Melankólía stúdenta : Ávarp forseta Stúdentaráðs
Haustið er komið. Umferðin er farin að þyngjast, sólarljósið rennur frá okkur og hin árstíðabundna depurð læðist upp að okkur. Það væri í raun mjög auðvelt fyrir mig að detta í melankólískan pistil, um hversu oft traðkað er á stúdentum og rétti þeirra, um uppreisn okkar sem við ættum að boða vegna skorts á húsnæði, lélegum námsstuðningi og skorti á aðgengi.
En áður en haldið er inn í dramatískan heim uppreisnar er gott að líta yfir farinn veg. Stúdentaráð hefur haft í ýmsu að snúast síðan ráðið tók við í mars síðastliðnum. Nú hefur sálfræðingum fjölgað, annar sálfræðingur kominn og þriðji væntanlegur, og þeir geta tekið á móti melankólískum hugsunum okkar gjaldfrjálst. Stúdentaráð fór í stefnumótun í sumar með það að leiðarljósi að móta heildstæða stefnu fyrir stúdentabaráttuna og setja upp aðgerðaáætlun og forgangsröðun verkefna. Ný Háma var opnuð í Læknagarði í haust, lærdómsaðstaða í Eirbergi hefur verið stórbætt. Leikskólaplássum fyrir börn stúdenta er að fjölga.
Þetta er allt að frumkvæði stúdenta.
Það eru engin verkefni of stór eða smá fyrir Stúdentaráð. Undanfarið hefur Stúdentaráð unnið mikla vinnu vegna aðkomu Háskóla Íslands að tanngreiningum hælisleitenda og hefur einróma lagst gegn því að gerður verði formlegur þjónustusamningur við Útlendingastofnun. Á sama tíma er verið að þrýsta á FS að fá meira vegan úrval í Hámu og nýlega hafa möguleikar stúdenta á fjölbreyttum samgönguleiðum aukist í samstarfi við Strætó þar sem nemendum býðst sex mánaða og tólf mánaða nemakort, sem veita í þokkabót sérstakan aðgang að Zipcar-áskrift.
Framundan er þó engin lognmolla því við höldum ótrauð áfram. Í þetta skiptið viljum við halda áfram með ykkur, kæru stúdentar. Þess vegna ákváðum við í Stúdentaráði að efna til hugmyndasöfnunar meðal allra stúdenta um þau hagsmunamál sem brenna á þeim. Hvert er stærsta hagsmunamál stúdenta?
Hugmyndasöfnunin hófst 17. september og stóð yfir í tvær vikur og fjölmargar frábærar og fjölbreyttar hugmyndir söfnuðust inn. Að hugmyndasöfnun lokinni var efnt til kosninga meðal þeirra hugmynda sem áttu erindi í allsherjar auglýsingarherferð en þrátt fyrir að þær hafi ekki allar farið í almenna kosningu verða þær þó allar settar í farveg í samráði við hugmyndasmiðinn sem sendi inn hugmyndina.
Ástæðan fyrir þessu er einföld: Við viljum heyra frá ykkur. Við viljum gera hagsmunabaráttuna aðgengilegri fyrir alla stúdenta, við viljum gefa stúdentum tækifæri á að koma beint að verkefnum okkar, ef áhugi er fyrir hendi, og við viljum auka lýðræðislega þátttöku í hagsmunabaráttu sem varðar okkur öll. Við viljum að stúdentar standi allir saman í kröfunni um betra umhverfi og aðstæður fyrir stúdenta.
Þrátt fyrir að hugmyndasöfnun í verkefninu sé nú lokið viljum við alltaf heyra frá ykkur. Ég minni því á að stúdentar eru ávallt velkomnir á skrifstofu Stúdentaráðs, sem staðsett er á þriðju hæð Háskólatorgs og er opin alla virka daga frá 9 til 17.
Ég hlakka til að heyra frá þér.