Umhverfisvæn heilsuefling

Stúdentablaðið/Unsplash

Stúdentablaðið/Unsplash

1. Notaðu stigann í stað lyftunnar

Það er góð leið til þess að fá smá líkamsrækt á milli tíma eða vinnutarna í vinnunni. Blóðflæðið kemst þá á hreyfingu og líkurnar á að vöðvarnir verði stífir minnka til muna.  

2. Labbaðu, hjólaðu eða taktu strætó á milli staða

Með því að nota almenningssamgöngur, ganga eða hjóla er möguleiki á að bæta heilsuna, spara pening og minnka mengun á sama tíma. Ef þú býrð hins vegar langt frá þeim stað sem þú ætlar á, gæti verið sniðugt að safna saman fólki í bíla. Þá gefst einnig kostur á góðum félagsskap á sama tíma.

3.Taktu með þér nesti í fjölnota ílátum

Fjölnota ílát geta dregið úr sóun og notkun plasts. Með því móti fer einnig minna rusl í sjóinn þannig að hann mengar minna.

4.Taktu matarafganga í nesti

Með því að gera þetta er möguleiki á að minnka matarsóun, nýta matvælin betur og minnka notkun plastumbúða eins og er oft utan um tilbúinn mat. Á sama tíma er þetta góð leið til að hafa stjórn á mataræðinu sem margir hyggjast oft taka til í á nýju ári.  

5. Hlustaðu á símann á leiðinni heim

Eftir langan vinnu- eða skóladag er oft þörf á slökun. Snjallsíminn getur reynst góð leið til þess, til dæmis með því að búa til lagalista í honum með róandi tónlist sem hægt er að hlusta á í strætónum, á hjólinu eða í göngutúrnum á leiðinni heim.  

6. Minnkaðu notkun samfélagsmiðla í símanum

Eitt af því sem margir fræðimenn og rannsóknir hafa bent á, er að samband getur verið á milli áreitis sem fylgir snjallsímum og kvíða og þunglyndis. Snjallsíminn getur reynst vel á marga vegu, til dæmis þegar kemur að því að hlusta á tónlist, en samfélagsmiðlasmáforritin geta eflaust truflað slökun eða hreyfingu með sífelldum tilkynningum um nýjustu ummælin eða að einhverjum líkaði myndin sem þú settir inn, þú sérð það næst þegar þú opnar tölvuna.

7. Vertu skapandi í náttúrunni

Oft er hægt að nota trjádrumba, bekki eða annað sem fyrirfinnst utandyra til líkamsræktar, líkt og tækin í ræktinni. Hvað með að nota bekkinn á göngustígnum til að gera uppstig eða tré til að gera upphífingar, eða jafnvel að nota stein til að gera kassahopp? Þar myndast góður möguleiki á fersku lofti í leiðinni.

8. Notaðu nuddbolta eða nuddrúllu

Eftir góðan göngu- eða hjólatúr eða langa setu geta margir vöðvar verið stífir. Þá getur verið gott að hafa aðgang að nuddrúllu eða nuddbolta og strjúka honum yfir stíf svæði til að hjálpa þér enn frekar með slökun. Slíkar vörur ættu að fást í flestum íþrótta- eða heilsuvöruverslunum.


9. Gakktu eða hjólaðu í búðina

Vantar skyndilega mjólk eða einhvað í matinn? Notaðu tækifærið og labbaðu eða hjólaðu í búðina. Ef réttri líkamsbeitingu er beitt, gæti þetta jafnvel verið smá lyftingaræfing, ef þú keyptir meira en þú ætlaðir.

10. Notaðu hádegishléið eða kaffitímann vel

Að standa upp og kíkja út að loknum kaffibollanum eða hádegismatnum getur verið góð leið til líkamsræktar. Það þarf ekki að vera langur tími og getur jafnvel reynst vel til að njóta félagskaps við vinnufélagana í öðru umhverfi eða bæta andann á vinnustaðnum.