Vísindi hugans
„Bókmenntafræði.. já, já. Þú veist að þú hefur alla burði til þess að fara í stærðfræði eða verkfræði er það ekki?“ segir ónefndur frændi minn og fitjar upp á nefið. Ég horfi í gaupnir mér. Kannski er þetta rétt hjá honum. Það er ekkert vit í því að greina ritverk í þaula og spá í samfélagi fyrri tíma. Spyrja sig hvers vegna við mennirnir séum hér á jörðinni og hvert sé hlutverk mannkyns.
Eða hvað?
„Bókmenntir endurspegla samfélag síns tíma og gera lesendum kleift að setja sig í spor fólks sem það myndi annars aldrei kynnast. Þær upplýsa og uppfræða,“ svara ég. Frændi horfir á mig opinmynntur, ég lyfti höfði úr gaupnum mér og stari á hann ögrandi.
Á tímum þar sem mikilvægi tækni og tæknimenntunnar fer ört vaxandi og aukin vitundarvakning er um félagsleg vandamál og úrlausnir þeirra, er mikilvægi hugvísindasviðs síendurtekið dregið í efa.
Frændi minn er fluggáfaður maður og athugasemdir hans eru ekki einsdæmi um þær vangaveltur sem koma upp þegar nemendur segjast stunda nám í hugvísindum. Þrátt fyrir aukið mikilvægi annarra sviða í síbreytilegu samfélagi sem okkar eru greinar hugvísindasviðs ekki síður mikilvægar. Ég leyfi mér að fullyrða að allar fræðigreinar leitist við að skilja heiminn betur og/eða betrumbæta hann. Í gegnum tungumálið, bókmenntir, kvikmyndir, list, táknmál og trú tjáir mannkynið tilfinningar sínar, samfélagsaðstæður og svo margt fleira. Hvers konar list er ein leið til þess að skynja heiminn, sagnfræði er ein leið til þess að segja frá því hvernig mannkynið varð að því sem það er í dag og heimspeki farvegur til ítarlegs skilnings á því flókna viðfangsefni sem kallast jörð.
Nú stunda ég einungis nám við eina af fjölmörgum greinum hugvísindasviðs og get því aðeins talað út frá mínu sjónarhorni sem bókmenntafræðinemi. Bækur hafa opnað fyrir mér nýjar víddir. Þær hafa útskýrt fyrir mér aragrúa af atriðum sem ég áttaði mig ekki á að ég væri skilningssljó fyrir. Þær hafa hvatt mig til að gagnrýna samfélagið sem ég bý í og mótað með mér raddir ótal persóna sem ég hefði ekki kynnst nema fyrir þeirra tilstilli. Bókmenntafræðin gefur nemendum sem leggja stund á fagið tækifæri á að kafa ennþá dýpra. Hún gefur færi á að gagnrýna ekki einungis samfélagið heldur einnig færi á að breyta því til batnaðar. Greinin hefur nú þegar gefið mér þau verkfæri sem ég þarf til þess að miðla skoðunum og ádeilu, í gegnum sögu, texta eða beina orðræðu, þau verkfæri sem þarf til að miðla mikilvægi réttlætis. Mikilvægi betra samfélags fyrir alla. Hver einasti einstaklingur er mikilvægur og eins og Francis Bacon sagði, þá er mennt máttur, sama hvaða færni um ræðir.
Blaðamaður: Ragnhildur Þrastardóttir
Grein birtist fyrst í 4. tbl. 92. árg. Stúdentablaðsins.