„Verkfræði og jafnréttismál eiga erindi saman“

Stúdentablaðið/Vera Fjalarsdóttir

Stúdentablaðið/Vera Fjalarsdóttir

Ráður er fyrirtæki sem stofnað var 2018 og sinnir aðallega ráðgjöf og greiningum í tengslum við Jafnlaunastaðalinn sem öllum fyrirtækjum og stofnunum með 25 starfsmenn eða fleiri er skylt að innleiða fyrir lok árs 2022.

 

Á lítilli skrifstofu í Síðumúlanum hafa tvær ungar konur, þær Anna Beta Gísladóttir og Gyða Björg Sigurðardóttir, komið sér vel fyrir. Þar reka þær ungt fyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf og fræðslu í tengslum við stjórnunarkerfi og stefnumótun. Helstu verkefni fyrirtækisins eru að leiða fyrirtæki og stofnanir í gegnum innleiðingu á jafnlaunastaðli og uppfylla skilyrði jafnlaunavottunar. Anna Beta og Gyða segja að það skipti miklu máli að skipulagsheildir hefji innleiðingu á Jafnlaunastaðli með skýra sýn á að markmiðið sé að bæta stöðu jafnréttis og setja jafnréttismál í forgang.  

 

Jafnlaunavottun var lögfest í júní árið 2017 með breytingu á 19. grein jafnréttislaga sem fjalla um launajafnrétti á vinnumarkaði. Meginmarkmiðið er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendum ber að sýna fram á að verið sé að greiða jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og tryggja þannig að launasetning feli hvorki í sér beina né óbeina mismunun. Jafnlaunavottun hljóta þær skipulagsheildir sem hafa uppfyllt allar kröfur Jafnlaunastaðals sem gefinn var út árið 2012 og fengið staðfestingu þess frá faggildri vottunarstofu.

 

Hugmyndin að fyrirtækinu kom upp í mömmuhittingi

„Árið 2013 kom ég að fyrsta innleiðingarverkefninu að Jafnlaunastaðli og var fljótlega ráðin sem ráðgjafi. Ég hafði strax mikinn áhuga á tæknilegum útfærslum fyrir staðalinn sem þá var nýr.  Síðan í gegnum háskólaárin vann ég að allskonar verkefnum þessu tengdu og fékk styrki frá Rannís úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og Tækniþróunarsjóði til að útfæra fyrirtækjalausnir í tengslum við greiningar og starfrækslu jafnlaunastaðalsins“ segir Gyða.

Hugmyndin um að stofna saman fyrirtæki kom fyrst upp þegar Anna Beta og Gyða voru í fæðingarorlofi að ræða málin í mömmuhittingi. Þá höfðu nýlega verið sett lög um jafnlaunavottun. Þegar hugmyndin kom upp að stofna fyrirtæki í kringum ráðgjöf við jafnlaunakerfi sáu þær tækifæri í að verða eigin atvinnurekendur. Gyða segir að það auðveldi uppbyggingu á fyrirtæki að vera með góðan viðskiptafélaga og að takast á við áskoranir og sigra sé skemmtilegra í góðum félagsskap.  „Við erum góðar vinkonur og eigum gott samband fyrir utan vinnuna. Í rekstri höfum við sameiginlega sýn en erum með ólíka styrkleika, við leggjum áherslu á að styrkja ávallt hvora aðra og það er lykillinn að okkar samstarfi,“ segja þær.

 

Nám er góður grunnur að framtíðinni

Gyða og Anna Beta kynntust fyrst í umhverfis- og byggingaverkfræði í HÍ. Gyða segist hafa átt erfitt með að finna sig í náminu á þeim tíma og tók sér því pásu í eitt ár og fór sem Au-pair til Kína. Þegar hún kom aftur heim hóf hún nám í rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún lauk grunnnámi og starfaði samhliða því sem ráðgjafi og og fór síðan í meistarananám þar sem mörg hagnýt verkefni voru í boði sem hún tengdi beint inn í sín nýsköpunarverkefni. Anna Beta lauk bæði grunnnámi og meistaranámi í umhverfis- og byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún starfaði sem burðarþolsverkfræðingur eftir útskrift en fannst spennandi að taka þátt í vinnu í tengslum við jafnlaunastaðalinn. „Staðallinn er séríslenskur, og aðferðarfræðin enn í mótun, en nálgunin gæti orðið fyrirmynd fyrir önnur lönd þegar kemur að launajafnrétti,“ segir Anna Beta. Starfsemi fyrirtækisins byggir því á verkfræðilegum grunni sem nýtist við vinnu í málaflokknum. Gyða segir að jafnréttismál hafi oftar tengst greinum á hugvísindasviði en eigi í raun fullt erindi innan verkfræðideilda, sem og allra annarra deilda.

 

Spennandi að prófa nýja hluti

Gyðu finnst flott þegar fólk tengir námið sitt á námsárunum við eitthvað praktískt og það er mikil aukning á því að námsmenn hafi tækifæri á að tengja nám sitt við atvinnulífið og starfsnám. Námsmenn eru hvattir til að fara út í t.d. frumkvöðlastarfsemi. Hún segir háskólaumhverfið vera skemmtilegan vettvang til þess að prófa sig áfram. Anna Beta tekur annan vinkil; „Þó maður hafi ekki fundið sjálfa/n/t sig á háskólaárunum er samt óþarfi að hafa áhyggjur. Við lok mastersnáms var ég enn að spyrja sjálfa mig hvað mig langaði að gera í framtíðinni. Námið nýtist þó þú gerir ekki nákvæmlega það sem sérhæfingin leiðir til. Það opnar dyr og það er spennandi að prófa nýja og óvænta hluti“.