Að sporna við hatursorðræðu 

Um leið og við leyfum ljótri orðræðu að standa án mótmæla erum við líka að senda þau skilaboð að okkur þyki í lagi að leyfa henni að viðgangast. Grafík/Elín Edda Þorsteinsdóttir

Um leið og við leyfum ljótri orðræðu að standa án mótmæla erum við líka að senda þau skilaboð að okkur þyki í lagi að leyfa henni að viðgangast. Grafík/Elín Edda Þorsteinsdóttir

Öll viljum við samfélag sem er laust við mismunun, einelti og hatursorðræðu. Slík orðræða er býsna algeng víða á netinu en það er undir meðborgurum komið að bregðast við þegar farið er gegn gildum sem samfélag þeirra stendur fyrir. Orðræðuna þekkjum við og sjáum reglulega í athugasemdum, á bloggsíðum og í hópum á Facebook og tengist hún oft hinum ýmsu hitamálum. Þegar fullorðið fólk níðist á 16 ára stúlku sem berst fyrir umhverfinu, svívirðir mann og annan fyrir að kjósa að borða grænmeti eða jafnvel fyrir það eitt að vera innflytjandi má spyrja sig hvers vegna það þurfi að velja þessa leið til að koma skoðunum sínum á framfæri. Það er ekki alltaf auðvelt að greina hvort að um tröll sé að ræða, hvort verið sé að fiska eftir athygli eða hvort að um sé að ræða einstakling sem stendur á bak við skoðanir sínar en það skýrist oft í frekari umræðum.

Tröll virðast oft taka sér stöðu sem „aðstoðarmenn djöfulsins“ en eiga í erfiðleikum með að svara fyrir skoðanir sínar með röklegum hætti og leiða í útúrsnúninga á meðan fólk sem stendur á bak við öfgafullar skoðanir er gjarnan til í að ræða hlutina áfram. Í sumum tilfellum á fólk erfitt með að samþykkja að þeirra venjum sé ögrað og þessi leið notuð sem einhvers konar sjálfsvörn. Hins vegar ber að taka öllum ummælum alvarlega þar sem ómögulegt er að segja hver les þau og hver tekur mark á þeim. Það ætti ekki að vera eins auðvelt og það er fyrir fólk að bera út meiðyrði, hræðslu- og hatursáróður og reporthnappurinn dugir skammt. Það er óþægilegt en afar mikilvægt að taka af skarið og því höfum við dregið saman nokkur góð ráð til að hafa í huga þegar haldið er í slaginn.

Áður en lagt er í rökræður á netinu er nauðsynlegt að vera búinn að afla sér góðra upplýsinga um umræðuefnið og vera tilbúinn til að vísa í heimildir. Heimildir trompa skoðanir, jafnvel þó fáir skoði þær sérstaklega en þær sýna einnig fram á að aðili hefur kynnt sér aðstæður og hefur þá einnig meiri sannfæringarkraft heldur en sá sem ekki notast við heimildir. Það er einnig mikilvægt að geta lagað sig að aðstæðum, það er gert með því að taka andstæðingnum alvarlega, hlusta og sýna virðingu sem og opinn huga. Flestir vita að það er mjög erfitt að fá fólk til að skipta algjörlega um skoðun, því er markmiðið ekki endilega að fá andstæðinginn til að snúast hugur, frekar að upplýsa hann og aðra sem lesa. Best er ef að fræðslan virkar gagnkvæmt og allar hliðar teningsins skoðaðar af báðum aðilum. Það er áhrifaríkt að spyrja spurninga og leita að sameiginlegum flötum og sýna að tilgangurinn er ekki einungis að brjóta niður rökfærslu andstæðingsins.

Annað gott ráð er að halda hlutunum á léttu nótunum, vera vingjarnlegur og reyna að ganga út úr rökræðunum í sátt en það er vissulega ekki alltaf hægt, sér í lagi ef umræður leiðast út í persónulegar árásir. Það má alltaf hætta eða taka pásur og velta hlutunum fyrir sér og er það einn kostur þess að rökræða á netinu.

Margir vilja meina að það sé vonlaus iðja að fæða tröllin og að best sé að hundsa þau því annars sé verið að gefa þeim þátttökurétt í umræðunni. Það er vissulega rétt að mörgu leyti en um leið og við leyfum ljótri orðræðu að standa án mótmæla erum við líka að senda þau skilaboð að okkur þyki í lagi að leyfa henni að viðgangast. Það er ekki einungis tröllið sem fær það staðfest heldur líka hinir ósýnilegu lesendur. Höfum það í huga að molar eru líka brauð og við getum ekki alltaf treyst á róttækar aðgerðir eða herferðir gegn hatursorðræðu. Sýnum ábyrgð og leggjum fram okkar skerf til þess umburðarlynda samfélags sem við viljum búa í.