Veðurstofan varar við bókaflóði

Við Íslendingar erum fræg fyrir að taka hinum íslensku bókajólum hátíðlega. Hér á landi er löng hefð fyrir því að gefa og fá bækur í jólagjöf. Ys og þys einkennir bókabúðir landsins rétt fyrir jól sem er ekki að undra því hillurnar svigna undan rjúkandi heitum og kræsilegum bókum beint úr prentsmiðjunni. Það er auðvitað misjafnt eftir heimilum hve rótgróin hefðin um bókajól er en flest kannast þó við hana af eigin raun. Mörg hafa auðvitað engan áhuga á að blanda bókum inn í sínar jólahefðir og kjósa ef til vill heldur að verja jólanóttinni yfir jólamynd eða nýja tölvuleiknum, í djúpum samræðum við fjölskylduna, í göngutúr með hundinn eða í faðmi elskhuga. En við ykkur sem kjósið að svífa inn í jólanóttina með bók í hönd segjum við: Gleðileg bókajól!

Blaðamaður Stúdentablaðsins setti saman lista yfir nokkrar af þeim spennandi bókum sem út koma þetta árið. Bækurnar eru allar splunkunýjar. Þær eru prýddar fallegum kápum og áhugaverðar hver á sinn hátt og gefa vonandi ágæta mynd af því hve margt er í boði þessi bókajólin. Auk þessara titla koma út ótal bækur til viðbótar og margar þeirra hefðu sómt sér vel á þessum lista.

Salumessa.jpg

Sálumessa - Gerður Kristný

Í Sálumessu, ljóðabálki eftir Gerði Kristnýju, er sögð saga konu sem varð fyrir kynferðisofbeldi sem barn. Gerður birti sögu konunnar, með leyfi hennar, í fjölmiðli. Stuttu síðar tók konan eigið líf. Því stendur efnið höfundinum nærri. Það er mikilvægt að fjalla um erfið málefni og ljóðaformið hentar vel til þess vegna þess hve fallegt, opið og ekki síst áhrifaríkt það getur verið ef vandað er til verka. Fyrri ljóð og ljóðabálkar Gerðar hafa vakið mikla lukku og því bíður blaðamaður þess með eftirvæntingu að fá að sökkva sér í Sálumessu.

Bækur Sverris.jpeg

Fimm bóka knippi - Sverrir Norland

Það er ekki á degi hverjum sem koma út margar bækur í einu eftir sama höfund. Nú fyrir jólin gaf Sverrir Norland út fimm stuttar bækur, bundnar saman í knippi, og selur þær á verði einnar bókar. Þessi útgáfa, sem er skemmtilega óvenjuleg, samanstendur af þremur stuttum skáldsögum, ljóðabók og smásögusafni. Bækurnar fjalla um samtímann, tæknina, skáldskapinn, íslenskuna, fjölskyldubönd, ungt fólk og svo margt fleira. Lesa má viðtal við Sverri Norland á vefsíðu Stúdentablaðsins www.studentabladid.is.

Muminalfarnir.jpg

Múmínálfarnir - Tove Jansson

Hver kannast ekki við múmínálfana? Hvort sem það er vegna bóka Tove Jansson, sjónvarpsþáttanna vinsælu eða bollastellisins sem prýðir annað hvert heimili þessa dagana. Nú geta allir íslenskir vinir múmínálfanna glaðst því glæný þýðing Þórdísar Gísladóttur á fyrstu bókinni í bókaflokknum, Litlu álfarnir og flóðið mikla, er komin út. Þetta verk, sem birtist í fyrsta sinn á íslensku, er gefið út ásamt vinsælum þýðingum Steinunnar Briem á Halastjörnunni og Pípuhatti galdrakarlsins í fallegri bók. Þetta er góð gjöf fyrir börn á öllum aldri, sem getur skapað fallegar samverustundir, en það má alveg eins kaupa hana handa sjálfum sér og njóta þess að uppgötva barnið í sér á ný.

Ungfrú Ísland.png

Ungfrú Ísland - Auður Ava Ólafsdóttir

Það er eiginlega ekki hægt að búa til svona lista án þess að minnast á Auði Övu sem hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs á dögunum fyrir bók sína Ör. Sú bók fjallaði um miðaldra karlmann og leitina að lífsviljanum. Í nýjustu skáldsögu Auðar, Ungfrú Ísland, er aðalpersónan hins vegar ung skáldkona sem var uppi fyrir um hálfri öld. Hún fer til Reykjavíkur með handrit sín en er boðið að taka þátt í fegurðarsamkeppni. Með Ungfrú Ísland minnir Auður á allar þær kvenraddir sem ekki birtust á prenti vegna þess að samfélagið þaggaði niður í þeim.

Guðrún Sóley.jpg

Grænkerakrásir Guðrúnar Sóleyjar

Það má ekki gleyma því að matreiðslubækur eru líka bækur. Grænkerakrásir Guðrúnar Sóleyjar, vegan uppskriftir fyrir mannúðleg matargöt, heillar sérstaklega þetta árið. Veganismi verður sífellt vinsælli á heimsvísu. Margir telja að það að gerast vegan sé eitt það besta sem hver og einn geti gert til að berjast gegn yfirvofandi loftslagsbreytingum. Því er þjóðráð að gefa út aðgengilega vegan matreiðslubók á íslensku. Guðrún Sóley, höfundur bókarinnar, leggur áherslu á að maturinn sé gómsætur auk þess að vera góður fyrir menn og dýr.