Heilsufarsleg áhrif samfélagsmiðla
Þýðandi: Ásdís Sól Ágústsdóttir
Það má segja að farsímar séu orðnir kærustu samferðamenn okkar á tuttugustu og fyrstu öldinni. Hver hefur ekki orðið skelfingu lostinn þegar síminn er hvergi nærri, til þess eins að finna hann hálfri mínútu síðar heilan á húfi í kápuvasanum? Tæknina er nánast ómögulegt að flýja og því kemur lítið á óvart þegar umræðan beinist að því stöðuga álagi sem fylgir samfélagsmiðlum.
Það leikur enginn vafi á því að Instagram og sambærilegir miðlar hafa sína kosti, til dæmis hvað varðar tengslanet og samskipti við fólk út um allan heim. Þegar áhrifavaldar eru hins vegar farnir að breyta lit himinsins til þess eins að fá betra „feed“ eða til að „láta hann passa betur við klæðaburðinn“ er skiljanlegt að venjulegt fólk upplifi ákveðna kröfu um að allt þurfi að vera fullkomið. Í raun má segja að önnur hver manneskja lifi draumalífinu sínu á Instagram þar sem sjaldan glittir í grámyglulegar hliðar hversdagsins.
Arnar Eggert Thoroddsen, aðjúnkt á Félagsvísindasviði og umsjónarmaður fjölmiðlafræði sem aukagreinar, kennir um þessar mundir sérstakt námskeið um samfélagsmiðla. Námskeiðið er nýtt af nálinni, en Arnar Eggert telur þetta vera málefni sem veki áhuga allra. Þó viðurkennir hann að nemendur sínir skilji viðfangsefnið líklega betur en hann sjálfur. „Það má ef til vill líkja þróun samfélagsmiðla við faraldur,“ segir Arnar Eggert. Hann tekur kaffisopa og lítur sposkur í kringum sig á nemendur sem allir eru á kafi í snjallsímunum sínum. Í námskeiðinu segist hann þó vilja leggja áherslu á bæði jákvæð og neikvæð áhrif aukinnar samfélagsmiðlanotkunar.
Heilsufarsvandamál?
Hefur þú einhvern tíma heyrt talað um svokallaðan sms-háls? Einkennin eru spenna og sársauki í öxlum og hálsi, sérstaklega hjá yngri kynslóðinni, en þetta er bein afleiðing aukinna vinsælda snjallsíma og samfélagsmiðla. Margir sitja klukkustundum saman við tölvuskjá sem er nú þegar talsvert átakanlegt fyrir líkamann en þegar við bætist regluleg samfélagsmiðlanotkun getur allt farið til fjandans. Boginn háls í margar klukkustundir á dag hefur gríðarlega neikvæð áhrif á mænuna og veldur miklum sársauka. Auk þess má nefna önnur heilsufarsleg vandamál sem rekja má til snjallsímanna, til dæmis sjónvandamál, úlnliðsbeinagöng og skort á einbeitingu.
Þá beinist umræðan um samfélagsmiðla oftar en ekki að andlegri heilsu, til dæmis þegar fjallað er um Instagram og Snapchat. „Það hefur verið vinsælt, í stuttum ritgerðum, að skrifa um persónulega sjálfsmynd fólks á Instagram,“ segir Arnar Eggert. „Ritgerðirnar fjalla oftar en ekki um sjálfsmeðvitund notenda á Instagram og hræðsluna við að takast ekki að vera fullkominn.“ Þá lifir fólk í eilífum ótta við að missa af einhverju og upplifir sig sem útundan. Þannig getur verið streituvaldandi að sjá fullkomnar myndir af fallegu fólki. Til viðbótar má nefna áskoranir á borð við #thinspiration sem Arnar Eggert segir minna á sértrúarsöfnuð. Að sitja heima í skammdeginu og fylgjast með áhrifavöldum ferðast um heiminn og heimsækja hvern fallega staðinn á fætur öðrum, skapar óheilbrigðan samanburð og getur valdið kvíða og öfundsýki.
Einnig má minnast á hvernig forritið Snapchat heldur utan um samskipti fólks við aðra notendur. Forritið býr til svokallað „streak“ sem þú annaðhvort heldur til streitu með vinum þínum á hverjum degi eða tapar ef þú missir einn dag úr. „Streak“ skilgreinir þó auðvitað ekki raunverulegan vinskap og tap á því jafngildir ekki vinslitum. Arnar Eggert segir þýðingu þess að halda úti „streak“ í raun vera allt aðra: „Við erum öll stafrænir þrælar stórfyrirtækja sem skapa falska þörf fyrir að bæta sjálfsmyndina.“
Jákvæðar hliðar
„Samfélagsmiðlar geta hjálpað fólki að brjótast úr skelinni og tengjast öðru fólki,“ segir Arnar Eggert. Þrátt fyrir að fjölmiðlar virðist yfirleitt beina sjónum sínum að neikvæðum þáttum samfélagsmiðlanna má ekki gleyma því að þeir geta verið hjálplegir. Hófsöm notkun samfélagsmiðla getur verið frábær. Þeir geta veitt notendum sínum innblástur og gefið þeim vettvang til að koma sér á framfæri þvert á landamæri. Margir hafa tileinkað sér ný áhugamál og prófað nýja hluti sem þeir hefðu líklega annars ekki uppgötvað.
Annar kostur samfélagsmiðla er að þar geta allir fundið sér samastað. Feimna fólkið, það sem ekki virðist hafa rödd í „raunheimum“, getur látið í sér heyra án þess að yfirgefa þægindarammann. Fólkið sem vill tileinka sé heilbrigðari matarvenjur getur fundið fjölmargar uppskriftir á tugum samfélagsmiðla en matarblogg og Youtube-rásir tileinkaðar mataræði hafa lengi notið vinsælda.
Þrátt fyrir töluverða hatursorðræðu í kommentakerfinu er Youtube ágætis vettvangur til að tengjast öðru fólki, finna líkamsræktarmyndbönd og leita sér hjálpar í námi. Það fer ekki á milli mála að Youtube getur truflað mikið, en í lærdómspásum er góð truflun stundum einmitt það sem til þarf. Þá er einnig hægt að beina sjónum að því sem bætir lífsgæðin, breytir óheilbrigðum vönum og bætir námsaga en á Youtube er víða að finna myndbönd og upplýsingar sem hjálpa fólki að ná markmiðum sínum.
Ábyrg notkun samfélagsmiðla
Hér að framan hafa bæði kostir og gallar samfélagsmiðla verið teknir til umræðu. En hvað er til ráða ef þú hreinlega kemst ekki yfir þá tilfinningu að vera ekki að gera nógu merkilega hluti í eigin lífi miðað við samfélagsmiðlana? Í fyrsta lagi er ágætt að minna sig á að búið er að eiga töluvert við margar af þeim myndum sem birtast á samfélagsmiðlum. Í öðru lagi getur vel verið að áhrifavaldurinn sem þú ert að fylgja hafi beðið í langri röð á ferðamannastaðnum til þess eins að ná einni fullkominni mynd af sér sitjandi í rólu og horfandi á hrísgrjónaakrana á Bali. Í stað þess að fyllast vanmætti skaltu hugsa um alla hlutina í þínu lífi sem skipta þig máli og veita þér ánægju
Það er vert að huga að því sem raunverulega skiptir máli í lífinu, til dæmis að verja tíma með fjölskyldu og vinum. Líf áhrifavalda er líklega ekki alltaf eins mikill dans á rósum og því er stillt upp á samfélagsmiðlum. Það getur án efa verið lýjandi að hlaða upp ljósmyndum allan daginn og hafa áhyggjur af því hvort veðrið verði ekki örugglega fullkomið til að taka mynd á ákveðnum ferðamannastöðum. Áhrifavöldum er vissulega oft boðið á skemmtilega staði og virðast stundum verja öllum sínum dögum á suðrænum ströndum en gleymdu því ekki að þeir starfa við að láta ljósmyndirnar og lífið sitt líta svona út. Í því felst mikil vinna sem getur verið þreytandi eins og hvert annað starf. Ef þér líður ennþá illa yfir þínu eigin Instagram „feed-i“ geturðu prófað að apa eftir áhrifavöldum í eina viku. Þú getur breytt og bætt myndirnar þínar, hlaðið upp einhverju nýju á samfélagsmiðlum og séð hvernig þér líkar það.
Annað gott ráð er einfaldlega að takmarka samfélagsmiðlanotkunina. Til eru mörg hjálpleg smáforrit sem stuðla jafnframt að auknum afköstum. Sem dæmi má nefna smáforritið „Forest - stay focused“. Þar ákveður notandinn hversu lengi hann vill vera án snjallsímans og ef markmiðið næst gróðursetur hann eitt stafrænt tré. Ef honum hins vegar mistekst deyr tréð. Ef notandanum tekst ítrekað að ná markmiðum sínum um minni símnotkun gæti hann stuðlað að gróðursetningu fimm trjáa í raunheimum. Það er því tilvalið að taka sér pásu frá símanum í hálftíma eða svo, gróðursetja tré og jafnvel koma einhverju nytsamlegu í verk í millitíðinni.
Framtíð samfélagsmiðla
Aðspurður um framtíð samfélagsmiðla segir Arnar Eggert: „Við erum fyrsta fólkið sem upplifir samfélagsmiðla án þess að vita í raun hvað þeir eru.“ Hann spáir því að eftir tvo áratugi muni fólk hugsa til baka og tala um þá tíma þegar allir voru stöðugt á samfélagsmiðlum, „svolítið eins og börn í sælgætisbúð“. Alveg eins og fólk í dag talar til dæmis um hvernig alls staðar var reykt í gamla daga. Þetta er vissulega bjartsýn framtíðarspá, en fyrst ekki er enn búið að finna upp tímavél er hægt að hugga sig við hugmyndina um framtíð án hinnar eilífu streitu og kvíða sem fylgir samfélagsmiðlum.