Minni sóun, meiri skynsemi
Verkfræðineminn Salvör Ísberg skrifar um leiðir til þess að minnka kolefnisfótspor Háskólans.
Á síðastliðnum árum hefur mikil umhverfisvakning átt sér stað víðs vegar um heiminn. Fólk er að verða meðvitaðara um hvaða áhrif það hefur á jörðina en einnig hvernig hægt er að tileinka sér umhverfisvænni lífstíl sem hefur minni skaðleg áhrif.
Háskólinn hefur verið fremur duglegur í að gera skólann umhverfisvænan en þó er langt í land. Margt smátt geri eitt stórt en það er alls ekki nóg að setja bara flokkunartunnur á víð og dreif um skólann. Til að gera Háskólann að grænum skóla þarf að fara í gegnum ýmsa verkferla og sjá hvar er hægt að minnka kolefnissporið án þess að það koma niður á starfsfólki, nemendum eða gæðum náms.
Vistvænir ferðamátar
Við Háskóla Íslands stunda margir nemendur nám og þeir koma víðs vegar að. Flestir nemendur háskólans búa á höfuðborgarsvæðinu og eitt stærsta skrefið sem Háskólinn getur tekið í umhverfismálum er að takmarka notkun nemenda og starfsfólks á einkabílum í tengslum við háskólann. Margar leiðir eru til þess en þá þarf fyrst og fremst að vera vilji og hvati til staðar svo þetta gangi eftir.
Deilifarartæki
Stundum þarftu að skjótast eitthvað á skólatíma og þá er oft freistandi að fara á bíl, enda þarftu bara að skjótast og koma strax aftur! Til að leysa þennan vanda gæti HÍ boðið nemendum sínum og starfsfólki upp á takmarkaða notkun á deilibílum, með því móti væri hægt að fá bíl lánaðan til þess að skjótast á milli staða. Til að vera extra umhverfisvæn væri hentugt ef bílarnir væru rafmagnsknúnir. Einnig væri sniðugt að geta fengið lánuð hjól til að skjótast styttri vegalengdir.
Öll í strætó
Fólk sem býr nær skólanum eða hefur aðgang að strætó ætti að hafa hvata til að koma ekki á bíl í skólann. Með því að nýta strætó betur þá væru fleiri bílastæði laus fyrir þá sem virkilega þurfa að koma á bíl í skólann. Þá þarf fólk ekki að hafa áhyggjur og mæta snemma í skólann til þess að ná í bílastæði. Með þessu mætti líka fækka bílastæðum og nýta svæðið undir stúdentaíbúðir eða starfsemi skólans.
Rafmagnsknúin háskólaskutla
Möguleiki er á að hafa eins konar háskólaskutlu, að sjálfsögðu rafmagnsknúna, sem færi á milli bygginga. Það er hvimleitt að vera í tíma í Öskju og þurfa síðan að fara í Stakkahlíð 10 mínútum seinna. Að lenda í þannig aðstöðu er eitt af því sem hvetur nemendur til að fara á bíl í skólann.
Rafmagn er framtíðin
Með því að setja upp fleiri hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla á háskólalóðinni væri aukinn hvati fyrir nemendur að mæta á rafmagnsbílum í skólann. Einnig mætti fjölga gjaldskyldum bílastæðum fyrir þá bíla sem ganga fyrir eldsneyti en bjóða upp gjaldfrjáls stæði fyrir rafmagnsbíla.
Það er nefnilega alls ekker á færi allra að nýta sér almenningssamgöngur til að komast í skólann. Sumir nemendur/starfsmenn telja sig þurfa að mæta á bíl t.d. til þess að sækja börn á leikskóla o.s.frv. Það er gott og blessað að þau sem þess þurfa mæti akandi í skólann en enn betra væri ef þau kæmu á rafbíl í stað bensín- eða dísilbíls. Þau sem þurfa að nýta sér einkabíla til þess að komast í skólann ættu að geta gert það en þá þurfa önnur að stíga upp og minnka sína notkun til að sporna við of mikilli mengun. Það að minnka bílanotkun starfsmanna og nema við háskólann væri stórt skref í áttina að því minnka kolefnissporið.
Stóra skrefið í umhverfismálum er í samgöngunum en það eru fjölmörg lítil skref á öðrum sviðum sem einnig gera sitt. Í umhverfismálum er bæði hægt að spara tíma og peninga á sama tíma og umhverfið er sett í öndvegi.
Pappírssóun
Mikil hefð er fyrir því að nemendur skili skýrslum og ritgerðum útprentuðum til kennara. Með forritum líkt og Gradescope má t.d. koma í veg fyrir þessa papírshefð og sporna gegn óþarfa pappírssóun. Í stað þess að blöðum sé fórnað í útprentuð verkefni þá geta kennarar reynt að fylgja tækninni og fara rafrænt yfir slíkt verkefni. Finnist einhverjum kennara það hreinlega ómögulegt þá getur sá hinn sami prentað verkefnið sjálfur út og farið yfir það. Tækniþróun hefur verið á hraðri uppleið undanfarin ár og nú er komin tími til að háskólinn haldi í við hana.
Nú er venja að nemendur verk- og raungreinadeilda fái formúlublöð við lokapróf, t.d. í fögum eins og eðlisfræði eða efnafræði. Það er oft nauðsyn, enda ekki gert ráð fyrir að nemendur læri lotukerfið utanbókar, en þó mætti bæta blöðin og minnka þannig pappírssóun. Í mörgum háskólum erlendis er ekki gert ráð fyrir að nemendur fái formúlublöð frá skólanum í prófin heldur komi þeir sjálfir með formúlublað (iðulega eitt stykki A4) sem þeir hafa sjálfir búið til. Þó færa megi rök fyrir því að formúlublöð frá skólanum séu mergjuð og spari nemendum vinnu þá eru þau samt oftar en ekki frekar tilgangslaus. Með því að gera formúlublöðin sjálf læra nemendur mun meira, þeir ráða hvaða formúlur þeir hafa og hvernig uppsetning þeirra er.
Á vefsvæði Háskólans má finna ýmis formúlublöð sem notuð hafa verið við próf og oftar en ekki eru þau vel yfir þrjár blaðsíður. Með því að láta nemendur búa til sín eigin blöð myndi kostnaður prentkostnaður Háskólans minnka. Sem dæmi má taka 300 manna hóp í eðlisfræði sem er að taka lokapróf. Ef hver einstaklingur fær þriggja blaðsíðna formúluhefti þá eru prentaðar 900 blaðsíðurs fyrir eitt próf og svo bætist auka prent við vegna útprentaðra prófa. Væri ekki mun betra fyrir kolefnisspor skólans ef að hver og einn nemandi kæmi bara með eitt heimatilbúið formúlublað, þ.e. ef hann vill yfir höfuð notast við slíkt?
Kostnaður við 900 blöð er kannski óverulegur en ef við tökum með í reikinginn að það eru fleiri en bara eðlisfræðinemar á fyrsta ári sem fá formúlublöð þá hækkar talan verulega. Með því að sleppa að gera formúlublöð (nema þá í fögum sem er nauðsyn, eins og að prenta út lotukerfið) þá gæti Háskólinn sparað sér nokkra þúsund kalla á hverri önn. Þessa þúsund kalla mætti síðan nota til að gera háskólann enn grænni.
Við eigum bara eina jörð og þurfum því að koma vel fram við hana. Það er ekki nóg að bíða eftir að einhver annar taki af skarið heldur þurfa allir að leggjast á eitt saman. Setjum okkur markmið um það hvernig við viljum gera skóla grænni og göngum svo í verkina. Það er ekki eftir neinu að bíða og megum heldur ekki bíða of lengi.