Allt í legi! : Mikilvægi skimunar
Tiðni leghálskrabbameins hefur farið lækkandi á Íslandi og greinast nú um 15 konur á ári. Talið er að sú lækkun stafi einna helst af skipulögðum krabbameinsleitum eða svokölluðum skimunum. Skimanir á Íslandi hófust árið 1964 og hafa verið í umsjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbamein hefur þó farið minnkandi síðastliðin ár eða úr 82% árið 1992 í 67% árið 2016 og er það vissulega áhyggjuefni. Nú greinast íslenskar konur tölfræðilega yngri og með alvarlegra stig á leghálskrabbameini en áður en afleiðingar þess geta verið skaðleg áhrif á frjósemi og barneignir.
Upptök sjúkdómsins
Leghálsinn aðskilur leggöngin og legið. Í neðri hluta leghálsins er slímhúðin klædd flöguþekju á yfirborði en í efri hluta hans klæðir kirtilþekja yfirborð slímhúðarinnar. Algengt er að kirtilþekja umbreytist í flöguþekja en leghálskrabbamein á oftast upptök sín í slíkri umbreyttri flöguþekju. Slík umbreyting er talin koma til vegna breytinga á sýrustigi í leggöngum en sýrustig er einmitt eitt af því sem er athugað við leghálskrabbameinsleitir. Leghálskrabbamein er yfirleitt talið þróast frá svokölluðum forstigsbreytingum sem oftast koma fram í flöguþekju. Þessar umbreytingar í flöguþekjunn nefnast í meinafræði frumumissmíð og í þessu tilviki, þ.e. í leghálsinum, er yfirleitt vísað í þær með skammstöfuninni CIN (Cervical Intraepithelial Neoplasia). Eftir alvarleika frumuafbrigðanna er þeim svo skipt upp í flokkana CIN I, CIN II, CIN III. Í leghálsskimun er frumustrok tekið frá leghálsi en það gefur möguleika á að greina þessi mein á forstigi og meðhöndla áður en eiginlegt krabbamein nær að myndast. Því er mikilvægt er að greina þessar umbreytingar snemma og brýnt að fara í skimun um leið og tímabært er orðið.
Mun minni þáttaka á Íslandi en í nágrannaþjóðum
Það er því varhugavert að þátttaka í skimun hefur farið minnkandi að undanförnu en afleiðingar af minnkaðri þátttöku síðastliðin 25 ár eru ekki síst þær að forstigsbreytingar leghálskrabbameins í konum án einkenna ná að þróast í leghálskrabbamein á misalvarlegu stigi. Kristján Oddsson, fyrrverandi yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins, skrifaði nýlega um krabbameinsskimanir í Læknablaðinu og nefndi m.a. að greining og meðferð er á við það sem best þekkist erlendis en þar eð þáttakan er mun dræmari hér á landi en í samanburðarlöndum bendir það til þess að vandamálið liggi í stjórnun og því þarft að breyta skipulagninu skimana. Í evrópskum leiðbeiningum er miðað við að þáttaka sé viðunandi ef hún er yfir 70% en þó talið æskilegt að hún sé meiri en 85% og því mikið áhyggjuefni að á Íslandi sé hún einungis 67%. Í Svíþjóð er þátttaka í leighálskrabbameinsleit t.a.m. 82% og 92% í aldurshópnum 23-25 ára en þátttaka fyrir þann aldurshóp á Íslandi er einungis 57%. Þá má þess geta að krabbamein í leghálsi eru yfirleitt einkennislaus til að byrja með og er þ.a.l. þeim mun erfiðara að grípa inn í þegar einkenni láta sjá sig en á Vesturlöndum uppgötvast tilfelli yfirleitt við skimanir.
Kynsjúkdómavörtur áhrifavaldur
Þó umbreytingar í flöguþekju séu yfirleitt forsenda leghálskrabbameins eru þær ekki einu orsökin. HPV-veira, sem smitast við kynmök, er nauðsynleg forsenda fyrir myndun flestra illkynja æxla á þessum stað. Á síðari árum hefur orðið vart við fjölgun kynsjúkdómavarta og hafa þær fundist í nokkru mæli meðal kvenna með leghálskrabbamein sem og hjá körlum með krabbamein í getnaðarlim. Það eru einna helst HPV 16 og 18 sem eru taldar hafa áhrif á þróun krabbameins og hefur nýlega verið tekið í notkun bóluefni sem beinist gegn þeim veirum í því skyni að fyrirbyggja krabbamein í leghálsi en bólusetningin virkar þó einungis ef einstaklingur hefur ekki stundað samfarir fyrir. Þess skal þó geta að HPV-veiran veldur ekki krabbameini ein og sér.
Hægt að greina meinið á hulinstigi
Leghálskrabbamein er eini illkynja sjúkdómurinn sem unnt er með einföldum hætti að finna bæði á forstigi og hulinstigi og gengur skimunin út á það. Leitin byggist á frumustroki, svonefndri leghálsstroku, og snýst um að leita að forstigsbreytingunum sem geta gefið til kynna hvort konan er í áhættu að fá krabbamein í leghálsi. Leghálsstroka tekur einungis fáeinar mínutur og er að öllu jöfnu sársaukalalus. Einstaklingur sest í þar til gerðan stól og setur fótleggina í stoðir, þá kemur læknirinn svokölluðum andagoggi fyrir í leggöngunum til að opna þau betur og tekur svo strok með pinna. Forstigsbreytingar leghálskrabbameins er svo skipt í fjögur stig, hið fyrsta með vægustu breytingunum en hið fjórða með mestu en lögð er rík áhersla á að forstigsbreytingar eru ekki krabbamein. Forstigsbreytingar eru þó undarfari og aðvörun um að krabbamein geti myndast innan fárra ára ef ekkert er að gert og því skiptir sköpun að komast að því sem fyrst. Ef forstigsbreytingin er á 1. eða 2. forstigi er einstaklingi boðið að koma aftur í skoðun sama ár og ef breytingin hefur þá horfið eru tekin ný sýni árlega. Ef breytingin er á 3. eða 4. forstigi er konan kölluð inn til leghálsspeglunar og er þá leghálsinn skoðaður og vefjasýni tekin frá grunsamlegum svæðum. Bæði með leghálsstrokunni og leghálsspegluninni má greina krabbamein á algjöru byrjunarstigi þ.e. hulinstigi áður en nokkur einkenni eru ljós og því mikilvægi krabbameinsleitar mikil. Ef sjúkdómurinn finnst á hulinstigi er brugðist við með keiluskurði sem er talin einföld skurðaaðgerð en ef breytingin er komin lengra verður meðferðin viðfangsmeiri í samhengi við útbreiðslu og breytingarstigi frumnanna.
Því er ljóst að mikilvægi skimunar er gríðarlegt og í raun magnað að hægt er að komast að forstigsbreytingum þessa sjúkdóms á jafn auðveldan máta og leghálsstroka er. Nú er í skoðun hjá heilbrigðisráðuneytinu hvort heppilegra sé að heilsugæslurnar hafi umsjón með krabbameinsleit og hvort það myndi skila aukinni þáttöku. Við þá skoðun er m.a. stuðst við að fólk sækir sér iðulega frekar hjálp í nærumhverfi sínu sem og að þá yrði greiðslubyrgði sjúklings minni en í dag. Ekki er vitað hvenær þeirri vinnu líkur og hvort skimanir muni fara af borði Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins en þær fara þó fram þar um sinn og til þess að panta tíma þarf einungis hringja í 540-1900.