Sólargeisli að sunnan: Viðtal við Vilhelm Neto

Villi Neto.jpeg

Hver er Vilhelm Neto?

Vilhelm Neto er 25 ára leiklistarnemi á lokaári sínu í námi við CISPA sviðslistarskólann í Kaupmannahöfn.

Vilhelm uppgötvaði reyndar um daginn þegar hann fékk danskt greiðslukort útgefið að hann hét alls ekki Vilhelm, heldur Wilhemlm. Kom þá í ljós að hann hafði verið skráður í danska kerfið undir nafninu Wilhemlm og tók við tveggja vikna ferli til að fá nafnið leiðrétt innan danska kerfisins. En eins og Wilhemlm einum er lagið tók hann því á léttu nótunum og sá húmorinn í þessu. Flestir þekkja þó Vilhelm sem Villa Neto, manninn á veraldarvefnum sem gerir stutta sketsa sem einfalda okkur öllum að komast gegn um daginn.

Þau okkar sem fylgjast með Villa gegnum samfélagsmiðla vita að hann er sannkallaður gleðigjafi. Í kringum Villa er einhver ótrúlega smitandi gleði. Líklega er hún svona smitandi vegna þess hve einlæg hún er.

Uppvaxtarárin í Portúgal

Villi er fæddur í Reykjavík en flutti mjög ungur ásamt fjölskyldu sinni til Portúgals, en hann á portúgalskan föður og íslenska móður. Villi segir það hafa verið gott að alast upp í Portúgal. „Þetta var mjög rólegt, ég bjó í strandbæ sem var minni en Reykjavík. Það var fyndið þegar ég flutti aftur til Reykjavíkur að vera að flytja í stærri borg.“ Vilhelm hélt sterkri tengingu við Ísland og minnist þess sérstaklega að amma hans lagði það á sig að taka íslenskt barnaefni upp á myndbandsspólur og senda síðan til hans. „Mamma talaði mest íslensku við mig en ég talaði mestmegnis portúgölsku, svo allir á heimilinu skildu hvað væri í gangi. Nema kannski þegar ég var eitthvað pirraður út í pabba, þá gat ég talað um það á íslensku við mömmu,“ segir Villi.

Þó mæðginin hafi átt sitt leynimál í strandbænum Figueira da Foz segir Vilhelm að það sama gildi ekki í Kaupmannahöfn, þar sem fjölmargir Íslendingar eru búsettir. Villi segir frá nýskeðum atburði þegar hann stóð úti á götu með vini sínum og var í símanum. „Það labbar einhver hópur af sjomlum fram hjá okkur og einn segir: „Þessir unglingar alltaf í símanum,“ og ég sný mér við og segi: „Já, maður þarf að sjá fréttir dagsins!!“ og þá tók vinahópurinn hans hann alveg í gegn: „Aaaah! Tekinn!““ segir Villi og hlær.

Leiklistardraumurinn

Vilhelm segir að áhuginn á leiklist hafi kviknað þegar hann var barn. „Þegar ég var krakki sá ég Hringjarann í Notre Dame, svaka uppsetningu með sviði á þremur hæðum og ég hugsaði með mér: „Þetta er geðveikt! Ég ætla að verða leikari.““

Villi segir að foreldrar sínir hafi alltaf stutt sig og draum sinn um að verða leikari. „Ég man eftir því þegar ég var lítill og pabbi keyrði mig í hálftíma yfir í annan bæ svo ég gæti komist á leiklistarnámskeið.“ Vilhelm er þakklátur foreldrum sínum fyrir stuðninginn. „Það er sjaldgæft að foreldrar séu með manni í þessu. Ég á foreldrum mínum margt að þakka. Þau hafa flogið hingað til Danmerkur til að sjá sýningar hér í skólanum. Meira að segja amma og afi komu að sjá síðustu uppsetningu,“ segir Villi, og það er ekki laust við að blaðamanni hlýni um hjartaræturnar við að heyra um þennan ástríka stuðning fjölskyldunnar.

Pabbi Villa er tíður gestur í sketsum sonarins. Hér eru þeir á góðri stundu fyrir 25 árum síðan.

Pabbi Villa er tíður gestur í sketsum sonarins. Hér eru þeir á góðri stundu fyrir 25 árum síðan.

Fjölskyldan

Fylgjendur Villa hafa eflaust tekið eftir að fjölskyldunni bregður oft fyrir í færslum hans. Oft sýna færslurnar fjölskyldumeðlimi í kómísku ljósi þó að umhyggjan skíni á sama tíma í gegn. Pabbi Villa, eða réttara sagt Villi í hlutverki pabba síns, er fastagestur í sketsunum hans. „Systir mín sýndi honum sketsana um daginn, sem ég hélt hún myndi ekki gera,“ segir Villi reiðilega, en þó er ljóst að stutt er í grínarann. „Honum fannst það mjög fyndið. Kallaði mig fávita, hlæjandi. Hann er svo mikill karakter, mjög steiktur. En við höfum líka alltaf átt þannig samband, að mega gera grín að hvoru öðru innan fjölskyldunnar. Það sem er einkennandi við fólk er það sem fær mann til að elska það. Pabbi talar mikið, er mjög opinn og eyðir kannski þremur fjórðu af deginum í eldhúsinu, ekkert af þessu er slæmt en það er auðvelt að gera grín að þessu. Það sem ég geri grín að er miklu meira af ást, myndi ég segja.“

Leikheimurinn á Íslandi

Villi flutti til Íslands árið 2007 og árið 2010 lék hann hlutverk í íslenskri kvikmynd, unglingadramanu Óróa. „Já, það var þegar ég var nýbyrjaður í menntaskóla. Mér leið eins og ég væri einhver megastjarna, að vera að leika í bíómynd. Nú myndi boltinn sko byrja að rúlla. Svo uppgötvar maður að það er ekki offramboð af unglingshlutverkum á Íslandi,“ segir Villi, og hlær. „En ég er búinn að leika í sjónvarpsþáttaröð á Skjá einum, nokkrum leikritum, auglýsingum en vonandi síðan fleiri kvikmyndum.“ Villi segir að draumurinn sé að leika í kvikmyndum, „eins gaman og er að vera grínisti á netinu.“

Villi segir að það hafi verið gott að alast upp á Íslandi upp á að verða leikari. „Mér finnst því vera betur tekið á Íslandi en í Portúgal. Fólk er opið fyrir að skapa list og það er auðvelt að koma sér í samband við fólk, hvort sem það er í leiklist, kvikmyndagerð eða tónlist. Það er auðveldara að koma sér á framfæri en í litlum strandbæ í Portúgal.“

Vilhelm segist upplifa önnur viðhorf til þess að vera í listnámi á Íslandi en í Portúgal. „Í Portúgal er komið fram við mann eins og maður sé krakki og spurt hæðnislega „Hva’ ætlaru að vera í Hollywood?!“ Það er ennþá ríkjandi viðhorf að ef þú ætlir að gera eitthvað í lífinu þurfirðu að vera læknir, lögfræðingur eða hótelstjóri.“ Vilhelm segist hafa farið að skoða leiklistarskólann í Lissabon, en hann hafi verið í hálfgerðri niðurníðslu. „Maðurinn í afgreiðslunni sem tók á móti mér sagði við mig: „Já, svo er náttúrulega best að finna sér aukavinnu, leiklistin er ekkert að gefa sérlega mikið.“ Hann var svo ótrúlega neikvæður! Ég hugsaði með mér: „Ég verð bara á Íslandi.“ Það er svolítið magnað við Ísland að það er auðveldlega hægt að búa til sinn eigin veg sjálfur ef þú hefur metnað og vilja. Ef þú vilt prófa að gera þætti þá hringirðu bara í hinn og þennan, leggur kannski smá pening í verkefnið og prófar að gera þættina. Ef það gengur vel leiðir það kannski að næsta verkefni.“ Ég spyr Villa hvort þetta séu hvatningarorð til þeirra sem munu lesa viðtalið. „Já, ég myndi segja það. Það hjálpar engum að bíða eftir neinu. Ég er sjálfur með hluti í undirbúningi núna vegna þess að ég held að það muni ekki hjálpa mér að sitja bara og bíða og vona að einhver hringi. Maður þarf líka að leggja inn vinnu sjálfur.“

Leiðin að CISPA

Þegar Villi fluttist til Íslands hóf hann nám í 9. bekk í Austurbæjarskóla. Leiðin lá næst í menntaskólann við Hamrahlíð, MH, þar sem Villi var virkur í leiklistinni og eftir það tók hann þátt í Stúdentaleikhúsinu ásamt því að reyna að komast í formlegt leiklistarnám. „Ég sótti um tvisvar í LHÍ án þess að komast inn. Ég nennti ekki að bíða í tvö ár í viðbót til að komast í leiklistarnám,“ segir Villi en þá kom að því að hann sótti um nám við sviðslistaskólann CISPA í Kaupmannahöfn. Þar er Villi nú á sínu lokaári.

Fyrsta spurning sem brennur á blaðamanni eftir að talið berst að CISPA er: „Hvað er að frétta af Reetu?“ En Reeta er finnsk skólasystir Villa sem hefur notið sérlegrar hylli meðal fylgjenda hans á samfélagsmiðlum.

„Hún segir bara gott,“ svarar Villi, og hlær dátt að spurningunni. „Henni finnst svo fyndið að fólk á Íslandi viti hver hún er. Hún er að fara að fara að koma til Íslands í mars og það verður spennandi að sjá hvort einhver þekki hana úti á götu.“ Aðdáendur Reetu geta því hafið tilhlökkun sína.

Stigakynnir í Eurovision

Samtal okkar færist nú að atburðum síðastliðinna mánaða. Þegar ég minnist á baráttu Villa fyrir að fá hlutverk stigakynnis fyrir hönd RÚV í Eurovision skríkir í honum af hlátri. „Það kom mér algjörlega í opna skjöldu hvað ég fékk mikinn stuðning. Ég bjóst við bara nokkrum vinum en ekki undirskriftalista, fréttum og viðtölum. Mig langaði að vera kynnir til að sýna mig í Portúgal, það væri mjög gaman að ná að sameina þessi tvö þjóðerni sem ég á í mér,“ segir Vilhelm en Eurovision keppnin fór fram í Portúgal í ár. „Ef það er eitthvað gott við þetta þá var það að sjá hvað ég fékk mikinn stuðning.“

Verkefni á Rifi í sumar

Villi setti upp gamanleikrit í Frystiklefanum á Rifi á Snæfellsnesi í sumar ásamt Júlíönu Liborius, en þau skrifuðu verkið saman. Kári Viðarsson, sem á og rekur Frystiklefann, leikstýrði. „Þetta gekk mjög vel, sýningin var á ensku og við sýndum alla þriðjudaga. Það komu auðvitað mismargir á sýningar, það er ekki hægt að segja að það sé auðvelt að fá fólk út á Rif. Oft voru þetta túristar sem áttu leið hjá. En þetta var skemmtilegt og gekk mjög vel.“

Framundan hjá Villa

Næst á dagskrá hjá Villa er að fljúga til Íslands í einn dag til að taka upp jólaauglýsingu fyrir Hringdu. Blaðamaður lýsir yfir undrun sinni á að Villi ætli að fljúga heim í einn dag. „Já, það er mjög steikt, sérstaklega miðað við hvað ég er flughræddur,“ svarar Villi og vindur sér beint í sögu af öðrum nýskeðum atburði. „Ég skal segja þér eitt rosalegt sem gerðist um daginn sem fór því miður ekki í gegn. Ég var næstum því búinn að byrja að leika í finnskri seríu. Ég er ekki að djóka, þeir hringdu í mig bara upp úr þurru. Voru búnir að vera að hringja alla vikuna en ég svaraði aldrei því ég hélt að þetta væri eitthvað spam!“ segir Villi, og við hlæjum báðir.

„Svo svaraði ég loksins og þá heyrðist „Hello, I am calling from Warner Brothers Finland. I was wondering if you would like to audition to a tv series?“ Svo fór ég í prufur, og komst ekki inn, en er núna kominn á einhvern lista hjá þeim,“ segir Villi, en spennandi verður að sjá hvert þetta leiðir. „Svo er ég líka að leika í netseríu. Serían er öll skotin lóðrétt, eins og á snjallsíma. Hugsunin er að fólk horfi á hana í snjallsíma. Svo erum við að æfa upp Draum á Jónsmessunótt í skólanum.“ Ljóst er að það er feykinóg að gera hjá Vilhelm okkar Neto í Kaupmannahöfn og það er á þessum góðu nótum sem við kveðjum þennan sólargeisla að sunnan.

Villa Neto má finna bæði á instagram og twitter sem @VilhelmNeto og sérstaka sketsasíðu Villa má finna á instagram undir undir @villineto.

Hér eru fimmr sketsar sem Stúdentablaðið mælir með - fyrir byrjendur.

  1. Mamman sem er komin í stuð: https://www.instagram.com/p/BowFg1Ai9OX/

  2. Húsdýragarðsþjófurinn: https://www.instagram.com/p/BnLuH-FgHar/

  3. Leiður (Safaríkur Sjomli - Maggi Mix tribute): https://www.instagram.com/p/BnaxW6VA9oC/

  4. Versta meðleigjendakombóið II : https://www.instagram.com/p/BqcMGe0nj4n/

  5. Latino Bubbi : https://www.instagram.com/p/BoUBRXViuAQ/