Ekki missa af þessu á Airwaves
Nú er október genginn í garð og með honum haustið og svo snjórinn. Önnin er komin á fullt og verkefnaskil handan við hornið. Þá er mikilvægt að standa aðeins upp frá lærdómnum og hrista sig (eða sitja og kinka kolli) við ljúfa tóna á Iceland Airwaves. Þeir sem vilja ekki kaupa miða geta skellt sér á „Off-venue“ en margir tónleikastaðir (barir) bæjarins taka þátt í gleðinni og fá listamenn til þess að troða upp.
Airwaves er stór hluti af árinu og fyllir miðbæinn af lífi í nóvember en hátíðin verður haldin í 21. sinn í nóvember. Hátíðin hefst miðvikudaginn 6. nóvember og stendur til og með laugardeginum 9. nóvember. Á hátíðinni koma fram íslenskar og erlendar, stórar og litlar og frægar og nýjar hljómsveitir. Þar sem það eru mörg atriði á dagskránni hefur Stúdentablaðið tekið saman lista yfir nokkrar hljómsveitir sem þið ættuð alls ekki að missa af. Þetta er þó einungis brot af því sem hátíðin býður upp á og það var mjög erfitt að velja einungis nokkur atriði þar sem yfir 130 listamenn frá 20 löndum munu koma fram á hátíðinni. Annað árið í röð er Airwaves hluti af Keychange, átaki sem hvetur tónlistahátíðir til þess að jafna kynjahlutfall tónlistarmanna og annað árið í röð er kynjahlufallið á Airwaves 50/50. Nú er ný stjórn tekinn við skipulagningu Airwaves og spennandi verður að sjá hvernig tekst til. Gleðilegt Airwaves kæru vinir!
Between Mountains
Hljómsveitin Between Mountains vann Músíktilraunir árið 2017 og hlaut sama ár titilinn „Bjartasta vonin“ á Íslensku tónlistarverðlaunum. Síðan þá hefur hljómsveitin komið fram á hinum ýmsu hátíðuum og er nú, þegar þetta er skrifað, að vinna að EP plötu. Meðlimir hljómsveitarinnar eru frá sitthvorum firðinum á Vestfjörðum, Katla Vigdís er frá Suðureyri í Súgandafirði og Ásrós Helga frá Núpi í Dýrafirði. Tónlistin þeirra hefur verið flokkuð sem indie og draumpopp. Þær spila á gítar, píanó, harmonikku, sílófón og ég veit ekki hvað og hvað. Þið megið búast við góðum textum, fallegri röddun og æðislegri sviðsframkomu.
Ég mæli með laginu Into the dark og mæli með að fólk kíki á myndbandið en það var tilnefnt sem myndband ársins 2018 á Íslensku tónlistarverðlaununum.
Alexandra Stréliski
Hér er eitthvað fyrir þá sem njóta þess að hlusta á róandi píanótónlist þegar þeir læra. Fyrir þá sem hita sér te og setjast niður með góða bók meðan rigningin fellur og vindurinn blæs. Fyrir þá sem fíla nýklassík. Alexandra Stréliski ólst bæði upp í París og Montreal. Fyrsta plata hennar, Pianoscope, kom út árið 2010. Síðan þá hefur tónlist hennar meðal annars verið notuð í bíómyndunum Dallas Buyers Club (2013) og Demolition (2016) og þáttunum Big Little Lies (2017).
Ég mæli með laginu Plus tôtaf nýju plötunni hennar INSCAPE. Þeir hátíðargestir sem vilja halda áfram í svipaðri stemningu geta einnig kíkt á Gabríel Ólafs en hann á t.d. lagið Absent minded.
John Grant
John Grant var meðlimur hljómsveitarinnar the Czars og gaf út sex hljómplötur með þeim áður en hann tók sér 5 ára pásu og byrjaði svo sólóferil sinn árið 2010. Fyrsta sólóplata hans, The Queen of Denmark, var valin plata ársins af tónlistartímaritinu Mojo. Hann kom fyrst fram á Iceland Airwaves árið 2011 og stimplaði sig þar með inn í íslenskt tónlistarlíf og íslenskt samfélag en hann er nú búsettur á Íslandi. Tónlist Grants einkennist af mjúkum rokk ballöðum, synthapoppi, folk og indie. Þeir sem fara að sjá hann mega búast við frábærri skemmtun en settið hans í ár verður í Fríkirkjunni og því nánara en oft áður.
Ég mæli með laginu Black Belt af plötunni Pale Green Ghosts.
Whitney
Hljómsveitin Whitney var stofnuð árið 2015 og kemur frá Chicago. Max Kakacek og Julien Ehrlich stofnuðu hljómsveitina eftir sundrung í fyrrum hljómsveit þeirra, Smith Westerns, en síðan þá hafa fleiri bæst í hópinn. Fyrsta platan þeirra, Light Upon the Lake, kom út árið 2016. Önnur platan kom út í ágúst síðastliðnum. Hér er á ferðinni mjúkt indie rokk með keim af draumpoppi en hljómsveitinni hefur verið líkt við Bon Iver með kántrí ívafi.
Ég mæli með laginu No womanaf plötunni Light Upon the Lake.
Æ MAK
Æ MAK er listamannsnafn Aoife McCann sem kemur frá Dublin en auk hennar eru í hljómsveitinni Daniel McIntyre pródúser og Peter Kelly á trommum og slagverki. Þau kynntust í tónlistarskóla í Dublin og stofnuðu hljómsveitina þegar þau útskrifuðust árið 2015. Þau spila synþaskotið og stundum frumskógarlegt alt-popp með tilfinningaþrungnum textum sem er æðislegt að dansa við.
Ég mæli með laginu Dancing Bug, af samnefndri plötu, sem unnið er í samvinnu við electro-indie-house-popp dúóið Le Boom.
Cautious Clay
Joshua Karpeh gengur undir listamannsnafninu Cautious Clay. Karpeh er frá Cleveland í Ohio en býr núna í Brooklyn. Hann æfði á þverflautu þegar hann var sjö ára gamall og þá var ekki aftur snúið, hann var kominn á tónlistarbrautina. Hann heillaðist að blús og jazz, samdi, söng og bætti við sig fleiri hljóðfærum. Hann vann sem fasteignasali í tvö ár og síðan í auglýsingabransanum í eitt ár áður en hann sneri sér alfarið að tónlist. Cautious Clay var valið eitt besta bandið á SXSW hátíðinni í Austin af tímaritinu Rolling Stone. Tónlistin hans er R&B og hiphop með smá svona Frank Ocean stemmara.
Ég mæli með laginu Cold War af fyrstu plötunni, Blood Type
Madame Gandhi
Madame Gandhi er listamannsnafn Kiran Gandhi, raftónlistarkonu, trommara, rappara og aðgerðarsinna. Hún ólst upp í New York og Bombay á Indlandi. Hún hefur trommað með mörgum þekktum tónlistarmönnum á borð við M.I.A, Kehlani og Thievery Corporation. Hún er einnig þekkt fyrir að hafa hlaupið London maraþonið árið 2015 þar sem hún var á blæðingum og leyfði blóðinu að leka frjálst niður buxurnar. Madame Gandhi semur femíníska elektró tónlist sem fagnar konum og upphefur þær.
Ég mæli með laginu The Future is Female af EP plötunni Voices.
The Howl & The Hum
Sam Griffiths er aðalsöngvari og lagahöfundur hljómsveitarinnar. Þegar hann flutti til York sótti hann reglulega svokölluð „open-mic“ kvöld. Þar hitti hann Bradley Blackwell bassaleikara hljómsveitarinnar, Jack Williams trommara, gítarleikarann Conor Hirons og þar með varð til hljómsveit. Þeir segjast draga innblástur frá listamönnum á borð við Leonard Cohen, Phoebe Bridgers, Lizzo og Kendrick Lamar en tónlist þeirra minnir mig á samblöndu af Dikta, Alt-J og The Killers.
Ég mæli með lögunum Godmanchester Chinese Bridge og Portrait I af samnefndum plötum.
Mammút
Hljómsveitin Mammút var stofnuð árið 2003 en þá voru hljómsveitarmeðlimir á aldrinum þrettán til fimmtán ára. Einungis tveimur mánuðum eftir stofnun bandsins tóku þeir þátt í Músíktilraunum og unnu. Fyrsta plötunni þeirra, sem er nefnd eftir hljómsveitinni og kom út 2006 var vel tekið. Hljómsveitin hefur hlotið mörg verðlaun og meðal annars unnið plötu ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í tvígang, fyrst 2013 fyrir Komdu til mín svarta systir og svo aftur 2017 fyrir Kinder Versions. Meðlimir hljómsveitarinnar eru söngkonan Katrína Mogensen, gítarleikararnir Alexandra Baldursdóttir og Arnar Pétursson, bassaleikarinn Vilborg Ása Dýradóttir og trommarinn Valgeir Skorri Vernharðsson.
Ég mæli með laginu Salt af plötunni Komdu til mín svarta systir.
Georgia
Georgia Barnes er söngkona, lagahöfundur og pródúser frá London. Þegar hún var átta ára var hún uppgötvuð sem fótboltastjarna. Hún spilaði fótbolta fyrir Queens Park Rangers F.C. og síðar Arsenal Ladies en hætti og sneri sér að tónlist. Þannig fetaði hún í fótspor föður síns Neil Barnes sem er hluti af electro dúóinu Leftfield. Georgia byrjaði tónlistarferil sinn sem trommari og vann þá meðal annars með Kate Tempest, Kwes og Micachu. Fyrsta platan hennar, Come In, kom út árið 2014 og stimplaði hana inn í tónlistarsenuna. Hún spilar mjög dansvænt electro-popp og hefur sjálf líkt tónlist sinni sem síðpönkaðri hip-hop sálartónlist. Henni hefur verið líkt við Missy Elliot og MIA en hérna gæti líka leynst smá Madonna og Robyn.
Ég mæli með laginu About Work The Dancefloor af samnefndri plötu.
Eins og minnst var á í byrjun greinarinnar þá er einnig hægt að skella sér á „Off-venue“ viðburði eða aðra tónlistarviðburði þar sem bærinn er iðandi af tónlistarlífi þessa dagana. Þeir sem eru ekki með miða geta skellt sér á Airflow á Loft Hostel en þar munu meðal annars stíga á stokk Salóme Katrín, K.óla og danska tónlistarkonan ZAAR. Salóme kemur einnig fram á tónlistarhátíðinni Airwhales á Hlemmi Square.
Salóme Katrín
Tónlistarkonan Salóme Katrín Magnúsdóttir kemur frá tónlistarbænum Ísafirði en þar lærði hún söng í Tónlistarskólanum á Ísafirði og dans í Listaskóla Rögnvaldar Ólafsonar. Salóme sló fyrst í gegn í Söngvakeppni Framhaldsskólanna og var fulltrúi Menntaskólans á Ísafirði tvö ár í röð. Á veturna stundaði hún nám og á sumrin vann hún á Tjöruhúsinu, veitingastað foreldra sinna, og söng fyrir gesti skemmtiferðaskipa. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og nú hefur hún meðal annars komið fram á menningarnótt, í Viðey við tendrun Friðarsúlunnar, á Druslugöngunni og tónlistarhátíðinni KIM í Árósum. Salóme er eins og tónlistarlegt afsprengi Kate Bush og Reginu Spektor. Hún er þokkafull, heillandi og ótrúlega skemmtileg á sviði.
Salóme hefur ekki enn gefið út plötu og því verðið þið bara að mæta, sjá og heyra. Ég mæli með laginu Don’t take me so seriously sem mun koma út snemma á næsta ári. Einnig verður hægt að heyra lagið The End - Demo á plötunni Drullumall #3 sem kemur út á vegum listakollektísins Post-dreifingar.