Kona má láta sig dreyma

Ljósmynd/Emil Örn Kristjánsson

Ljósmynd/Emil Örn Kristjánsson

Skrifstofa Stúdentaráðs er staðsett á þriðju hæð Háskólatorgs, með útsýni yfir Vatnsmýrina, einkennandi háskólaskeifuna og malarbílastæðið fallega. Gott er að byrja alla daga á að rölta inn á torgið, koma við í Hámu og fá sér kaffi með smá Oatly-haframjólk (mæli með) og rölta upp á skrifstofu. Setjast niður með funheitan bollann og horfa út yfir malarbílastæðið.

Gætu þessir rómantísku morgnar orðið eitthvað betri?

Reyndar, þegar ég hugsa út í það, gæti útsýnið orðið betra. Ég hugsa oft dreymin um það, á meðan ég sötra á Hámubollanum mínum (með Oatly-haframjólk, auðvitað), hversu fallegur veruleiki það væri ef það væri eitt stórt samfélag stúdenta hér á háskólasvæðinu: fleiri stúdentaíbúðir við Gamla garð, fleiri byggingar í háskólaskeifunni og áframhaldandi uppbyggingu Vísindagarða. Ég vil sjá þjónustukjarna fyrir stúdenta með lágvöruverslun og líkamsrækt, ég vil sjá heilsugæslustöð sem þjónustar háskólasamfélagið, græn útisvæði þar sem fólk á öllum aldri getur komið saman og notið sumarsins sem er framundan.

Ef ég á að taka draum minn enn lengra væri ég jafnvel til í að sjá grænt svæði í staðinn fyrir malarbílastæðið, að Miklabrautin yrði sett í stokk og að 500 stúdentaíbúðir myndu rísa þar sem Fluggarðar standa núna. Kona má nú láta sig dreyma.

Næsti sopi.

Ég horfi enn lengra og sé Landspítalann. Hugsa til þess hversu lengi stúdentum á Heilbrigðisvísindasviði hefur verið lofað glænýrri byggingu fyrir þeirra svið og dreymi um hana. Byggingar á lóðum sunnan við Læknagarð, svokölluð Randbyggð, kæmu í þokkabót og þar væru möguleikar á stúdentaíbúðum fyrir jafnvel masters- og/eða doktorsnema sem vinna á háskólasjúkrahúsinu. Sameiginlegur matsalur þar sem starfsfólk spítalans, vísindafólk, stúdentar og starfsfólk háskólans sitja saman og ræða um nýja staðsetningu spítalans og hlæja. Ah, já.

Ég sit nú við þennan glugga að skrifa þennan pistil með Hámubollann minn. Ég horfi út og hugsa til þess þegar ég sá grasið grænka og fuglana syngja þegar ég labbaði í skólann. Sumarið er rétt handan við hornið og ég óska nemendum og starfsfólki háskólans gleðilegs sumar. Óskandi væri, í náinni framtíð, að við gætum öll saman slegið í heljarinnar grillveislu á lóð Gamla garðs, í návist glænýrra stúdentaíbúða, án svifryksmengunar, eftir að hafa keypt mat fyrir grillið í lágvöruverslun í þjónustukjarna stúdenta. Öll glöð og sæl eftir að hafa komið úr reglulega eftirlitinu frá heilsugæslunni sem stendur á háskólalóðinni og rölt um græna svæðið þar sem nú stendur malarbílastæði.

Kona má láta sig dreyma