindafélagi Íslands og ræddum ástæður þess að við teljum að það þurfi að komast óbreytt í gegnum þingið.
Lokaviðburður Píkudaganna í ár verður einmitt umræða um frjósemisfrelsi (e. reproductive freedom). En það er réttur kvenna til þess að ákveða hvort, hvenær, og hvernig þær eignast börn. Þar munum við ræða við þingmenn um margt tengt frjósemisfrelsi og einnig opna fyrir spurningar úr sal. Okkur finnst mikilvægt að þingmenn skynji þrýsting frá samfélaginu að þungunarrofsfrumvarpið verði að lögum.“
Úr Túrdögum í Píkudaga
Píkudagar eru árlegir þemadagar en áður hétu dagarnir þó Túrdagar en ákvörðun um að breyta heiti þeirra í „Píkudagar“ var tekin „vegna breytinga á samfélagsumræðunni.“
Þó verður í einhverjum mæli fjallað um blæðingar, enda það að fara á túr nátengt píkunni. Þá verður meðal annars Túrtorg á Háskólatorgi á miðvikudaginn 27. mars. Þá verða fyrirlestrar um heilsu píkunnar og um fjölnota túrvörur í hádeginu, klukkan tólf 12, á Litla Torgi. „Í kjölfar fyrirlestranna verður Túrvörumarkaður á Háskólatorgi fyrir utan Litla Torg, þar verða alls kyns fjölnota túrvörur til sölu.“
Píkubarsvar og píkukokteill
Píkudagar eru settir í dag, þriðjudaginn 26. mars, klukkan 17 í Stúdentakjallaranum með Píkupöbbkvissi þar sem allar spurningar verða tengdar píkunni. Veglegir vinningar verða í boði fyrir sigurvegarana. Einnig mun listakonan Íris Stefanía lesa upp úr bók sinni „Þegar ég fróa mér – þrjátíu og eitthvað sjálfsfróunarsögur frá konum“. Stúdentakjallarinn selur í tilefni daganna svokallaðan píkukokteil sem samanstendur af brennivíni, Passoa, trönuberjasafa og kokteilkirsuberjum.
Lokaviðburðurinn sem Sandra sagði frá hér að ofan er málþing um frjósemisfrelsi kvenna á Íslandi. Málþingið verður í stofu 102 á Háskólatorgi á fimmtudaginn klukkan fimm. Þar verður rætt við fulltrúa þingflokka um rétt kvenna til að ákveða hvort, hvenær og hvernig þær eignast börn. Sérstaklega verður einblínt á fyrirliggjandi frumvörp um þungunarrof og fæðingarstyrk vegna ættleiðingar, en einnig verður tekið við spurningum úr sal.
Á síðu Píkudaga má finna nánari upplýsingar um þá.