„Menning sem fær enga umfjöllun er dauð menning“

Því hefur verið haldið fram að listir séu hin nýju trúarbrögð. Íslendingar eru meðal trúlausustu þjóða heims og mætti ætla að eitthvað þyrfti að koma í staðinn fyrir trúna í daglegu lífi. Maðurinn er vitsmunavera sem þarf andlega örvun, leið til að skilja heiminn og setja hugmyndir sínar í samhengi. Við fáum útrás fyrir hugmyndir og tilfinningar í listinni og fáum þar tækifæri til að tjá okkur. Listin myndi samt sem áður ekki þrífast fengi hún engin viðbrögð. Stúdentablaðið leitaði til nokkurra einstaklinga sem láta menningu sig mikið varða og hafa varið tíma sínum í að fjalla um hana.

Ljósmynd/Baldur Pan

Ljósmynd/Baldur Pan

Eiríkur Örn Norðdahl ritstýrir vefmiðlinum Starafugli sem er einn helsti menningarvefur landsins. Þangað kemur inn ein grein á dag, alla virka daga, um hvaðeina sem snertir menningu. Þar fá ljóðskáld tækifæri til að birta verk sín, listgagnrýnendur að koma skoðunum sínum á framfæri og fjölbreyttir pennar að spreyta sig.

Hvernig finnst þér menningarumfjöllun á Íslandi? Finnst þér eitthvað ábótavant í þeirri umfjöllun?

Hún er auðvitað óttalega lítil og smánarleg. Við lifum við alræði lesendafjöldans og fólk smellir heldur á stuttar, persónulegar og helst trámatískar umfjallanir – þar má raunveruleg menning sín lítils. Stórum hluta menningarumfjöllunar er haldið úti af sjálfboðaliðum í hugsjónastarfi – sem er auðvitað voðalegt, bæði vegna þess að þá er fólk ekki að fá greitt fyrir sína góðu vinnu og vegna þess að sá sem fær ekki greitt á ekki jafn auðvelt með að taka frá tíma til að vinna hlutina jafn vel og hann eða hún eða hán vildi helst gera. Ástandið er svo misslæmt. Ljóðabækur fá kannski að meðaltali eina rýni – stóru skáldin taka nokkrar og minnstu skáldin fá enga. Myndlistarrýni er varla til staðar. Skáldsagnarýnin er enn til staðar – í sjö vikur á ári – en hún verður síðri og síðri. Í stað þess að blöðin kaupi þau skrif af fólki sem hefur til þeirra sérstaka hæfileika gera blaðamennirnir þetta í kaffipásunum sínum. Mér sýnist svipað vera uppi á teningnum hvað varðar kvikmyndirnar. Það er helst það séu nokkrir tónlistarnördar eftir á ritstjórnum – og þeim er þá sennilega þrælað út við alls konar blaðamennsku líka. Barnamenning fær patróníserandi klapp á bakið – hvenær lásuð þið síðast neikvæðan dóm um barnabók, til dæmis? Það er kannski í besta falli ef pólitíkin þykir eitthvað ómódern – sem er auðvitað algengt – en við vitum líka að stór hluti af barnamenningu er fagurfræðilega bara drasl, og yfir því er einfaldlega þagað.

Hvernig finnast þér viðtökur við menningarumfjöllun vera? Er lesendahópurinn stór?

Það fer allt eftir því hvað þú meinar með stór. Hann er minni en les slúðurblöðin og trámapressuna eða er áskrifandi að sætu fólki á Instagram. Kannski koma nokkur hundruð manns á dag á vef einsog Starafugli – nokkur þúsund ef einhver skrif fara á flug. Það eru fleiri en lesa meðalbók. Fleiri en fara á eitt kaffihús á dag. Það dugar okkur ágætlega. Ég fæ eiginlega meira og meira antípat á öllum lesendatölum eftir því sem ég stunda þetta lengur – þær bókstaflega eyðileggja allt. Gildið verður að liggja í einhverju öðru – þótt auðvitað sé vefur af þessu tagi gagnslaus ef enginn les hann.

Viðtökurnar eru misgóðar. Fólk lækar þegar vinir þeirra fá góðan dóm og listamaðurinn gleðst. Yfirleitt verða leiðindi ef dómurinn er neikvæður og þá verða ásakanirnar oft svakalegar. Yfirleitt er gagnrýnandanum þá brigslað um rætni og ófagmennsku – það hefur komið fyrir að þeir séu beinlínis sagðir veikir, sturlaðir eða í einhvers konar hermdarför. Umdeildustu dómarnir eru síðan kannski þeir sem vekja mest umtal, eru mest lesnir og vekja upp mesta forvitni fyrir verkinu. En stundum er fólk auðvitað meira forvitið gagnvart rifrildinu en verkinu. Það getur líka skipt máli að rífast ef rifist er um rétta hluti. Fagurfræði er mikilvæg, fagurfræði skiptir máli; representasjón er mikilvæg og hún skiptir máli.

Þeir sem skrifa umdeilda dóma gefast hins vegar gjarnan upp. Sérstaklega þeir sem eru af yngri kynslóðinni. Það getur tekið svolítið á að finnast eitthvað vera drasl – á tímum þar sem neikvæðni er hálfgert tabú og lögð að jöfnu við einelti. Ekki er svo skemmtilegra að bíða viðbragðanna eða takast á við þau þegar upp úr sýður. Það þarf svolítið bakbein í það – og ég vona að ég særi engan þegar ég segi að þeim fækki svolítið, almennilegu bakbeinunum.

Hvert er mikilvægi umfjöllunar um menningu og listir?

Umfjöllun um menningu – sérstaklega umfjöllun sem er ekki bara speglun, endurvarp eða mögnun – er gríðarlegur hluti menningarinnar sjálfrar. Listaverk eru aðferð til þess að skoða heiminn, stækka hann og breikka, og öll samræða um listaverk er hluti af framhaldslífi listaverksins. Menning sem fær enga umfjöllun er dauð menning sem fær ekki að eiga í samræðu við neitt – hvorki fortíð sína, samtíð né framtíð.

Hefur sú menningarumfjöllun sem þú hefur umsjón með sérstöðu? Hverju bætir hún við umræðuna?

Við lögðum upp með að umfjöllunin á Starafugli ætti að vera afdráttarlaus og við reynum að standa við það. Annars er palettan breið hjá okkur og starfsliðið fjölbreytt – sumir eru beinlínis hámenntaðir sérfræðingar og aðrir nýgræðingar úr grasrótinni; sumir skrifa formlegan stíl, aðrir kæruleysislegan og enn aðrir sérviskulegan; sumir eru iðulega grimmir, aðrir gjafmildir og enn aðrir halda faglegum distans og blanda tilfinningum sínum lítið í skrifin. Við viljum gjarna hlúa að fjölbreytilegu landslagi. Listrýni getur og á að vera margvísleg.

Egill Helgason er þjóðþekktur enda hefur hann birst reglulega á sjónvarpsskjám landsmanna svo áratugum skiptir. Í rúman áratug hefur Egill séð um bókmenntaþáttinn Kiljuna á Rúv þar sem fram fer yfirgripsmikil og aðgengileg umfjöllun um það helsta sem um er að vera í bókmenntalífinu hverju sinni.

Hvernig finnst þér menningarumfjöllun á Íslandi? Finnst þér eitthvað ábótavant í þeirri umfjöllun?

Menningarumfjöllun á Íslandi er held ég furðu góð – rétt eins og við Íslendingar búum við mikla menningu, tónlist, bókmenntir, kvikmyndagerð, myndlist, leiklist, undarlega mikið miðað við þjóð sem telur ekki nema 350 þúsund manns. Maður gleymir stundum að hugleiða þetta – en það er alveg ástæða til að gleðjast vegna þessa. Umfjöllunin nær að dekka flest – það er kannski helst núorðið að manni finnist vera skortur á gagnrýni. Ástæðan er sú að fjölmiðlarnir hafa veikst og treysta sér ekki lengur til að halda úti föstum gagnrýnendum. Það er skaði. En á móti kemur meiri menningarumfjöllun víða á netinu.

Hvernig finnast þér viðtökur við menningarumfjöllun vera? Er áhorfið til dæmis mikið?

Ég held að fólk sé almennt áhugasamt um menningu – tölur sýna að áhuginn á henni er til dæmis miklu meiri en á fótbolta sem fær svo mikið pláss. Ef maður talar um áhorf á menningarþætti eða hlustun á þá, horfum við náttúrulega framan í þann veruleika að miðlar eins og Netflix eru mikið til að taka völdin. Það finnst mér áhyggjuefni. Ég hef orðað það svo að Kanasjónvarpið hafi á endanum náð að vinna. Stór hluti fólks, ekki síst þeir sem eru yngri, sjá varla íslenska fjölmiðla. Það er ekki bara vont fyrir menninguna, heldur fyrir okkur sem lýðræðissamfélag.

Hvert er mikilvægi umfjöllunar um menningu og listir?

Það er nauðsynlegt að fjalla um menningu og listir. Þær lifa ekki í tómarúmi. Þær þurfa samtal sem að miklu leyti fer fram í fjölmiðlum. Enda er það svo að listamenn, útgefendur og menningarstjórnendur sækjast eftir umfjöllun. Það er skelfing að vinna að list án þess að fá nein viðbrögð. Listumfjöllun á auðvitað að vera gagnrýnin, en hún á líka að vera velviljuð. Listsköpun útheimtir oft blóð, svita og tár og mikla tilfinningaglímu. Maður verður að bera virðingu fyrir því.

Hefur sú menningarumfjöllun sem þú hefur umsjón með sérstöðu? Hverju bætir hún við umræðuna?

Ég hef nú á ellefta ár stjórnað bókmenntaþættinum Kiljunni hjá Rúv. Þetta er núorðið sá bókmenntaþáttur sem langlengst hefur lifað í sjónvarpi á Íslandi - og kannski er þetta líka að verða langlífasti menningarþátturinn. Ég held að Kiljan sé orðinn fastur punktur í bókmenntaumræðunni á Íslandi, staður þar sem er hægt að átta sig á því hvað er að gerast – og svo flytjum við líka gagnrýni um bækur. Ég hef viljað hafa þáttinn alþýðlegan, þannig að þeir sem hafa ekki mikinn áhuga á bókum geti líka notið hans. Það held ég að hafi tekist nokkuð vel, þátturinn spannar alveg frá nýjustu ljóðlistinni þar sem koma fram ungu höfundarnir og yfir í dálítil neftóbaksfræði með þjóðlegu ívafi.

Ljósmynd/Jóhann Páll Valdimarsson

Ljósmynd/Jóhann Páll Valdimarsson

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við Háskóla Íslands. Hún er leikhúsgagnrýnandi Hugrásar, vefrits Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Hún hefur því fræðilegan bakgrunn sem nýtist í menningarumfjöllun hennar og gefur skrifum hennar ákveðið vægi.

Hvernig finnst þér menningarumfjöllun á Íslandi? Finnst þér eitthvað ábótavant í þeirri umfjöllun?

Mér finnst menningarumfjöllun á Íslandi of lítil. Ég hef aðallega fylgst með umfjöllun um bækur og leikhús en miðlarnir sem birta faglega gagnrýni eru of fáir og undir hælinn lagt hve fagleg hún er. Bókmenntagagnrýni hefur verið skorin niður við trog og leikhúsgagnrýni fastra gagnrýnenda styttist og birtist seint í blöðunum. Í sjónvarpinu er menningarumræða stutt og snörp en ég sakna lengri umræðna og þátta um leikhús og leiklist, heima og erlendis. Það mætti vel gera það jafn skemmtilegt og hina vinsælu Kilju.

Hvernig finnast þér viðtökur við menningarumfjöllun vera? Er lesendahópurinn stór?

Ég get ekki svarað þessari spurningu því ég hef engar tölur um menningarneyslu í dag. Það spinnast hins vegar stundum líflegar umræður um umdeild verk og þá sér maður að fólk hefur sterkar skoðanir og hér eru leikhúsin enn vel sótt og enn les fólk bækur.

Hvert er mikilvægi umfjöllunar um menningu og listir?

Mér finnst umfjöllun um menningu og listir mjög mikilvæg. Ef hún er góð getur hún kennt manni að meta og ræða listsköpun og sjá hvað er gott, vont eða frumlegt.  Hún getur líka verið bráðskemmtileg og stundum er gaman að takast á um það sem manni finnst vond og ófagleg gagnrýni. Sjálfsprottin umræða um bókmenntir og leikhús á samskiptamiðlum getur líka verið góð en oft vantar í hana fagmennsku.

Hefur sú menningarumfjöllun sem þú hefur umsjón með sérstöðu? Hverju bætir hún við umræðuna?

Leiklistarumræða Hugrásar, veftímarits Hugvísindasviðs, má vera lengri en venjulegir blaðadómar og getur þá leyft sér ívið fræðilegri umfjöllun. Þar birtast líka mjög góðar greinar um bækur og listaviðburði hérlendis og erlendis. Það mætti samt gera bæði meira og betra ef væru peningar til, eins og stendur fær enginn laun.