Tímaflakk í íþróttahúsi háskólans

Ljósmynd/Rizza Fay Elíasdóttir

Ljósmynd/Rizza Fay Elíasdóttir

Eins og við vitum öll er nauðsynlegt að standa stöku sinnum upp frá námsbókunum og rækta líkamann. Í Háskóladansinum, sem er opinn fólki bæði innan og utan háskólans, er boðið upp á námskeið í nokkrum danstegundum, þar á meðal Lindy Hop. Blaðamaður Stúdentablaðsins mælti sér mót við Fanneyju Sizemore, kennara hjá Háskóladansinum, í íþróttahúsi háskólans til að fræðast aðeins um dansinn. Þau Anna María Guðmundsdóttir og Magnús Pálsson, sem kenna með Fanneyju, voru stödd þar líka en þau voru meira en tilbúin að fræða lesendur Stúdentablaðsins um sögu og menningu Lindy Hop.

Ræturnar í Harlem

Lindy Hop rekur uppruna sinn til Harlem í New York rétt fyrir 1930. „Lindy Hop er sprottinn upp úr mörgum dönsum“ segir Fanney. „Hann varð til þegar sveiflutónlistin (e. swing music) kom til sögunnar en sporin í honum byggja til dæmis á Charleston og steppdansi“. Þau segja tónlistina vera eitt af því sem er mest heillandi við dansinn. „Þetta er aðallega sveiflutónlistin frá þriðja og fjórða áratugnum,“ segir Anna. „Við dönsum mikið við tónlist Ellu Fitzgerald og Count Basie til að nefna eitthvað. Hraði tónlistarinnar skiptir ekki endilega máli en það er mikilvægt að það sé sveifla í henni.“

Nokkrar kenningar eru uppi um uppruna nafnsins Lindy Hop en vinsælasta skýringin er sú að nafnið vísi til Charles Lindbergh sem tókst að fljúga yfir Atlantshafið til Parísar um svipað leyti og Lindy Hop var að mótast. „Þá fékk hann gælunafnið „Lucky Lindy“  sem „hoppaði“ yfir Atlantshafið“ útskýrir Fanney.

Dansinn á rætur sínar að rekja til menningar Bandaríkjamanna af afrískum uppruna líkt og sveiflutónlistin sjálf. Snemma fóru þó fleiri að sýna dansinum áhuga og varð það svo að dansstaðurinn The Savoy Ballroom í Harlmen, þar sem Lindy Hop átti sitt fyrsta blómaskeið, varð einn fyrsti opinberi staðurinn í Bandaríkjunum sem veitti fólki aðgang óháð hörundslit. „Þetta var ekki vinsælt hjá öllum,“ segir Magnús. „Mörgum fannst þessi blöndun kynþátta vera siðspillandi. Það að dansararnir væru í líkamlegri snertingu þótti sérstaklega athugavert og voru til að mynda settir mjög háir skattar á dansstaðinn í andstöðuskyni.“

Sveiflutónlistin tók síðar að þróast í nýjar áttir og því fylgdi að dansinn dó svo gott sem. Upp úr 1980 var hann endurvakinn og fór þá einnig að njóta vinsælda á fleiri stöðum, sem sagt ekki bara í Bandaríkjunum heldur til að mynda í Bretlandi og Svíþjóð líka. „Það kom kannski einna helst til af því að fólk sá dansinn í gömlum bíómyndum og langaði tilað læra dansinn sem það sá þar,“ segir Fanney og heldur áfram: „Þetta var fyrir tíma internetsins og í Svíþjóð lagðist fólk í rannsóknarvinnu til að komast að því hvaða dans þetta væri eiginlega. Eftir að hafa fundið það út fengu þau dansara frá New York til að kenna sér Lindy Hop.“ 

Svolítið eins og að LARPa

Lindy Hop snýst þó ekki aðeins um að dansa „Þetta er miklu frekar ákveðinn kúltúr“ segir Fanney og tekur fram að fatastíllinn sé eitt af því sem þyki heillandi við Lindy Hop. „Þetta er smá eins og LARP (Live Action Role Playing). Þú klæðir þig alveg upp í Lindy Hop fatastíl og allt. Þannig að það má segja að þetta sé tímaflakk í leiðinni.“

Þau segja það vera auðvelt að kynnast fólki í gegnum dansinn og Magnús nefnir að fólk sem hefur flutt til Íslands og ákveðið að dansa Lindy Hop hér hafi strax eignast félaga í gegnum dansinn. „Það myndast alltaf samfélag í kringum dansinn sama hvar þú ert.“

Aðspurð segja þau senuna ekki sérstaklega stóra á Íslandi en hún hafi reyndar farið stækkandi síðustu tvö ár. Dansinn á þó tryggan aðdáendahóp um allan heim. „Senan er alveg risavaxin í Berlín til að mynda“  segir Anna María. „Ég veit að Lindy Hop er mjög vinsælt í Montreal og í London er að finna danskvöld á nokkrum mismunandi stöðum á hverju einasta kvöldi.“ Á slíkum danskvöldum hittist fólk gagngert til þess að dansa saman Lindy Hop. „Þegar við förum til útlanda er það fyrsta sem við gerum að hugsa „hvert get ég farið að dansa?“ segir Fanney og hlær.

Haldnar eru Lindy Hop hátíðir um allan heim en þær snúast aðallega um dans. „Við fórum nokkur saman á hátíð í Bandaríkjunum í sumar. Það voru Lindy Hop danstímar á daginn og síðan böll á kvöldin“ rifjar Fanney upp. „Það er hellingur af svona hátíðum um allan heim og hér á Íslandi eru tvær slíkar hátíðir, Arctic Lindy Exchange í haustbyrjun og síðan Lindy on Ice í febrúar.“ 

Ekki lengur „Jack and Jill“

Lindy Hop er svokallaður „félagsdans“ [e. social dance] sem þýðir að einn leiðir og annar fylgir án þess að það sé fyrir fram ákveðið hvaða spor verða tekin. „Eitt af því sem er heillandi við dansinn er að þó svo að einn leiði og annar fylgi þá hefur sá sem fylgir mjög mikið frelsi til að gera það sem hann vill. Lindy Hop er þannig mjög mikið samtal á milli þessara tveggja einstaklinga. Í mörgum dönsum stjórnar leiðarinn að mestu leyti því sem fylgjandinn gerir en það á ekki við um Lindy Hop,“ segir Fanney.

Áður fyrr sáu strákarnir um að leiða og stelpurnar fylgdu en þetta hefur breyst mikið undanfarin ár. Í dag er ekki óalgengt að fólk dansi saman óháð kyni. „Í Lindy Hop keppnum er oft keppt í svokölluðu „Jack and Jill“ þar sem einn leiðari er paraður við fylgjanda án þess að þeir þekkist endilega“ útskýrir Fanney. Nafnið hefur þó gengið í gegnum endurskoðun síðustu ár. „Fólk hefur viljað losna við þessi kynjahlutverk leiðara og fylgjanda svo að heitið „Jack and Jill“ er eiginlega dottið upp fyrir,“ útskýrir Anna María. „Kynin eru jafnvæg í hvort hlutverk fyrir sig og í dag er kannski frekar talað um „Basic March“ eða „Partner Draw.“ Að sama skapi vilji margir geta gengið í bæði hlutverkin og segist Fanney til dæmis hafa viljað læra að leiða einfaldlega til að geta dansað meira. „Þá var ég búin að læra að dansa sem fylgjandi en skráði mig á annað grunnnámskeið þar sem ég gæti lært að leiða líka. Þá kemstu líka svo vel að því hvað leiðari myndi vilja sjá í fylgjanda og öfugt.“ Það er því ljóst að þótt að þeir sem dansa Lindy Hop haldi fast í sögu og rætur dansins séu þeir líka reiðubúin að leyfa honum að þróast í takt við tímann.