Myndaátak Hugrúnar - geðfræðslufélags
Hugrún - geðfræðslufélag var stofnað árið 2016 af sálfræði-, hjúkrunarfræði- og læknanemum við Háskóla Íslands. Síðan þá hefur markmið Hugrúnar verið að auka aðgengi ungmenna að upplýsingum um geðheilbrigði, geðraskanir og úrræði.
Starfsmenn Hugrúnar eru sjálfboðaliðar sem sinna því hlutverki að heimsækja framhaldsskóla á Íslandi og flytja fyrirlestra um ofangreind málefni. Síðastliðið ár hefur Hugrún staðið fyrir stóru verkefni á instagram þar sem félagið deilir ráðum og fræðslu tengdri geðheilbrigði ásamt lýsandi myndum. Myndirnar eru eftir Elínu Elísabetu, teiknara.
Í vetur mun Hugrún halda áfram að sinna fræðslunni í framhaldsskólum með það markmiði að heimsækja alla skóla landsins. Þjálfaðir fræðarar og háskólanemar sinna fræðslunni. Einnig er áætlunin að uppfæra heimasíðu Hugrúnar og auka fræðsluna á síðunni, en á heimasíðu Hugrúnar er að finna alls kyns upplýsingar um geðheilbrigði og úrræði.
Vefsíða: gedfraedsla.is
Instagram: @gedfraedsla
Hér eru nokkrar myndir auk texta úr instagram-átaki Hugrúnar:
Að fara út í náttúruna getur hjálpað til við að draga úr streitu hversdagsins. Það þarf ekki að vera langt í burtu, t.d. út í garð eða annað grænt svæði í næsta umhverfi.
Það getur verið hvetjandi að líta upp til annarra og eiga sér fyrirmyndir en við þurfum að passa að bera okkur ekki of mikið saman við aðra. Það er gott að muna að við erum öll að lifa lífinu á okkar eigin forsendum. Of mikill samanburður gerir okkur oft blind á eigið ágæti.
Svefn er mikilvægur fyrir geðheilsuna. Passaðu að sofa nóg, miðað við þína svefnþörf. Skertur svefn getur meðal annars haft neikvæð áhrif á hugræna færni og tilfinningastjórn, án þess að þú áttir þig endilega á því.
Að hugleiða getur hjálpað til við að læra að þekkja eigin tilfinningar og líðan. Æfðu þig í að sýna þér mildi, forvitni og kærleika.
Geðlyf eru nauðsynleg fyrir suma til að ná bata eða læra að lifa með geðröskun á meðan að aðrir þurfa ekki á þeim að halda. Höfum í huga að þörfin fyrir geðlyf er persónubundin og forðumst alhæfingar varðandi notkun þeirra. Sumir þurfa aldrei lyf, aðrir þurfa lyf í einhvern tíma og enn aðrir taka lyf að staðaldri. Það er engin ein leið réttari en önnur og það þarf alltaf aðstoð fagaðila til að ákveða lyfjatöku og skammtastærðir.