Bóksala stúdenta: Verslun í þágu háskólafólks
Ritstjóri Stúdentablaðsins mælti sér mót við Óttarr Proppé, verslunarstjóra Bóksölu stúdenta, og ræddi við hann um aðventuna í Bóksölunni og hlutverk verslunarinnar gagnvart stúdentum. Bóksala stúdenta er staðsett á annarri hæð Háskólatorgs, en auk allra mögulegra og ómögulegra bókatitla er þar að finna vörur á borð við eyrnatappa, ilmkerti, barnaleikföng og skrúfblýanta. Að sögn Óttars er Bóksala stúdenta fyrst og fremst bókabúð en hún sinnir auk þess því hlutverki að þjónusta háskólasamfélagið.
Rólegri stemning á háskólasvæðinu
„Fyrir okkur er það hluti af stemningu háskólasvæðisins að taka þátt í aðventunni og jólaundirbúningnum,“ segir Óttarr aðspurður um hvort aðventan í Bóksölu stúdenta verði með sama sniði og undanfarin ár. „Við erum og viljum vera tengd þessari stemningu, en það er auðvitað sérstakt að á aðventunni þegar jólastressið heltekur þjóðina og allar verslanir eru opnar til miðnættis þá erum við að sigla inn í prófatímabil á háskólasvæðinu. Hjá okkur verður minni ös og meiri rólegheit, og við gerum okkar besta til að halda vel utan um það.“ Óttarr segir það einnig standa til að fá höfunda til að lesa upp úr verkum sínum í Bóksölunni fyrir jólin, en Stúdentablaðið hvetur háskólanema til að fylgjast grannt með Facebook-síðu Bóksölunnar til að missa ekki af dagskránni.
Óttarr segir desembermánuð vera notalegan í Bóksölunni en eftir áramót taki meira annríki við. „Okkar aðalös byrjar eftir jólin þegar skólabækurnar koma inn, en í desember eru bóksalarnir okkar í aðventugírnum. Við erum á fullu að lesa og kynna okkur jólabækurnar til að geta spjallað um þær við viðskiptavini. Við erum ekki með einhver hávaðajólalög heldur viljum við taka þátt í aðventunni með stúdentum á takti stúdenta.“ Þá bendir Óttarr á Bókakaffi stúdenta sem er staðsett í miðri Bóksölunni. „Við gerðum kaffihúsið upp í sumar svo þetta er orðið mjög kósí.“
Jólabókaflóðið í Bóksölunni
Aðspurður um jólabókaflóðið segir Óttarr bókaútgáfuna í ár einkennast af meiri breidd en áður hefur verið. „Það eru til dæmis fleiri smásagnasöfn og ljóðabækur, en þessar bókmenntagreinar voru næstum alveg dottnar úr tísku fyrir nokkrum árum. Í ár eru líka margar bækur sem detta á milli flokka og það er gaman að sjá fleiri höfunda leika sér með formið.“ Óttarr segir útgáfuna hér á landi haldast í hendur við alþjóðlegan bókamarkað. „Við erum með mikið úrval af bókum á ensku og fylgjumst vel með því sem er í gangi erlendis. Við hittum reglulega helstu útgefendur í Bandaríkjunum og í Bretlandi, en þar sér maður einmitt fleiri og fleiri bækur sem falla á milli bókmenntagreina.“
Þá er jólabókaflóðið í ár eitt það stærsta sem verið hefur. „Það er mjög gaman að sjá þessa fjölgun í bókatitlum. Maður heyrir að það hafi til dæmis aldrei komið út jafnmargar skáldsögur og barnabækur og í ár,“ segir Óttarr. Þess þarf vart að geta að Bóksalan er með allar jólabækurnar í ár til sölu í verslun sinni á Háskólatorgi og á www.boksala.is.
Óhagnaðardrifin verslun
Bóksala stúdenta er dótturfélag Félagsstofnunar stúdenta og óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun. Að sögn Óttars er markmið verslunarinnar að bjóða samkeppnisfær og góð verð fyrir stúdenta, starfsfólk háskólans og í raun hvern sem er. „Það er stefna okkar að leggja eins lítið á bækur og við getum. Við erum sjálfseignarstofnun og okkar hlutverk er að þjónusta nemendur og háskólann, en auðvitað þurfum við að borga laun og húsaleigu eins og aðrir. Við þurfum hins vegar ekki að skila arði og getum því leyft okkur að vera almennt ódýrari en aðrar bókaverslanir.“
Óttarr segir Bóksöluna hlúa betur að háskólafólki en margar aðrar verslanir. „Við leggjum áherslu á aðrar vörur en stórmarkaðirnir fyrir jólin. Þeir eru með fáa titla og þá helst metsölubækurnar en við erum frekar að horfa á fjölbreyttan hóp viðskiptavina okkar sem eru að miklu leyti háskólafólk.“ Óttarr segir oft annað höfða til háskólafólks, en Bóksalan reynir til dæmis að eiga bækur Háskólaútgáfunnar alltaf til í hillunum. „Það er gaman að segja frá því að í nóvember í fyrra, þegar verið var að gefa út Arnald og aðrar metsölubækur, þá var mest selda bókin okkar Kristur eftir Sverri Jakobsson.“ Svipaða sögu má segja af jólabókaflóðinu í ár, en að sögn Óttars er bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið, algjör metsölubók í Bóksölunni. „Við virðum þetta mjög mikið við viðskiptavini okkar. Við reynum að draga fram það sem er sérstakt og semjum jafnvel við útgefendur um að fá samkeppnishæfari verð á þá titla,“ segir Óttarr.
Fjölbreytt úrval í Kaupfélagi stúdenta
Aðspurður um Kaupfélag stúdenta segir Óttarr það í raun vera yfirskrift yfir það sem Bóksalan er að gera í annarri vöru en bókum. „Við erum með stóra ritfangadeild sem er tengd starfi stúdenta og þjónustar skrifstofurnar á svæðinu, en síðan erum við líka með mikið úrval af gjafa- og tækifærisvöru. Þar höfum við verið að reyna að einbeita okkur að skemmtilegri og sérstakri vöru sem við flytjum gjarnan sjálf inn. Við verslum mikið frá Hollandi, Þýskalandi og Englandi og leitum eftir vörum sem eru vandaðar, náttúrulegar, umhverfisvænar og jafnvel handgerðar.“
Auk ritfangadeildarinnar býður Kaupfélag stúdenta ekki aðeins upp á gjafa- og tækifærisvörur heldur þjónustar Bóksalan jafnframt þá stúdenta sem búa á stúdentagörðunum. „Við erum með alls kyns vörur sem við hugsum beint og óbeint fyrir þá stúdenta sem búa á háskólasvæðinu,“ segir Óttarr. „Við seljum til dæmis mjög mikið af önglum sem íbúar á stúdentagörðum nota til þess að hengja upp myndir. Sömuleiðis erum við held ég langstærsti smásöluaðili á Íslandi í sölu á eyrnatöppum, við seljum þá í þúsundavís á prófatímabilum.“ Óttarr segir Bóksöluna reyna að fylgjast með því sem stúdentar spyrja um, til dæmis hleðslusnúrur, rafhlöður, tannkrem og dömubindi. „Við reynum að vera með einhvern vísi að því sem nemendur þurfa á að halda. Við erum fyrst og fremst bókabúð en þjónustum háskólasamfélagið.“
Hlúð að barnafjölskyldum
Stúdentar hafa ekki alltaf mikinn tíma til að undirbúa jólin, en það þarf ekki að leita langt yfir skammt þegar kemur að helstu nauðsynjum á borð við jólagjafir, merkispjöld eða límbandsrúllur. „Það er hægt að leita til okkar til að redda sér, hvort sem það er fyrir barnaafmæli eða jólin. Við erum með eitthvað af skrauti og síðan bjóðum við líka upp á innpökkunarþjónustu. Ég segi nú ekki að ég sé bestur í því sjálfur, en þau hérna frammi eru orðin mjög fær í að pakka inn og setja borða á pakkana,“ segir Óttarr.
Óttarr segir Bóksöluna einnig hafa verið að styrkja barnadeildina. „Við erum með meira og minna allar nýju barnabækurnar og líka fjölbreyttara úrval af leikföngum og barnavörum.“ Margir háskólaforeldrar búa á háskólasvæðinu en Óttarr bendir á að það sé þó ekki eina fólkið sem nýti sér betrumbætta barnadeild. „Við erum auðvitað líka að þjónusta starfsfólk háskólans sem ýmist er foreldrar eða ömmur og afar.“
Hægt að treysta á vefinn
Á vef Bóksölunnar, www.boksala.is, er hægt að sjá allar bækur sem eru til í Bóksölunni, bæði íslenskar og erlendar. Þar er einnig hægt að skoða valdar gjafa- og rekstrarvörur. „Það er hægt að panta á vefnum en við hugsum þetta fyrst og fremst sem tæki til að fólk geti séð hvað er til hjá okkur,“ segir Óttarr. „Vefurinn uppfærist reglulega þannig að þegar ný bók kemur til okkar er hún yfirleitt komin inn sama dag eða daginn eftir. Ef bókin klárast dettur hún út af netinu aftur. Svo það er yfirleitt hægt að treysta á vefinn.“
Hugarfarsbreyting í umhverfismálum
Óttarr segir starfsfólk Bóksölunnar leggja sig fram um að fylgja eftir þeirri þróun sem sé að eiga sér stað í umhverfismálum. „Við höfum verið mjög meðvituð um þessa þróun. Það er skemmtilegt að finna fyrir því hvernig okkar viðskiptavinir hættu til dæmis alveg að biðja um plastpoka. Það er orðið langt síðan maður þorði yfirhöfuð að bjóða plastpoka því margir urðu hreinlega reiðir. Við bjóðum núna upp á umhverfisvæna poka og erum að bíða eftir sendingu af glænýjum taupokum merktum Bóksölunni og Háskóla Íslands.“
„Annað sem er áberandi núna í jólabókaflóðinu er að eiginlega allir íslenskir bókaútgefendur eru hættir að plasta bækurnar sínar,“ segir Óttarr. „Þetta var ósiður sem ég veit ekki hvenær var tekinn upp. Núna er minna og minna um að bækur séu plastaðar, en það er helst ef um listaverkabækur eða sérstaklega viðkvæmar bækur er að ræða.“ Þá segir Óttarr útgefendur einnig vera orðna meðvitaða um að prenta á vistvænan pappír, en langflestar bækur í dag eru prentaðar á pappír úr sjálfbærum skógum og með náttúrulegu bleki.
„Við höfum líka tekið þessa hugsun til okkar í aðra vöru,“ segir Óttarr um Kaupfélag stúdenta. „Við erum til dæmis að bjóða upp á ilmkerti sem eru svo náttúruleg að það má borða þau og leitumst við að vera með umhverfisvæn leikföng og gjafavöru. Við höfum fundið þetta líka á kaffihúsinu hjá okkur og það er mjög gaman að fylgja þessu eftir. Það er virkilega gaman að sjá þessa hugarfarsbreytingu.“ Óttarr segir það vissulega vera ákveðna áskorun í verslunarmennsku að vinna eftir þessum gildum. „Verslunarmennskan hefur í gegnum tíðina gengið út á að moka alls konar dóti í gegn.“ Þá segir Óttarr að Bóksalan sé einnig byrjuð að huga að umhverfisvænni umbúðum. „Við erum farin að upplifa bylgju í því hvernig pakkningar eru utan um hluti. Ég er alveg viss um það að draslið sem er að fara út af lagernum hjá okkur í umbúðum og pakkningum hefur snarminnkað.“
Í tengslum við loftslagsumræðuna berst talið að rafbókum. „Við höfum fylgt rafbókaþróuninni mjög vel eftir,“ segir Óttarr. „Við bjóðum upp á tugi þúsunda titla af rafbókum á vefnum okkar. Annars vegar leggjum við áherslu á að vera með rafrænar útgáfur af skólabókunum og hins vegar eigum við í samstarfi við stærsta rafbókaheildsala í Bretlandi. Í gegnum þá erum við með fjölda titla af almennum rafbókum.“ Aðspurður um íslenska titla segir Óttarr að rafbókamarkaðurinn hér á landi sé háður þeim takmörkunum sem smæðin setur honum. „Við höfum ekki fengið íslensku bækurnar á rafrænu formi, en við finnum að það er ákveðin þróun í gangi. Rafbókin er að koma inn en það gerist hægt og rólega.“ Þess má geta að Bóksala stúdenta býður upp á öfluga sérpöntunarþjónustu, sérstaklega á bókum frá Evrópu og á ensku en einnig rafbókum. „Munurinn er sá að þú getur fengið hefðbundna bók á um það bil tíu dögum en rafbókina geturðu fengið á tíu sekúndum.“
Að lokum er vert að benda á að upplýsingar um afgreiðslutíma, tilboð og viðburði í Bóksölu stúdenta má nálgast á Facebook, Instagram og í fréttabréfi Bóksölunnar. Hægt er að skrá sig póstlista fréttabréfsins á vef Bóksölunnar.
Fecebook: /boksalastudenta
Instagram: /boksalastudenta
Vefsíða: www.boksala.is