Tækni til bjargar Móður jörð
Bing Wu er nýr aðstoðarprófessor í Háskóla Íslands við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild. Bing bjó í Singapore í 14 ár, en ríkið er oft notað sem fyrirmynd fyrir grænar borgir. Í þessu viðtali er Bing spurð ýmissa spurninga sem varða umhverfismál á Íslandi og í Singapore, en hún er sérfræðingur í vatns- og skólpmeðferðum.
Bing Wu er upprunalega frá Norðaustur Kína en flutti seinna til Singapore í þeim tilgangi að leggja stund á háskólanám og vinna. Bing á glæstan námsferil að baki en hún fékk bakkalár gráðu sína í matvælaverkfræði frá Landbúnaðarháskóla Kína (China Agricultural University) árið 1999 og meistaragráðu í umhverfisverkfræði frá Námu- og tækniháskóla Kína (China University of Mining and Technology) árið 2002. Bing nam svo doktorsnám sitt í umhverfis- og byggingarverkfræði við Nanyang Tækniháskólann (Nanyang Technological University) frá 2002 til 2007.
Doktorsverkefnið hennar var svo í Washington Háskóla í St. Louis árin 2008-2010. „Eftir mörg ár af rannsóknarstarfi fór ég að leita mér að stöðu í Háskóla og til mikillar lukku fékk ég boð frá Háskóla Íslands,“ segir Bing, sem þáði boðið og hóf störf í HÍ í ágúst 2018.
Bing er sérfræðingur í vatns- og skólpmeðferðum, þá sérstaklega í himnuferlum (e. membrane processes) og umhverfislíftækni. Hún kennir tvö námskeið á þessari önn í HÍ. Annað þeirra er umhverfistækni sem kynnir verkfræðitækni í skólpmeðferðum, tækni fyrir stjórnun loftgæða og tækni í meðferð fasts og eitraðs úrgangs. Hitt námskeiðið sem hún kennir er námskeiðið vatnsgæði þar sem farið er yfir tækni í meðferð drykkjarvatns og jarðvegshreinsunartækni. Á haustönn kemur hún svo til með að kenna námskeið í himnutækni þar sem farið er yfir undirstöðuatriði himnutækni, efnin sem notuð eru og möguleg not þess í ýmsum iðnaði.
En hvernig virkar himnutækni og af hverju að velja himnutækni? „Himnur eða membrur eru ákveðin hindrun sem hleypa í gegnum sig sumum efnum en ekki öðrum,“ útskýrir Bing. „Meðferðir með himnum eru nýtanlegar í ýmsan iðnað með mismunandi tilgang. Himnutækni er mjög skilvirk aðskilnaðaraðferð,“ segir Bing en þessi tækni er mikið notuð til þess að hreinsa skólp og frárennslisvatn.
Skólpmeðferð á Íslandi ábótavant
„Himnumeðferðir skilja eftir sig minna fótspor, lágmarks efnanotkun, minna viðhald og minni mannkraft heldur en meðferðir með sama tilgangi. Einnig skila himnumeðferðir oft betri gæði úrgangs,“ segir Bing.
Á Íslandi er skólpmeðferð alls ekki eins góð og mætti halda. „Skólpið er aðeins hreinsað með fyrsta stigs hreinsun og einnig hef ég heyrt að á dreifbýlum svæðum úti á landi þekkist það jafnvel að engin meðferð sé á skólpi og því sé hleypt beinustu leið út í sjó,“ segir Bing.
Bing telur möguleika á úrbótum á þessu sviði sem eru einnig mikilvægar til að standast kröfur Evrópusambandsins um losun skólps. Einnig er þetta mikilvægt skref Íslands í átt að sjálfbærni. „Sérstaklega með aukningu ferðamanna til landsins og auknu skólpi sem fylgir þeim sem er mikilvægt að meðhöndla rétt til að viðhalda aðlaðandi náttúru landsins.“
Nauðsynlegt að horfast í augu við vandann
Bing telur himnutækni vera tilvalinn kost fyrir Ísland. „Það getur til dæmis verið erfitt að nota hefðbundin líffræðileg niðurbrot skólps vegna kulda og vegna þess hve lítið er af lífrænum efnum í skólpinu. Því getur himnutækni verið góð lausn fyrir skólpmeðferðir á Íslandi.“ Einnig eru möguleikar að nota himnutækni í fiskiðnaði, lyfjaiðnaði og matvælaiðnaði. En þetta eru allt iðnaðir sem mikilvægir eru fyrir íslenska hagkerfið. Himnutækni hefur nú þegar verið notuð hér á landi í lyfjaiðnaðinum samkvæmt Bing.
Bing telur Íslendinga þó vera meðvitaða um umhverfismál miðað við þá sem hún umgengst. „Ég hef tekið eftir að Íslendingar kjósa að keyra rafmagnsbíl eða hjóla í vinnuna.“ Hún telur Ísland þó þurfa að mynda stefnur til að horfast í augu við möguleg umhverfisvandamál sem gætu komið til vegna aukningu ferðamanna. „Það þarf að bæta aðstöðu skólpsöfnunar (klósettaðstöður o.fl.), úrgangssöfnunar og meðferðum á því,“ segir Bing.
Bing bjó í 14 ár í Singapore sem er oft notuð sem fyrirmynd grænna borga og hefur líka ströng umhverfislög. Bing nefnir nokkur dæmi, en til dæmis eru þeir sem henda rusli á götuna sektaðir háum sektum og jafnvel við þriðja brot settir í fangelsi. Einnig getur verið erfitt að nálgast tyggjó í Singapore og má aðeins koma með lítið magn af tyggjói inn í landið.
„Íbúar Singapore eru mjög meðvitaðir um umhverfismál og er kennt allt frá leikskólaaldri um mikilvægi þeirra. Allir í Singapore eru einnig meðvitaðir um skort þeirra á náttúruauðlindum en þá skortir ýmsar náttúruauðlindir eins og ferskvatn og orku. Einnig er stærstum hluta sorps í Singapore safnað saman, endurunnið og endurnýtt frekar en að losa það á urðunarstaði. Á þennan hátt er umhverfismengun takmörkuð,“ segir Bing.
Skólp hreinsað og nýtt sem drykkjarvatn
Þá bætir Bing því við að skólp í Singapore er hreinsað með himnutækni og endurnýtt aftur sem drykkjarvatn, þetta er kallað NEWater. Svokallaðar „grænar byggingar“ eru einnig algengar í Singapore en það eru byggingar sem eru hannaðar með þeim sjónarmiðum að þær séu umhverfislega ábyrgar og sjálfbærar í gegnum allan sinn lífsferil.
„Þökin á þessum grænu byggingum í Singapor eru hönnuð til að safna regnvatni sem er svo notað til kælingar en einnig er áveituvatn endurnýtt til að sturta niður klósettum,“ segir Bing. Bing telur Ísland geta tekið Singapore sér til fyrirmyndar í ýmsum umhverfismálum, þrátt fyrir algjörlegar ólíkar aðstæður, eins og að endurnýta skólpvatn og nýta sorp til orku.
Þegar Bing er spurð hvort hún telji það möguleika að bjarga jörðinni, finnst henni erfitt að svara. „Þetta er stór spurning þar sem hnattræn hlýnun stafar af ýmsum mannavöldum. Ég held þó að hægt sé að draga úr hnattrænni hlýnun ef mannkynið fer að vinna að því.“
Hert lög ekki endilega lausnin
En þarf þá að herða lög sem snúa að umhverfismálum? „Að herða lög getur stuðlað að minni mengun en í sumum tilfellum getur það takmarkað efnahagslega þróun og félagslega virkni. Ég held að mikilvægustu þættirnir séu umhverfisvæn tækniþróun og fræðsla.“ Hún telur einnig mikilvægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, með því að taka upp umhverfisvænni ferla í iðnaði, og bæta úr vitundarvakningu mannkynsins þegar kemur að umhverfisvernd.
En hvernig líkar Bing lífið á Íslandi? „Ég er ánægð á Íslandi þar sem veðurfarið er svipað og í heimabæ mínum í Kína. Ég fékk góða hjálp frá samstarfsfólki mínu þegar ég flutti hingað svo mér leið varla eins og ég væri að flytja í annað land,“ en svo er hún líka að læra íslensku sem hún segir að sé „one of the coolest things in my life.“