Íslenska listasumarið 2018

Sumarið er handan við hornið og verður það smekkfullt af list, þá sérstaklega af tónlist. Ýmsir þekktir tónlistarmenn eru á leiðinni til landsins til að halda sína eigin tónleika, þar á meðal Billy Idol , Jessie J og Katie Melua. Tónlistarhátíðir og listahátíðir verða jafnframt áberandi í ár eins og áður. Það er því ekki seinna vænna að fara að kynna sér hvað íslenska listasumarið hefur upp á að bjóða og Stúdentablaðið kynnir hér brot af því besta.

Ljósmynd/Timothée Lambrecq

Ljósmynd/Timothée Lambrecq

LungA er listahátíð fyrir ungt fólk sem er haldin 13-22 júlí á Seyðisfirði. Boðið er upp á ýmiss konar listsmiðjur sem snúa meðal annars að dansi, tónlist, sirkus, sjónlistum, sviðslistum, fatahönnun, ljósmyndun, veggjakroti, grafískri hönnun, stuttmyndum, teiknimyndagerð og svo mætti lengi telja. Í lok hátíðarinnar eru svo haldnar listsýningar þar sem afrakstur smiðjanna er afhjúpaður og jafnframt er hátíðinni lokað með glæsilegum tveggja daga tónleikum. Í ár spila Páll Óskar, Vök, Princess Nokia, Reykjavíkurdætur, JóiPé & Króli, Alvia Islandia ásamt fleirum. Þema hátíðarinnar þetta árið er kyn og verða haldnir fyrirlestrar tengdir því en markmiðið er að „opna umræðuna um „kyn“ enn frekar“, eins og kemur fram á vef hátíðarinnar.

Listamaður listahátíðarinnar List án landamæra, Aron Kale, hefur verið virkur í listasmiðjum LungA í gegnum árin. Nafn hátíðarinnar „List án landamæra“ er mjög lýsandi en hátíðin hefur það að markmiði að fagna fjölbreytileika mannlífsins og auka jafnrétti í menningarlífinu. Hátíðinni er ætlað að „koma á samstarfi á milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks. Sýnileiki ólíkra einstaklinga er mikilvægur, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni. Sýnileiki hefur bein áhrif á jafnrétti á öllum sviðum“ segir á Facebook síðu hátíðarinnar, öllum er tekið fagnandi og hvers konar list er velkomin. Hátíðin var fyrst haldin á Evrópuári fatlaðra 2003 og hefur hún verið haldin árlega síðan þá. Í ár er List án landamæra haldin 3. til 13. maí um land allt og í þetta skiptið verður lögð áhersla á tímatengdar listir, þ.e ljósmyndir, leiklist, vídjóverk og tónlist.

Ljósmynd/Mark Brown

Ljósmynd/Mark Brown

Listræn fjölbreytni og nýsköpun einkennir Listahátíð í Reykjavík sem verður haldin dagana 1-17 júní á ýmsum stöðum í borginni en teygir hún sig jafnframt út fyrir borgarmörkin. Það verður að segjast eins og er að stærsta númer hátíðarinnar er hinn heimsþekkti kvikmyndaleikari Bill Murray sem kemur fram ásamt einvala liði hljóðfæraleikara svo úr verður „óvenjuleg blanda af klassískri evrópskri tónlist, úrvals bandarískum bókmenntatextum og sönglögum“ samkvæmt Tix.is. Ótal atriði munu setja svip sinn á hátíðina, þar á meðal óperan „Brothers“ sem íslenska óperan setur á svið og nýtt verk eftir Anton Lachky sem íslenski Dansflokkurinn frumsýnir.

Við biðjum veðurguðina að sýna okkur góðvild helgina 21-24 júní. Þá helgi verður tónlistarhátíðin Secret Solstice haldin í fimmta skipti í Laugardalnum en hátíðin fer að stórum hluta fram undir berum himni. Eins og nafn hátíðarinnar gefur til kynna er hún haldin í kringum lengsta dag ársins og sest sólin varla á meðan hátíðin stendur yfir, það er eins gott þar sem tími verður að gefast til að sjá alla þá mögnuðu listamenn sem ætla sér að troða upp á hátíðinni í ár. Þar á meðal eru Stormzy, Clean Bandit, Masego og IAMDDB. Secret Solstice er eflaust ein mest sótta tónlistarhátíð sumarsins en tónlistarhátíðir á austur og Norðurlandi gefa henni ekkert eftir.

Ljósmynd/Aðsend

Ljósmynd/Aðsend

4-8 júlí er þétt dagskrá á Þjóðlagahátíð á Siglufirði. Markmið hátíðarinnar eru meðal annars að hvetja til varðveislu íslenskra þjóðlaga, að stuðla að nýsköpun íslenskrar tónlistar og að stefna saman listamönnum úr ólíkum áttum. Á hátíðinni má að sjálfsögðu finna aragrúa af þjóðlagatónlist og sömuleiðis námskeið og fyrirlestra er snúa að þjóðlagatónlist og fornu handverki. Þrátt fyrir að „hátíðin leggi áherslu á að rækta íslenskan þjóðlagaarf hafa fjölmörg tónverk verið frumflutt á hátíðinni“ eins og segir á vefsíðu hátíðarinnar.

Ljósmynd/Hjalti Árnason

Ljósmynd/Hjalti Árnason

Sannkölluð rokkveisla fer fram á Neskaupstað 11 – 14 júlí, tónlistarhátíðin Eistnaflug. Hátíðin hefur verið haldin síðan 2005 og er hún búin að vaxa gríðarlega síðan þá enda er hún sú stærsta sinnar tegundar hérlendis. Á Eistnaflugi fá áheyrendur að hlusta á metal, þungarokk, rokk og indie tónlist. Á hátíðinni koma meðal annars fram Dimma, þýska metal hljómsveitin Kreator og norska hljómsveitin Gaahls Wyrd. Eitt af forvitnilegustu böndum sem koma fram á hátíðinni er þó pönksveitin Austurvígstöðvarnar sem séra Davíð Þór Jónsson leiðir en sveitin er kennd við harða þjóðfélagsgagnrýni og hafa textar hennar farið öfugt ofan í marga. „Á meðan félagslegt óréttlæti veður uppi hafa Austurvígstöðvarnar skuldbundið sig til að öskra sannleikann yfir gauðrifna gítara, dynjandi bassatóna og dúndrandi trommuslátt“ , eins og kemur fram á vefsíðu Eistnaflugs.

Ljósmynd/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Ljósmynd/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Á hverju ári margfaldast íbúafjöldinn á Borgarfirði Eystri síðustu helgina í júlí. Þá er Bræðslan haldin í 50 ára gamalli fiskverksmiðju í hjarta þorpsins. Það eru einungis 900 miðar seldir á hátíðina, en það er gífurlegur fjöldi þegar tekið er mið af því að íbúar á Borgarfirði Eystri eru ekki nema rúmlega 100 talsins. Gífurlegur fjöldi fólks flykkist til Borgarfjarðar yfir Bræðsluna og eru tónleikarnir ekki það eina sem dregur að, margir kjósa einfaldlega að tjalda þar yfir helgina og anda að sér hinni kynngimögnuðu stemningu sem er í litla þorpinu þessa síðustu helgi júlímánaðar. Tónleikarnir verða ekki af verri endanum þetta árið en Stjórnin mun troða upp ásamt Agent Fresco, Daða Frey, Between Mountains, Emmsjé Gauta og Atomstation í fiskverksmiðjunni þann 28.júlí.

Málverk/Aron Kale

Málverk/Aron Kale