Táknmál í Háskólanum

Táknmál.jpg

Íslenskt táknmál hefur verið kennt við Háskóla Íslands frá árinu 1994. Síðan þá hafa margir útskrifast með túlkaréttindi en fyrir þann tíma þurftu heyrnarlausir einstaklingar að treysta á heyrandi fjölskyldumeðlimi og vini til þess að túlka fyrir sig. Í dag stunda u.þ.b. 20 nemendur táknmálsnám við háskólann. Af þeim eru nokkrir að læra það sem aukagrein, t.d. með kennslufræðum eða sálfræði.

Ástæður nemenda fyrir námsvalinu eru fjölbreyttar. Meðal nemenda er móðir sem eignaðist heyrnarlaust barn, veitingahússeigandi sem vill geta afgreitt alla kúnnana, sonur heyrnaskertra foreldra sem vill eiga hraðari og dýpri samræður við foreldra sína, ljósmóðir sem vill geta hjálpað barnshafandi konum enn betur og formaður Aspar (Íþróttafélags fatlaðra) sem vill geta átt samskipti við alla félagsmenn. Og svo fólk utan úr bæ sem tengist táknmáli á engan hátt en vill einfaldlega geta átt samskipti við alla Íslendinga.

Auk þess að læra skilning og færni í táknmáli, sitja nemendur áfanga um menningu og sögu heyrnarlausra, málfræði táknmáls, inngang að málvísindum og þýðingar.

Á Íslandi eru 150-200 döff einstaklingar. Orðið döff er notað um heyrnarlaust fólk sem talar táknmál, tilheyrir samfélagi heyrnarlausra og lítur á táknmál sem sitt fyrsta mál. Ástæður heyrnarleysis eru margvíslegar. Heilahimnubólga á leikskólaaldri er algeng ástæða en heyrnarleysi getur líka verið genatengt. Auk þess geta slys valdið heyrnarleysi. Að meðaltali eru 1-2 heyrnarlausir einstaklingar fæddir hvert ár. Undantekning frá því meðaltali er „‘64 kynslóðin”. Árið 1963 gekk um heiminn Rauðu hunda faraldur sem olli því að börn mæðra sem fengu Rauða hunda á meðgöngu urðu mörg hver heyrnarlaus. Á Íslandi eru því 32 heyrnarlausir einstaklingar fæddir árin 1963-64.

Greinahöfundur, sem er annars árs táknmálsnemi, tók viðtal við Júlíu G. Hreinsdóttur táknmálskennara við Háskóla Íslands (sem er einmitt fædd ‘64.) Viðtalið fór fram á táknmáli þar sem hún er döff og viðtalið gat því ekki verið hljóðritað og tók sinn tíma vegna reynsluleysis greinahöfundar.

Hvað kunna margir íslenskt táknmál?

„Í dag kunna rúmlega 1500 manns íslenskt táknmál. Áður en táknmál var kennt við Háskóla Íslands lærðu mjög fáir táknmál nema þeir sem voru döff eða tengdust náið einhverjum döff. Það breyttist þegar táknmálskennsla varð aðgengilegri og nemendur fengu gráðu fyrir námið. Það var ekki til nógu mikið og gott kennsluefni svo að við byrjuðum að leita að tilbúnu efni og að búa til okkar eigið. Við fórum til Bandaríkjanna, fengum leiðsögn um táknmálskennslu og komum heim með hnausþykka kennslubók. Við þýddum mikið úr henni og notuðumst við margar hugmyndir þaðan. Síðan hefur kennslan þróast mikið og það er til slatti af kennsluefni, t.d. myndbönd, glósur og kennsluhefti.”


Hvað kemur nemendum mest á óvart þegar þeir byrja að læra?

„Mér sýnist það vera sú staðreynd að táknmál sé ekki alþjóðlegt. Jú, það væri miklu auðveldara, því að þá þyrftu döff ekki að hafa áhyggjur af landamærum og þjóðerni. Eins væri líka auðveldara ef þeir sem heyrðu, töluðu bara eitt alþjóðlegt tungumál. Allir vita samt að það er ekki hægt. Táknmál eru alveg eins og raddmál, þau þróast og breytast í takt við tímann. Í mismunandi löndum og menningu er þörf fyrir mismunandi orð og tákn. Í heiminum í dag eru u.þ.b. 142 þjóðtáknmál.

Eins og Esperanto, „hið alþjóðlega tungumál”, bjuggu menn líka til „hið alþjóðlega táknkerfi”, Gestuno. Hvorug málin hafa náð tilgangi sínum. Mál, bæði tungu- og tákn-, þurfa að lifa og þróast í samfélagi. Þau verða til vegna þarfar mannsins til þess að tjá sig og eiga samskipti við aðra. Fólk skapar málið ómeðvitað og það er hluti af menningu okkar. Mál breytast milli kynslóða og til verður unglingamál, mállýskur, slettur og fleira.

Mörg tungumál eru svipuð öðrum tungumálum, t.d. norska og danska. Á sama hátt eru sum táknmál svipuð, eru t.d. með svipaða orðaröð og lík tákn. Síðan eru önnur táknmál sem eru svo ólík að það þarf að túlka á milli þeirra.”


Eftirminnileg atvik tengd því að þú sért döff?

„Eitt sinn var ég í biðröð í banka og þegar það kemur að mér, kallar gjaldkerinn „næsti”. Ég heyri það að sjálfsögðu ekki en finn fyrir andardrætti furðu nálægt mér. Ég lít við og næ að lesa af vörum óþolinmóða mannsins á eftir mér í röðinni, setninguna: „ertu heyrnarlaus eða hvað?” Þegar ég jánka því verður maðurinn tómatrauður og dauðskammast sín. Fólk er oftast mjög almennilegt þegar það fattar að ég sé döff, við skrifumst bara á eða reynum að taka Actionary á þetta. En ég hef lent í því að fólk verði hrætt og hreinlega gangi bara í burtu. Svo hefur fólk líka byrjað að tala ensku þegar það getur ekki talað við mig á íslensku.”

Mælir þú með táknmálsnámi?

„Hiklaust! Kostir þess eru fjölmargir. Með því að læra táknmál getur þú átt samskipti við alla Íslendinga og ert þar af leiðandi hæfari til vinnu. Það verður ekkert mál að eiga samskipti þegar þú ert raddlaus, í kafi, með fullan munninn, hjá tannlækninum eða í miklum hávaða. Það er líka hægt að spjalla saman þvert yfir Háskólatorg eða við næsta bílstjóra á rauðu ljósi.”

Táknmál 2.jpg

Hægt er að læra táknmál á eftirfarandi stöðum:

• Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra

• Menntaskólinn við Hamrahlíð og Kvennaskólinn

• Háskóli Íslands

Þar að auki er auðvelt og aðgengilegt að hefja sjálfsnám með hjálp vefsíðunnar SignWiki.is. Þar er að finna íslenska táknmálsorðabók, kennslu- og fræðsluefni o.fl.

Undarlegar spurningar sem táknmálsnemendur fá gjarnan:

Ertu þá bara í Actionary allan daginn?

Jú einmitt, ég er í 30 einingum uppi í Háskóla til þess að verða betri í Actionary.

Þarftu þá að læra blindraletur?

Umm, ha?

Er ekki bara nóg að kunna stafrófið á táknmáli?

Tjah, það er byrjunin en það er svipað og að eiga samskipti við heyrandi og stafa öll orðin í samtalinu.


5 staðreyndir sem þú vissir ekki um táknmál:

  1. Táknum á íslensku táknmáli fylgja munnhreyfingar. Sumar þeirra líkjast orðum úr íslensku en aðrar ekki. T.d. er munnhreyfingin með sögninni „að vera” einfaldlega „bidd” og “að geta” er “asss”

  2. Í íslensku táknmáli eru mörg tákn sem hafa víðtæka merkingu oft kölluð döff tákn. Þau eru stök tákn (ein hreyfing) á táknmáli en þegar þau eru þýdd á íslensku mynda þau heilar setningar. T.d. er til auðvelt tákn sem þýðir á íslensku: “Ég veit það ekki og nenni ekki að pæla í því, reddaðu þessu sjálfur.”

  3. Tákn eru stundum myndræn og gefa vísbending um hlutverk, hreyfingu eða útlit orðsins, eins og t.d. bíll eða að borða. En oft hafa þau engin sýnileg tengsl við það orð sem þau standa fyrir.

  4. Táknmál er ekki íslenska með táknum. Íslenskt táknmál er með eigin málfræði og uppbygging þess er að mestu óháð íslensku. Í táknmáli eru ekki beygingarendingar, greinir eða föll heldur annars konar málfræði, t.d. líkamstjáning, svipbrigði og munnhreyfingar.

  5. Orðaröðin er ekki sú sama á táknmáli og í íslensku. Spurnarfornöfn eru yfirleitt seinust í setningum (Dæmi: Þú – heita – hvað?) og tíma- og staðsetning fyrst (Dæmi: Í gær – Háskóli – ég fara)

Heimildir:

Döffblaðið – febrúar 2018

http://www.deaf.is/media/doffbladid/DoffbladidFeb18_finaLQ.pdf