„Ekkert frábært viðmið að ná þessu OECD meðaltali, við þurfum að ganga lengra”
Blaðamenn Stúdentablaðsins hittu Jón Atla Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, á skrifstofu hans þann 20. september síðastliðinn og spurðu hann út í stöðu Háskólans, hvað væri á dagskrá, nýútgefin fjárlög ásamt fleiru.
„Háskólinn er náttúrulega alltaf í þróun,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, þegar við spyrjum hann hvað sé framundan í vetur. „Þetta er þriðja innleiðingarár stefnu Háskóla Íslands, HÍ21, sem er stefna háskólans 2016-2021. Innleiðingin hefur gengið mjög vel og það eru stór verkefni í deiglunni. Það sem við leggjum mesta áherslu á varðandi HÍ21 er kennsluþróunin,“ segir Jón Atli, en stefnt er á að búa til og ráða í stöðu kennsluþróunarstjóra á öllum sviðum innan HÍ. Einnig á að skapa fleiri stöður fyrir doktorsnema og nýdoktora.
„Þetta er þriðja fimm ára stefna Háskóla Íslands. Fyrsta stefnan var 2006-2011 og síðan kom 2011-2016 og núna er 2016-2021. Þessi stefna er með 75 aðgerðum og við erum að fylgjast með þeim öllum. Í fyrri stefnum voru ákveðin atriði sem við lögðum mesta áherslu á, eins og að styrkja doktorsnámið. Nú erum við með fjóra kafla: nám og kennslu, rannsóknir, virka þátttöku og mannauð.“
Jón Atli segir innleiðinguna ganga vel. Aðgerðunum hafi verið skipt í flokk A, aðgerðir sem ráðast skuli í strax, og flokk B, sem bíða skuli með. „Ef við horfum á stöðuna eftir annað innleiðingarár þá erum við að vinna í flestum aðgerðum í flokki A. Sumum er lokið, aðrar eru komnar vel á veg.“ Jón Atli viðurkennir þó að fjármagn spili stóran þátt í hve mikill árangur náist. Það leiðir okkur að umræðu um fjárlög, sem nýlega höfðu komið út þegar viðtalið átti sér stað.
Fjárveiting til HÍ
„Eins og fjárlagafrumvarpið lítur út núna sjáum við raunhækkun upp á rúmlega 200 milljónir, sem er aðeins minna en við höfum séð á undangengnum tveimur árum. Það er jákvætt að við sjáum hækkun, okkur finnst það mikilvægt því þetta mun náttúrulega hjálpa í háskólastarfinu. Við höfum þurft að horfa upp á Háskólann illa fjármagnaðan, sérstaklega eftir hrun. Það skiptir máli að hafa fjármagn til að fjármagna nýjar aðgerðir og fylgja þeim eftir. Ef háskólar hafa ekki fjármagn til að þróa sig þá staðna þeir. Samanburðarþjóðir okkar setja mikla peninga í háskólamenntun og ef við gerum ekki það sama hérna á Íslandi þá munum við verða eftirbátar þeirra.“
Ríkisstjórn Íslands hefur sett sér það markmið að meðalframlag ríkisins á hvern nema við HÍ nái meðalframlagi á hvern nema innan OECD-ríkjanna árið 2020. „Það verður erfitt að okkar mati að ná þessu markmiði á næsta ári,“ segir Jón Atli, „það vantar 2,5-2,8 milljarða inn í fjárveitinguna til þess að ná OECD meðaltalinu fyrir Háskóla Íslands.“ Jóni Atla, rektor, finnst þó markið ekki sett nógu hátt með því að horfa til OECD meðaltalsins.
„Háskóli Íslands er rannsóknarháskóli og það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íslenskt samfélag að hafa hér öflugan rannsóknarháskóla. Inn í OECD meðaltalið eru teknir alls konar skólar, skólar sem eru ekki rannsóknarháskólar. Þar af leiðandi er ekkert frábært viðmið að ná þessu OECD meðaltali, við þurfum að ganga lengra. Samanburður við norræna rannsóknarháskóla, það er markmiðið.“
Jón Atli vill ekki segja til um hvort hann hafi búist við meira fjármagni. „Það er erfitt að segja. Við vonumst alltaf eftir því. Ég bara fagna því að við fáum hækkun.“
Athyglisvert er að aðeins um tveir þriðju hlutar af rekstrarfé HÍ koma sem beint framlag frá ríkinu gegnum fjárlög.
„Það eru tveir þriðju af fjárveitingunni sem koma frá ríkinu. Rúmlega 14 milljarðar frá ríkinu og 7 milljarðar, einn þriðji, eftir öðrum leiðum. Það má samt segja að hluti af þessum þriðjungi komi líka frá ríkinu, eins og gegn um styrki úr rannsóknarsjóði og þess háttar. Inni í þessu er líka happdrættisfé úr Happdrætti Háskóla Íslands. Við höfum á undanförnum árum verið að fá 780 milljónir í happdrættisfé. Það fé er meðal annars notað í nýbyggingar, viðhald og þess háttar. Nú er stóra verkefnið að stækka Læknagarð, byggja við svo við getum sameinað heilbrigðisvísindasviðið okkar sem er mjög dreift í dag.“
HÍ topp 300
Háskóli Íslands er stoltur af því að vera í hópi 300 bestu háskóla í heimi, samkvæmt úttekt Times Higher Education. Úttektin gefur einkunn í nokkrum flokkum. Gilda þar mest flokkar kenndir við kennslu, rannsóknir og tilvísanir. Sé einkunn HÍ skoðuð eftir flokkum sést að HÍ skorar mjög vel þegar kemur að tilvísunum í greinar unnar af fræðafólki háskólans. Sé hins vegar litið til kennslu og rannsókna sést að HÍ skorar þar verr en háskólar sem sitja á svipuðum stað á listanum og HÍ. Jón Atli segir að hluta skýringarinnar megi finna í þeirri aðferðafræði sem beitt er við mælinguna.
„Þetta snýst svolítið um aðferðafræðina, hvernig matið fer fram. Ef við skoðum til dæmis þessa kennslumælikvarða þá byggja þeir mikið á viðhorfskönnun,“ segir Jón Atli. Þar skipti orðspor máli og HÍ tapi þar á því að vera lítill skóli. „Mér finnst vafasamt að meta hversu góð kennslan er út frá viðhorfskönnun.“
Viðhorfskönnun þessi er send út til tugþúsunda starfsfólks við háskóla víða um heim. Það séu síðan alls ekki allir sem svari könnuninni. „Þeir sem svara hafa áhrif en hinir ekki.
„Það má deila um hvaða kríteríur eru notaðar en við viljum vera hærri, það er engin spurning. Við viljum vera betur þekkt og hafa gott orðspor,“ áréttar Jón Atli.
Stúdentaíbúðir við Gamla Garð
Tekist hefur að stytta biðlista eftir stúdentaíbúðum en enn er staðan þannig að eftir endurúthlutun á stúdentagörðum Félagsstofnunar stúdenta, FS, í haust voru 729 stúdentar á biðlista eftir stúdentaíbúð. Til stóð að reisa nýjar stúdentaíbúðir við Gamla Garð á háskólasvæðinu en pattstaða virðist komin í málið.
„Við höfum verið að fara yfir málið og það eru komnar hugmyndir að því hvernig hægt sé að leysa það í víðtækri sátt. Bæði FS og Háskólinn hafa verið að skoða hugmyndir um það svo það er bara í gangi.“
Rektor segir að hann geti ekki sagt til um hvenær framkvæmdir geti hafist. „Ég get ekki sagt það. En þegar það er komin niðurstaða í málið þá er hægt að fara í það.“
Endurskoðun á lögum um LÍN
Í menntamálaráðuneytinu stendur yfir endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Jón Atli segir að ekki hafi verið haft samráð við HÍ í þeirri vinnu.
„Við höfum ekki verið kölluð þar til skrafs og ráðagerða. Síðast þegar voru tillögur að breytingum á LÍN var haldinn fundur með yfirstjórnum háskóla og lagðar einhverjar línur. Ég tel mjög mikilvægt að Háskólinn sé hafður með í þessu verkefni.“
Jón Atli segir það stórt hagsmunamál háskólasamfélagsins hvernig fyrirkomulag lánasjóðsins er. „Ég hef tjáð mig um að mér finnst jafnrétti til náms gríðarlega mikilvægt. Það hefur verið talað um styrki, sem er bara mjög fínt en þá þarf að útfæra vel. Ég held það sé mikilvægt að horfa á erlendar fyrirmyndir, búa vel að stúdentum og tryggja að þeir geti stundað námið.“
Vesturför rektors
Farið er að líða á seinni hluta viðtalsins svo við snúum okkur að léttara hjali og spyrjum út í reisu Jóns Atla um Kanada nú í sumar.
„Ég fór til Alberta-fylkis í Kanada í sumar en í fyrra fór ég að heimsækja háskóla og Íslendingaslóðir í Winnipeg og Manitoba. Á öllum þessum stöðum var mikill áhugi á starfi Háskóla Íslands og auknu samstarfi.
Þetta var óvenjuleg ferð fyrir rektor Háskóla Íslands því ég var að leita eftir fjárstuðningi frá Vestur-Íslendingum og öðrum sem eru velunnarar Íslendinga og Íslands,“ segir Jón Atli. Hluti af markmiði ferðarinnar var að safna framlögum í styrktarsjóð Stephans G. Stephanssonar en með sjóðnum vonast Jón Atli til þess að hægt verði að stofna við HÍ prófessorsstöðu tengda bókmenntum Vestur-Íslendinga.
„Stephan G. Stephansson, eitt ástsælasta skáld íslensku þjóðarinnar, flutti til Vesturheims og bjó bæði í Bandaríkjunum og Kanada. Ég heimsótti hans gamla heimili og barnabarn hans var minn leiðsögumaður í þessari ferð og skipulagði hana að stórum hluta. Samstarf við Vestur-Íslendinga í Kanada er mjög mikilvægt og þar er gríðarlega mikill velvilji í garð Háskóla Íslands,“ segir Jón Atli, en það varð nýlega þannig að framlög Kanadamanna til HÍ eru frádráttarbær þegar kemur að skattgreiðslum.
„Það má aldrei gleyma því að háskólasjóður Eimskipafélagsins, sem stendur nú í held ég þremur milljörðum, var stofnaður eftir gjöf Vestur-Íslendinga til Háskóla Íslands. Sjóðurinn hefur verið notaður hér nýlega í doktorsstyrki en nýttist einnig í að byggja Háskólatorg að hluta,“ segir Jón Atli og minnir okkur á að í keilunni, stóra loftglugganum á Háskólatorgi, má sjá farfugla sem fljúga í vestur. Tákn um stuðning Vestur-Íslendinga við Háskóla Íslands er því sýnilegt mörgum háskólanemum daglega.
Að því sögðu þökkuðu blaðamenn rektori fyrir viðtalið, tóku farfuglana sér til fyrirmyndar og svifu burt frá skrifstofu rektors yfir á Háskólatorg.