Skiptineminn: Undskyld, kan jeg have en kop kaffe?
Hólmfríður María Bjarnardóttir, nemandi í bókmenntafræði og ritlist við Háskóla Íslands skrifar frá Kaupmannahöfn þar sem hún er í skiptinámi.
Mig hefur alltaf langað að ferðast og fara í skiptinám, það er bara eitthvað spennandi við það að búa á nýjum stað, læra á umhverfið og sjálfa sig í leiðinni. Ég ákvað að henda mér ekki of djúpt í laugina og fór, eins og lærdómsfúsir Íslendingar hafa gert í gegnum tíðina, beinustu leið til Kóngsins Köben. Eftir nokkra pappírsvinnu var ég komin á flugvöllinn, ein tilfinningasprengja, eftirvæntingarfull og kvíðin.
Fyrstu dagarnir einkenndust af fólki sem kynnti sig, sagði hvaðan það væri, hvað það væri að læra og hvort það væri hérna í eina eða tvær annir. Hægt og rólega síuðust nöfnin inn og ókunn andlit urðu að vinum. Ég áttaði mig á því að við vorum öll í sömu sporum, öll að leita að félagsskap og einhverjum til þess að villast með á leiðinni í skólann.
Fyrsta vikan leið eins og frí, það var sól, heitt og ég hafði pakkað allt of mikið af peysum og ekki neinum stuttermabolum en hitabylgjan kláraðist og veturinn færðist nær en þá var ég klár í slaginn og dró fram hverja peysuna á fætur annarri. Ég hengdi upp plaköt og nýteknar polaroid myndir, keypti plöntu og skírði hana Selmu Santiago, fyllti ískápinn og fór eina ferð í IKEA. Þá fór ég hægt og rólega að átta mig á því að ég ætti heima hérna. Ég bý á stúdentagörðum í Østerbro sem eru við hliðina á flóamarkaði og rækt, ég fer oftar á flóamarkaðinn.
Ég vissi alltaf að ég myndi fá heimþrá en hún lenti eins og vatnsmelóna á gangstétt þegar ég fylgdist með lífinu heima frá þessu nýja heimili. Heimþráin var þó kannski ekki jafn sterk og matarþráin. Ég hef saknað þess að drekka íslenskt vatn, borða harðfisk, plokkfisk og fara í ísbíltúr til þess að fá mér bragðaref en flestar þær langanir voru uppfylltar með vel þegnum pakkasendingum. Ég fékk íslenskar kringlur, rúgbrauð, harðfisk og ýmiskonar góðgæti frá fólkinu mínu sem heyrði af þessum mikla matarsöknuði. Rúgbrauðið kom alla leið frá Ísafirði og með því þráði ég plokkfisk. Ég renndi í gegnum uppskriftir á netinu áður en ég dró pottana úr eldhússkápnum. Sú fyrsta plokkfisktilraun gekk eins og í sögu, nema svona sögu sem endar vel og er frekar leiðinleg því ekkert sérstakt gerðist og hún endar bara á mér að borða plokkfisk. Ég heyri sjálfa mig reglulega tala um hvernig íslenskur matur og íslenskt vatn og allt íslenskt sé svo rosalega gott og best. Þá er ég svo íslensk að ég ætti að fá mitt eigið skilti á Keflavíkurflugvelli við hliðina á skyrauglýsingunni.
Að vera hérna er ekkert svo frábrugðið því að vera heima fyrir utan matinn og samgöngurnar. Ég tek vanalega lest og metro í skólann en ég á að sjálfsögðu líka hjól, eða leigi það allavega og kalla það mitt. Áður óþekktar byggingar urðu að kennileitum og ég er núna næstum hætt að villast og kemst allar mínar leiðir, eða vel flestar, án hjálpar GoogleMaps sem var minn besti vinur fyrstu vikurnar. Ég þarf reglulega að útskýra að ég hafi lært dönsku en sé ekki mög sleip í henni. Ég panta mér kaffi á dönsku, versla á dönsku, segi Undskyld þegar ég þarf að komast framhjá einhverjum og kinka kollinum skilningslega þegar einhver talar við mig á dönsku og vona að ég sé ekki að samþykkja neitt slæmt.
Heimþráin læðist stundum aftan að mér og þá helst á kvöldin þegar ég er ein heima en þá er stutt í vinina sem búa hérna og eru alltaf til í að hittast og spjalla. Að búa á þessum stúdentagörðum er að ætla að fara í sameiginlega eldhúsið til þess að poppa seint að kvöldi til, hitta tvo nýja vini og enda í tveggja klukkutíma löngu spjalli sem byrjar á því hvernig maður tæklar það að eiga erfitt með að sofna, fer þaðan í fullnægingar, sambönd, líkamsímynd, fréttir, trúarbrögð, nauðganir, metoo og hvað við getum gert til að sigra heiminn. Að fara síðan inn í herbergið sitt, borða kalt popp og horfa á Full house.
Nú eru um það bil fimm vikur eftir af skólanum. Tilfinningarnar eru vissulega blendnar en ég kveð Danmörku sæl og sátt, tilbúin að fara heim en ég veit að ég mun sakna þess að vera hérna. Núna er komið að hlutanum þar sem ég mæli sterklega með skiptinámi: Þetta skiptinám hefur verið stórt stökk út fyrir þægindarammann en klárlega þess virði. Þessar síðustu vikur hafa einkennst af spilakvöldum, mat, víni, gönguferðum, lestarferðum, „fjölskyldumat” með þeim sem búa á annarri hæð, lestri, pubquizkvöldum á hverjum þriðjudegi, gleði, söknuði, spenningi og ritgerðarskrifum. Þetta er gullið tækifæri til þess að kynnast fólki frá ólíkum stöðum í heiminum, búa til ný vinsasambönd og þar með geta ferðast ódýrara í framtíðinni því þú ert með fría gistingu.