Segir að stúdentar muni græða á Miklubraut í stokk
Samkvæmt niðurstöðum umfangsmikillar könnunar á ferðavenjum borgarbúa Reykjavíkurborgar, sem fram fór í október 2017, má sjá almennan vöxt í samgöngum og að langstærstur hluti ferða eru farnar á einkabíl, eða um 73%. Einnig hefur íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgað og straumur ferðamanna aukist, sem leiðir af sér óhjákvæmilegan vöxt í samgöngum. Ljóst er að þessu fylgir mikið álag á fjölförnustu leiðir borgarinnar, þar á meðal Miklubrautina, sem stór hluti háskólanema fer yfir í dagrenningu á mánudagsmorgni. Um 60 þúsund manns ferðast þessa leið á venjulegum degi, þar á meðal 7000 manns með strætó og telja vélknúin ökutæki sem fara um Miklubraut við Lönguhlíð á sólarhring allt að 43 þúsund.
Þessi mikla bílaumferð hefur neikvæð áhrif á loftgæði og hljóðþunga við Miklubraut, sem getur til að mynda skapað erfiðar aðstæður fyrir íbúa í nágrenninu. Jafnframt er ekki alls vandalaust að ferðast þessa leið á háannatíma, en alla jafna myndast teppa bíla á ákveðnum tímum dags sem lengir ferðatíma, bæði almenningssamgangna sem og einkabíla, til muna.
Sökum þessa er nauðsynlegt að huga að samgöngubótum á þessu svæði. Sá möguleiki hefur verið ræddur að setja Miklubraut í stokk að hluta, frá Snorrabraut og austur fyrir Kringlu. Fyrir ríflega ári var samþykkt í borgarráði að kanna hvort þessi möguleiki væri talinn fýsilegur til framkvæmda. Verkefnið átti að svara því hvort fjárhags-, umferðar- og umhverfislegar forsendur væru fyrir því að setja meginstraum umferðar á Miklubraut í stokk. Unnið var að umferðarspám í tengslum við verkefnið, ásamt kostnaðaráætlun vegna framkvæmda.
Þorsteinn Rúnar Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, kynnti niðurstöður verkefnisins á málþingi um samgöngur í Reykjavík í mars á þessu ári. Frummat bendir til þess að fýsilegt sé að setja meginstraum umferðar á Miklubraut í stokk. Framkvæmdina er nú að finna í samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033. Ljóst er að hún kæmi til með að auka þróunar- og uppbyggingarmöguleika á svæðinu. Þannig væri til að mynda hægt að tengja hverfahluta umhverfis Miklubraut betur saman, en um 17 þúsund manns búa á þessu svæði. Yfirborði stokksins væri hægt að umbreyta í vistlega borgargötu með skemmtilegu umhverfi sem myndi leiða af sér rólegri hverfisumferð með áherslu á gangandi og hjólandi vegfarendur, sem og á almenningssamgöngur. Einnig myndi Miklabraut í stokk gera kleift að þróa nýja áherslupunkta í byggð á vannýttum svæðum. Þar er meðal annars horft til uppbyggingar á borgarlínu, ásamt íbúðum og þjónustu. Þorsteinn segir þessar hugmyndir vissulega stórbrotnar, en að þær virki vel inni í framtíðaráætlun borgarinnar.
Aðspurður segir Þorsteinn að stúdentar kæmu til með að njóta góðs af Miklubraut í stokk. Aðstæður á yfirborði yrðu talsvert betri, þar sem aðgengi vistvænni samgangna, þ.e. almenningssamgangna, gangandi og hjólandi, yrði gert greiðara og sett í forgang. Miðað við fyrirliggjandi hugmyndir á aðstæðum neðanjarðar verður meginstraumur austur-vestur bílaumferðar í flæði án umferðarljósa milli Hringbrautar og Háaleitisbrautar, og því má búast við minni umferðartöfum en ella. Þannig komi ferðatími allra ferðamáta til með að styttast.
Mat á kostnaði framkvæmdarinnar miðast við um 1750 metra langan stokk með 2+2 vegi, borgargötu á yfirborði með 1+1 vegi fyrir bílaumferð og 1+1 fyrir almenningssamgöngur, ásamt stígum fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur. Frummat á stofnkostnaði miðað við þessar forsendur, ásamt veitukerfum, er um 21 milljarður íslenskra króna. Þorsteinn sagði það ekki liggja fyrir hvort til greina komi að fjármagna uppbyggingu og rekstur stokks með vegtollum.
Ljóst er að samgöngubætur eru nauðsynlegar á þessu svæði og að vilji er fyrir hendi til að framkvæma slíkar breytingar. Bílaumferð þarf vissulega að komast greiðar á milli staða, en þó er enn mikilvægara að horfa til þróunarmöguleika annarra ferðamáta, þ.e. almenningssamgangna og gangandi og hjólandi vegfarenda, í von um að fleiri nýti sér þá kosti. Einn strætisvagn tekur um 80 farþega, sem gæti jafngilt allt að 80 einkabílum á götum Reykjavíkurborgar. Plássþörf einkabíla er því gríðarleg. Færri einkabílar þýðir einnig minni losun gróðurhúsalofttegunda, en það er skref í átt að sjálfbæru og kolefnishlutlausu borgarsamfélagi.
Upplýsingar fengnar af reykjavik.is