„Þetta er klárlega ekki hollustubók“

„Við erum ótrúlega mikil jólabörn og okkur finnst gaman að sýna fólki að þetta er auðvelt.“

„Við erum ótrúlega mikil jólabörn og okkur finnst gaman að sýna fólki að þetta er auðvelt.“

Viðtal við Júlíu Sif Liljudóttur um veganisma og matreiðslubókina Úr eldhúsinu okkar

Vegan yfir nótt

Júlía Sif Liljudóttir er viðskiptafræðinemi stendur um þessar mundir að útgáfu á vegan matreiðslubók með systur sinni, Helgu Maríu, sem kallast Úr eldhúsinu okkar. Júlía hefur verið vegan í rúmlega sjö ár. Systir hennar varð vegan um það bil ári á undan Júlíu en hún ákvað það heilsunnar vegna. Júlía segir að það hafi ekki legið nein sérstök ástæða að baki ákvörðuninni að breyta mataræðinu. „Ég flutti til Helgu systur þegar ég byrjaði í framhaldsskóla. Hún og kærastinn hennar voru þá vegan og ég ákvað bara að prófa og hef ekki borðað dýraafurðir síðan. Ég breyttist um nótt, borðaði lambakjöt í kvöldmatinn eitt kvöldið og varð síðan vegan daginn eftir. Flestir sem ég þekki sem eru vegan eiga einhverja sögu á bak við það og margir taka þetta í skrefum. En ég bara breytti því um leið og það voru engar ástæður á bak við það til að byrja með. Þær komu seinna og núna er það klárlega fyrir dýravernd, umhverfið og heilsuna. Ég gæti aldrei hugsað mér að borða kjöt aftur,“ segir Júlía.

Enda oft á því að vera í forsvari fyrir vegan lífsstílinn

Aðspurð segir Júlía að veganismi sé stór hluti af lífi hennar og hafi verið frá fyrsta degi. „Sérstaklega eftir að við stofnuðum Veganistur. Veganistur hefur verið mjög stór hluti af mér og það sem við erum að gera snýst alveg um veganisma,“ segir hún. Hún segir þó að það komi fyrir að hún fái ógeð af orðinu vegan. „Stundum finnst mér umræðan yfirþyrmandi, svona eins og ég sé í forsvari fyrir veganisma,“ segir Júlía. Hún talar jafnframt um það að vera sú manneskja innan vinahópsins sem er vegan og í matarboðum beinist umræðan oftar en ekki að veganisma. Hún bætir við að hún fái reglulega skilaboð frá vinum eða kunningjum sem tilkynna henni að þau séu að prófa sig áfram í veganisma eða séu að minnka kjötneyslu sem hún segir að sé mjög ánægjulegt. 

Aðspurð hvort að hún finni fyrir miklum viðhorfsbreytingum gagnvart veganisma segir Júlía að hún upplifi töluverða breytingu. „Þegar ég var í framhaldsskóla var enginn vegan og ég fékk oft komment um að það sem ég væri að borða væri ógeðslegt eða skrýtið, jafnvel áður en fólk sá matinn. Svo hefur margt breyst og margir eru orðnir vegan. Fyrst fannst fólki þetta skrýtið og spurði mig afhverju ég borðaði ekki bara alvöru mat og eitthvað í þá áttina. En fólk vissi líka oft ekki hvað þetta þýddi. Til dæmis þegar ég fór út að borða þá þurfti ég alltaf að útskýra. Ég endaði oftast á því að segjast að ég væri grænmetisæta með ofnæmi fyrir mjólkurvörum og eggjum. En núna er nóg að segja að þú sért vegan og það vita allir hvað það þýðir. Síðan eru flestallir veitingastaðir með veganúrval. Mér finnst líka mjög margir hættir að borða kjöt sem mér finnst ótrúlega jákvætt.“

Veganistur byrjaði sem Facebook-síða árið 2014 og hefur verið starfrækt síðan þá. Það kom til vegna þess að þær systur, Júlía og Helga, ákváðu að sýna það sem þær væru að elda og hvaða veganvörur væri að finna í verslunum. „Þá var aðeins snúnara að finna veganvörur, þetta var oft að finna í heilsubúðum og kannski og ein og ein vara í matvöruverslunum. Þá vorum við að sýna myndir af þeim og svona,“ segir Júlía. Blogg þeirra systra, veganistur.is, varð til árið 2016. „Þá gerðum við þetta aðeins flottara. Við fórum að setja inn uppskriftir og greinar og því um líkt. Við höfum verið virkar inn á því bloggi síðan þá,“ segir hún.

Katla ræddi við Júlíu Sif á skrifstofu Stúdentaráðs. Ljósmynd/Nanna Hermannsdóttir

Katla ræddi við Júlíu Sif á skrifstofu Stúdentaráðs. Ljósmynd/Nanna Hermannsdóttir

Draumur mjög lengi

Júlía segir að þær systur hafi lengi dreymt um að gera matreiðslubók. „Við byrjuðum fyrir alveg tveimur eða þremur árum að setja niður hugmyndir. En ég er samt mjög ánægð að við gerðum þetta ekki þá af því við erum búnar að læra svo ótrúlega margt síðan þá. Það var engin sérstök ástæða nema það að við vildum koma uppskriftunum okkar á blað og eiga eitthvað eftir okkur. Björt bókaforlag hafði samband við okkur af fyrra bragði varðandi bókina og við erum ótrúlega ánægðar með það samstarf. Það hafa ekki margar vegan- matreiðslubækur verið að koma út, það er meira um hollustubækur, en þetta er klárlega ekki hollustubók. Þetta er venjulegur matur fyrir venjulegt fólk og þetta eru hefðbundnir réttir. Við erum með marga íslenska rétti sem við erum búnar að gera vegan útgáfu af. Til dæmis pönnukökur, kleinur og baunasúpu og bara allt sem maður þarf í rauninni. Þetta eru uppskriftir sem við vildum gera vegan og fannst nauðsynlegt að væru saman í bók. Þetta er allt sem þú þarft og fyrir öll tilefni,“ segir Júlía. Hún bætir því við að allur texti og ljósmyndir sem eru í bókinni séu þeirra. Þá tóku þær meira að segja kápumyndina sjálfar.

Júlía segir að þó erfitt sé að velja séu kleinurnar örugglega uppáhalds uppskriftin hennar í bókinni. „Ég gerði þær fyrst snemma á þessu ári og þá hafði ég ekki borðað kleinur í næstum sjö ár.“ Hún segir að hún eigi samt sem áður mjög erfitt með að velja uppáhaldsréttinn í bókinni. „Allar uppskriftirnar eru svo mikið okkar Helgu og ég er svo ánægð með þær allar þannig það er mjög erfitt að gera upp á milli þeirra. En mac´n´cheese með kasjúhnetuosti er mjög ofarlega. Það er sjúklega gott. Mæli klárlega með því,“ bætir hún við.

Þetta er mjög auðvelt

Fyrstu árin sem þær systur voru vegan var hnetusteik oftast á boðstólum við hátíðleg tilefni. „Það var alveg fínt fyrst en síðan verður maður eðlilega þreyttur á því. Fyrir nokkrum árum byrjuðum við að prófa okkur áfram með innbakaða hátíðarsteik og þá vorum við með Oumph í henni sem er ótrúlega gott og höfum við verið að gera það undanfarin ár. En í bókinni erum við með nýja steik sem er aðeins öðruvísi. En hún er ótrúlega góð og ég mæli hiklaust með henni. Í grunninn er hugmyndin svipuð og með hnetusteik, með alls kyns hnetum og krydduð með fullt af hátíðlegum kryddum en síðan er hún innbökuð í smjördeigi. Við erum líka með uppskriftir að öllu hefðbundna meðlætinu í bókinni. Sósum, brúnuðum kartöflum, eplasalati og slíku. Það er mjög auðvelt að gera þetta allt alveg vegan. Hátíðarkaflinn okkar er stærsti kaflinn í bókinni og langstærsti hlutinn af blogginu okkar líka. Við fáum alltaf spurninguna um hvað við borðum á jólunum, það vefst oft fyrir fólki. Við erum ótrúlega mikil jólabörn og okkur finnst gaman að sýna fólki að þetta er auðvelt,“ segir Júlía að lokum.