Katla og Hófí kynna leikárið 2019-2020
Við Katla og Hófí eigum það sameiginlegt að vera báðar í bókmenntafræði og miklir leikhúsunnendur. Þess vegna fannst okkur kjörið að skrifa saman leikhúsumfjallanir í Stúdentablaðið í vetur. Þar sem leikárið er aðeins nýgengið í garð ákváðum við að búa til lista yfir fimm sýningar hvor sem við erum spenntastar að sjá þetta leikárið.
Þetta leikár einkennist af leikgerðum sem unnar eru upp úr skáldsögum, þar má nefna Meistarann og Margarítu, Kópavogskroniku, Þitt eigið leikrit, Mömmu klikk og Atómstöðina. Okkur bókmenntafræðinemunum fannst það mjög spennandi en reyndum samt að breikka sjóndeildarhringinn og gefa öðrum sýningum séns.
Katla - Topp fimm sýningar fyrir leikárið 2019-2020:
Meistarinn og Margaríta / Þjóðleikhúsið (frumsýnd 26. desember 2019)
Ég var í frábærum áfanga síðasta vor sem fjallaði um rússneskar bókmenntir 20. aldar. Þar fékk þessi skáldsaga eftir Búlgakov mikið andrými og eyddum við miklum tíma í að pæla í henni og þeim hugmyndum sem höfundur varpar fram um hin eilífu viðfangsefni: baráttuna milli góðs og ills, siðleysi og siðferði. Sagan er mjög flókin, marglaga og flakkar mikið um í tíma. Mér finnst mjög spennandi að sjá hvernig þau sem standa að sýningunni ætla að sviðsetja jafn viðamikið verk og þetta.
Kópavogskrónika / Þjóðleikhúsið (frumsýnd 14. mars 2020)
Ég las bókina eftir Kamillu Einarsdóttur þegar hún kom út og var mjög hrifin. Frásögn bókarinnar er beinskeytt, fyndin og gróf og ég er mjög spennt að sjá hvernig þessi þessi saga verður aðlöguð að sviðinu.
9líf / Borgarleikhúsið (frumsýnd 13. mars 2020)
9líf er nýr söngleikur sem skrifaður er eftir lögum eins ástsælasta tónlistarmanns Íslands, Bubba Morthens. Ég er mjög spennt fyrir þessari sýningu helst vegna tveggja þátta. Í fyrsta lagi elska ég söngleiki. Í öðru lagi þá einfaldlega elska ég Bubba.
Vanja frændi / Borgarleikhúsið (frumsýnd 11. janúar 2020)
Borgarleikhúsið setti upp Mávinn eftir Chekhov leikárið 2015-2016. Núna í ár hafa þau ákveðið að sviðsetja annað leikrit eftir hann, Vanja frænda. Ég fór á fyrrnefnda sýningu 2015 og var ekki sérlega hrifin af uppsetningunni. Ég hef þó þessa sýningu með í upptalningunni vegna þess að ég er vongóð um að mér muni finnast þessi sýning góð, bæði vegna þess að ég hef fengið að kynnast og kunna betur að meta Chekhov í gegnum námið mitt og ég er orðin nokkrum árum eldri og er (vonandi) betur í stakk búin fyrir rússnesk leikrit.
Rocky! / Tjarnarbíó (Frumsýnd 17. október 2019)
Þessi sýning byggist vissulega á kvikmyndinni Rocky! þar sem Sylvester Stallone á stórleik. Verkið er splunkunýr einleikur eftir danska leikskáldið Tue Biering. Sagan um Rocky snýst um að yfirstíga hindranir og sigrast á erfiðleikum, en þessi sýning á að fjalla um slíkt hið sama nema frá allt öðruvísi sjónarhorni.
Hófí - Topp fimm sýningar fyrir leikárið 2019-2020:
Ertu hér? (frumsýnd 21. maí 2020), Kartöflur (frumsýnd 24. október. 2019) og Ómissandi karlmenn (frumsýnd 12. mars 2020) / Borgarleikhúsið
Borgarleikhúsið byrjaði nýlega með nýtt spennandi svið, sem skal þó ekki rugla saman við Nýja sviðið. Sviðið heitir „Umbúðalaust - Stúdíó Borgarleikhússins“ og er á þriðju hæðinni. Borgarleikhúsið auglýsti eftir verkum frá ungu sviðslistafólki og margir sóttu um en einungis þrír hópar komust að. Það eru Ást og Karókí með verkið Ómissandi karlmenn, CGFC með verkið Kartöflur og Ásrún Magnúsdóttir og Halla Þórlaug Óskarsdóttir með verkið Ertu hér? Ég veit ekki með ykkur en ég er mjög spennt fyrir þessum sýningum.
Sex í sveit / Borgarleikhúsið (frumsýnd 6. október 2019)
Krakkar, ég dýrka farsa. Farsinn Sex í sveitsnýr aftur í Borgarleikhúsinu nú með nýjum leikurum og nýjum áherslum en það var síðast sett upp þar 1998-1999. Leikstjórinn Bergur Þór Ingólfsson og Gísli Rúnar Jónsson uppfærðu verkið og gerðu tilraun til þess að hreinsa homophobiu og kvenfyrirlitningu úr verkinu, en slíkt hefur lengi verið samgróið försum.
HÚH! / Borgarleikhúsið (frumsýnd 27. september 2019)
Leikhópurinn RaTaTam er mættur með nýja sjálfsleitandi og mannlega sýningu. Þau ætla að rannsaka ófullkomnleika mannsins, draumasjálfið, sjálfsmyndina, leyndarmál og landamæri en það talar vel inn í instagramsósaða heiminn sem við lifum í. „Hvað ef við erum ekki nógu fyndin, þroskuð, æðisleg og sexý?“
Atómstöðin / Þjóðleikhúsið (frumsýnd 1. nóvember 2019)
Halldór Laxness, fyrsti og eini Nóbelsverðlaunahafi Íslands, skrifaði Atómstöðina en hún olli miklum usla þegar hún kom út 1948. Barnabarn rithöfundarins, Halldór Laxness Halldórsson betur þekktur sem Dóri DNA, skrifaði leikgerðina ásamt Unu Þorleifsdóttur. Það verður áhugavert og gaman að sjá hvernig það kemur út. Ebba Katrín Finnsdóttir fer með aðalhlutverkið.
Endurminningar Valkyrju / Tjarnarbíó (frumsýnd 10. október 2019)
Fjöllistahópurinn Endurnýttar væntingar er mættur með dýrðlega og dansandi drag-revíu. Sýningunni er lýst sem mögnuðum dragfögnuði til heiðurs kynngimögnuðu kvenhetjunni Brynhildi. Hvað er ekki spennandi við það? Dans, söngur og drottningar. Ég mæti klárlega.
Það eru margar barnafjölskyldur á Stúdentagörðum og við viljum ekki skilja smáfólkið okkar eftir. Því gerðum við einnig topp 5 lista yfir barnasýningar:
Mamma Klikk / Gaflaraleikhúsið (frumsýnd 19. október 2019)
Hér er á ferðinni leikgerð eftir hinni geysivinsælu bók Mamma klikk! eftir Gunnar Helgason. Meðal leikara eru höfundurinn sjálfur og Felix Bergson. Já, Gunni og Felix munu stíga saman á svið! Því er um að gera að skella sér með fjölskyldunni (eða ein/n/t) og skemmta sér!
Geim-Mér-Ei / Tjarnarbíó (frumsýnd 2. maí 2020)
Þetta er brúðusýning um ferð sex ára Völu út í geim þar sem hún kynnist sólkerfinu, sér loftsteina, svarthol, geimþokur og kynnist geimverunni Fúmm. Sýningin er án orða og hentar því börnum af öllum uppruna. Eftir sýninguna er svo boðið upp á eldflaugasmiðju með brúðunum.
Kardemommubærinn / Þjóðleikhúsið (frumsýnd 18. apríl 2020)
Kardemommubærinn snýr aftur í sjötta sinn á 70 ára afmæli Þjóðleikhússins. Við þekkjum öll þessa sögu og erum tilbúin í þetta nostalgíukast (ef þú þekkir ekki Kardemommubæinn þarftu að skella þér í smá lestur á verkum norska listamannsins Thorbjörns Egners)!
Þitt eigið leikrit II - Tímaferðalag / Þjóðleikhúsið (frumsýnd 28. febrúar 2020)
Ævar Þór Benediktsson snýr aftur í Þjóðleikhúsið með annað leikrit byggt á bókum sínum. Hér er farið í ferð um tíma og rúm þar sem nánast hvað sem er gæti gerst. Áhorfendur stjórna ferðinni með þar til gerðum fjarstýringum og velja hvað gerist í sýningunni. Aldursviðmiðið er 8-16 ára en það er auðvitað bara viðmið og þeir sem vilja ættu að skella sér.
Matthildur / Borgarleikhúsið
Matthildur er þekkt barnabók eftir einn vinsælasta barnabókahöfund samtímans, Roald Dahl. Bókin fjallar um snjalla bókaorminn Matthildi sem öðlast yfirnáttúrulega hæfileika vegna gáfna sinna sem hún nýtir til þess að koma sér niður á vondum skólastjóra og vanhæfum foreldrum sínum. Uppsetning Borgarleikhússins hefur fengið mikið lof en þetta er annað leikárið sem sýningin er sýnd. Hún er hress og skemmtileg, mikið um dans og söngva. Getur ekki klikkað!