Iceland Airwaves 2018

Nú fer að styttast í nóvember, einn erfiðasta mánuð ársins. Það er of langt í jólafrí, of stutt í prófin, og við erum löngu búin að gleyma sumarfríinu. Sem betur fer getum við huggað okkur við það að tónlistarhátíðin Iceland Airwaves er rétt handan við hornið, en hún verður haldin 7.-10. nóvember næstkomandi.

Hátíðin er aðeins fjögur kvöld í ár og klárast á laugardagskvöldi, sem gerir það að verkum að tónlistarunnendur sleppa við sunnudagssamviskubitið, samviskubitið sem fólk þjáist af þegar það nennir ekki að mæta á tónleika á sunnudeginum. 225 fjölbreytt atriði verða á hátíðinni að þessu sinni, en í ár er Iceland Airwaves hluti af Keychange átakinu, sem vinnur að því að jafna kynjahlutföll í tónlist.

Sena Live festi kaup á hátíðinni fyrr á árinu og það verður spennandi að sjá hvernig nýjum eigendum tekst til. Til þess að auðvelda lesendum skipulagningu helgarinnar kynnir Stúdentablaðið nokkur þeirra erlendu atriða sem má alls ekki missa af.

Rejjie Snow.jpeg

Rejjie Snow

Rejjie Snow er sviðsnafn írska rapparans Alexander Anyaegbunam. Hann flutti ungur að árum til Bandaríkjanna til þess að spila fótbolta, en þar fór hann bæði í framhaldsskóla og háskóla og hefur verið búsettur þar síðan. Hann sækir sér innblástur í bæði list sína og stíl í allar áttir, en sem dæmi um áhrifavalda nefnir hann mömmu sína, auk listamanna eins og Pharrell, David Bowie, og hljómsveitarinnar Jamiroquai.

EP platan Rejovich frá árinu 2013 kom Rejjie Snow á kortið, en hún náði fyrsta sætinu á hipphopp lista iTunes og steypti þar með Kanye West og plötunni Yeezus af stóli. Alexander hefur í framhaldinu fengið frábær tækifæri og unnið með listafólki á borð við Joey Bada$$, og spilað með Madonnu, MF Doom og Kendrick Lamar. Fyrsta plata hans í fullri lengd, Dear Annie, kom út fyrr á þessu ári, en henni hefur verið lýst sem grípandi, rómantískri, og jafnvel „nánast fullkominni.“

Stúdentablaðið mælir með laginu „Egyptian luvr.“

Girl Ray.jpeg

Girl Ray

Lo-fi popptríóið Girl Ray, nefnt í höfuðið á listamanninum Man Ray, var stofnað fyrir um fjórum árum, þegar meðlimir þess voru enn í framhaldsskóla. Hljómsveitina skipa bestu vinkonurnar og Lundúnabúarnir Poppy Hankin og Iris McConnell, auk bassaleikarans Sophie Moss. Þær sameinuðust upphaflega í andúð sinni á „hlutunum sem stelpurnar í bekknum þeirra elskuðu” og eru þekktar fyrir skarpa og húmoríska texta, raddanir og skemmtilega tónsköpun innblásna af áttunda áratugnum.

Girl Ray er með samning við plötufyrirtækið Moshi Moshi, sem hefur til dæmis gefið út plötur Hot Chip, Florence + The Machine og Lykke Li. Fyrsta platan þeirra, Earl Grey, kom út í júní 2017 og náði 16. sæti á lista Rolling Stone yfir bestu poppplötur ársins.

Stúdentablaðið mælir með laginu „Don’t go back to ten“.

Superorganism.jpeg

Superorganism

Alþjóðlega indípoppsveitin Superorganism kom fram á sjónarsviðið snemma árs 2017, en hún var mynduð af fyrrum meðlimum hljómsveitarinnar The Eversons, sem kynntust í Nýja Sjálandi en hafa verið búsettir í London síðan 2015. Þeir kynntust Orono Noguchi, aðalsöngkonu Superorganism á tónleikaferðalagi í Japan, og héldu í framhaldinu sambandi við hana þar til hún varð hluti af hljómsveitinni.

Fyrsta lag þeirra, Something for your M.I.N.D. var í rauninni unnið úti um allan heim, en lagið var sent á milli hljómsveitarmeðlima sem bættu við það og breyttu. Að lokum var lagið sent til Orono sem samdi textann og söng inn á lagið. Hljómsveitin hittist öll í fyrsta skipti í september 2017 þegar þau tóku upp plötuna Superorganism sem kom út 2. mars síðastliðinn. Velgengni sveitarinnar síðan þá er vægast sagt ótrúleg, en á þessum stutta tíma hefur selst upp á tónleika þeirra um allan heim og tónlistarumfjallendur á borð við Ezra Koenig og Frank Ocean hafa spilað tónlist þeirra í útvarpsþáttum sínum.

Stúdentablaðið mælir með laginu „Everybody wants to be famous.“

Crumb.jpeg

Crumb

Bandaríska hljómsveitin Crumb varð til árið 2016, en var til að byrja með upptökuverkefni söngkonunnar Lilu Ramani, sem semur efni sveitarinnar. Verkefnið þróaðist og útkoman varð fyrsta EP plata hljómsveitarinnar, Crumb. Síðan þá hafa þau gefið út eina EP plötu til viðbótar, Locket, í júní 2017. Sveitin sækir sér innblástur í ýmsar áttir, svo sem í sjöunda áratuginn, draumapopp og djass, en útkoman er einskonar djassað psych rokk.

Stúdentablaðið mælir með laginu „Locket.“

The Voidz.jpeg

The Voidz

The Voidz spila tilraunakennt, taktmikið punk sem einkennist af frumlegum laglínum. Það er enginn annar en Julian Casablancas úr The Strokes sem fer fyrir hljómsveitinni, en hún varð til á seinustu fjórum árum úr gömlum vinskap nokkurra reynslubolta með mjög ólíkan tónlistarbakgrunn. Það sem sameinar þessa félaga í tónlistinni er áhugi þeirra á stjórnmálum, sem endurspeglast greinilega í textum sveitarinnar. The Voidz hafa gefið út tvær plötur, en sú seinni, Virtue, kom út í mars síðastliðnum.

Stúdentablaðið mælir með laginu „QYURRYUS.“

MorMor.jpeg

MorMor

MorMor er listamannsnafn kanadíska tónlistarmannsins Seth Nyquist, sem hefur spilað á hljóðfæri og samið tónlist síðan hann man eftir sér. Hann fékk fjölbreytt tónlistaruppeldi, og hlustaði sem barn og unglingur til dæmis mikið á Bítlana, Eminem og Led Zeppelin, en þessir ólíku tónlistarmenn hafa líklega haft mikil áhrif á tónsköpun hans. MorMor takmarkar sig alls ekki við neina eina tegund tónlistar, en er líklega best þekktur fyrir mjúkt og grípandi indískotið popp sem hann sér sjálfur um að semja, spila og framleiða. MorMor hefur gefið út eina EP plötu, Heaven’s Only Wishful sem hefur fengið góða dóma.

Stúdentablaðið mælir með laginu „Heaven’s Only Wishful.“

Alma.jpeg

Alma

Ferill hinnar 22 ára Ölmu-Sofiu Miettinen hófst árið 2013 þegar hún lenti í fimmta sæti í finnska Idolinu. Alma skrifaði undir samning við Universal Music árið 2016, og hefur síðan þá gefið út nokkur vinsæl lög. Lagið Chasing Highs, sem kom út árið 2017 náði til að mynda á Topp 20 lista bæði í Bretlandi og Þýskalandi.

Alma segist hlusta á allskonar tónlist, t.d. raftónlist, hip hop, rnb og djass, en vinna sjálf mest með popp og danstónlist. Hún er þekkt fyrir sinn skemmtilega persónulega stíl og sérstaka söngrödd, sem hefur verið borin saman við raddir tónlistarkvenna á borð við Siu og Amy Winehouse. Á seinustu árum hefur Alma unnið mikið með tónlistarkonunum Tove Lo og Charlie XCX, en eins og er vinnur hún að sinni fyrstu plötu.

Stúdentablaðið mælir með laginu „Dye My Hair.“