„Við skulum ekkert gefast upp:” Rektor HÍ kveðst almennt bjartsýnn á framtíðina þrátt fyrir þrengingar í rekstri
„Almennt séð finnst mér framtíðin vera björt, ég held að íslensku samfélagi sé nauðsynlegt að hafa sterka háskóla og þetta gengur eiginlega bara út á það að það sé spennandi að búa hérna á Íslandi, hafa hérna öflugt þekkingarsamfélag og ef það á að vera, þá verður að vera öflugur háskóli,” segir Jón Atli í viðtali við Stúdentablaðið.
Alvarleg undirfjármögnun háskólastigsins hefur talsvert verið til umræðu að undanförnu og hafa rektorar háskólanna á Íslandi auk stúdenta barist í sameiningu fyrir auknum fjárveitingum til háskólakerfisins. Þó stjórnvöld hafi verið beitt talsverðum þrýstingi eru þær fjárveitingar, sem gert hefur verið ráð fyrir til háskólans í ríkisfjármálaáætlun, langt undir því sem nauðsynlegt þykir.
Mikilvægt að ná OECD-markmiðinu
„Ég lít nú svo á að þessar þrengingar sem við erum í núna, þær verði bara að vera tímabundnar,” segir Jón Atli. Hann segir að þrátt fyrir að betur mætti fara hvað þetta varðar eigi háskólinn í góðum samskiptum við stjórnvöld og vonast hann til að svo verði áfram.
„Það er náttúrlega mikill uppgangur hér á Íslandi og það er lögð mikil áhersla á að greiða niður skuldir, sem er gott, en mér finnst við ekki alveg hafa náð hljómgrunni nú í þessari lotu,” útskýrir Jón Atli. Fyrir kosningar hafi allir flokkar verið komnir inn á þá línu að ná meðaltali OECD-ríkjanna hvað varðar fjárframlög á hvern nemanda og því markmiði verði að ná innan kjörtímabilsins. „Þarf að ná þessum markmiðum og þá er bara barátta framundan,” segir Jón Atli.
„Við erum með nýjan menntamálaráðherra og okkur tekst ágætlega að ræða saman og við vonumst bara til að samstarfið verði gott. Svo ég myndi halda það, þó að þessi áætlun sé kannski ekki eins og við vonuðumst eftir, þá sé það ekki neinn endapunktur, við höldum bara áfram og byggjum upp,” bætir hann við. „Við sækjum fram og það verður góður háskóli áfram, öflugur, og þess vegna segi ég framtíðin er björt.”
„Blessaður, þetta er alltaf svona”
Baráttan fyrir viðunandi fjárframlögum til háskólans er þó langt frá því að vera ný af nálinni. Segist Jón Atli nýlega hafa átt samtal við einn fyrrverandi rektor þar sem hann lýsti þeim málum sem nú væru á einna helst oddinum í háskólanum, þ.e. fjármögnun. „Ég sagði honum að þetta væri nú helsta vandamálið [...] að það væri þessi fjármögnun. Hann sagði; blessaður, þetta er alltaf svona,” segir Jón Atli og hlær. „En við skulum ekkert gefast upp, það er aðal atriðið,” bætir hann við á alvarlegri nótum.
Í kjölfar þrenginga í rekstri háskólans hefur meðal annars þurft að skera niður tugi námsskeiða sem ekki verða kennd á næsta ári og opnunartími bygginga hefur verið styttur. En er fyrirséð að grípa þurfi til uppsagna eða annarra aðgerða til niðurskurðar?
„Það sem gerðist hjá okkur er að á sumum sviðum hafði verið farið aðeins skart í að ráða fólk og þess háttar og það bara leiddi til þess að við náðum bara ekki utan um þetta. Ég er nú ekki talsmaður þess að fara í uppsagnir eða eitthvað þess háttar,” segir Jón Atli, sem vonast til þess að ekki þurfi að grípa til frekari niðurskurðaraðgerða. Aftur á móti verði að sýna ábyrgð í rekstri og því sé erfitt að útiloka það að svo stöddu.
„Nú eru komin ný lög um fjárræður ríkisins þar sem ábyrgðin er orðin miklu meiri á forstöðumenn og við þurfum bara að tryggja það að kerfið virki,” útskýrir Jón Atli. „Við verðum náttúrlega bara að sýna ábyrgð.”
Vill helst hætta að tala um peninga
Nú setur ríkið fram áætlun til fimm ára og nú er í undirbúningi að setja einnig fram fimm ára áætlun fyrir háskólann. „Við erum sem sagt að undirbúa þetta, Daði Már Kristófersson, Sigurður Jóhannesson og Ásthildur Otharsdóttir, sem er stjórnarformaður Marel og situr í Háskólaráði, þau eru að vinna að því hvernig við getum gert þetta,” segir Jón Atli. Þó mikilvægir séu, segist Jón Atli vonast til þess að geta einbeitt sér frekar að öðru en peningum en það er að mörgu að huga við rekstur og starfsemi háskólans.
„Mitt plan er að hætta að tala um þessa peninga, þessi umræða er orðin svo lýjandi, bæði fyrir starfsfólk og stúdenta. Ef við bara vitum hvert við stefnum, erum í góðu sambandi við ríkið og getum svo haldið áfram,” segir Jón Atli. „Ef við erum alveg með púlsinn á þessu, þá á þetta að ganga upp.”
Aftur á móti spili alltaf inn í hversu margir nemendur komi inn í háskólann, hvernig launakjör þróast og hvernig ríkið kemur til móts við skólann og sennilega þarf betri áætlanagerð að sögn Jóns Atla. „En við skulum ekki mála skrattann á vegginn strax,” segir Jón Atli bjartsýnn.
Vísindin stöðugt vaxandi
Þrátt fyrir þrengingar í rekstri hefur talsverð uppbygging verið á háskólasvæðinu að undanförnu og stöðugar framfarir orðið í háskólasamfélaginu. En betur má ef duga skal. „Ef við lítum á vísindastarfið þá hefur það bara verið stöðugt vaxandi og bara gengið mjög vel. Við höfum lagt núna aukna áherslu á kennsluþáttinn, efla hann og ég held að það sé bara mjög mikilvægt. Á undanförnum áratugum hefur verið lögð áhersla á vísindaþáttinn og báðir þættir í háskólastarfinu verða að vera góði,” segir Jón Atli.
Málefni heilbrigðiskerfisins og bygging nýs Landspítala hafa ekki síður verið mikið til umræðu að undanförnu og er málaflokkurinn landsmönnum afar hugleikinn. Spítalinn gegnir einmitt mikilvægu hlutverki fyrir háskólann og háskólinn gegnir sömuleiðis mikilvægu hlutverki fyrir spítalann. „Við sjáum að heilbrigðisvísindasviðið okkar muni að megninu til flytja inn í nýja byggingu við Læknagarð, stærri byggingu þar sem verður svona heilbrigðisvísindahús sem er í nánu samstarfi við spítalann,” nefnir Jón Atli sem dæmi.
Þekkingarþorp í Vatnsmýrinni
„Síðan ef við tölum um uppbyggingu svona varðandi svæðið og þess háttar þá eru Vísindagarðar hérna að rísa,” bætir Jón Atli við. „Það er þá einhvers konar samfélag háskólastarfs og atvinnulífs; nemenda, kennara og atvinnulífs, og við teljum að það sé mjög spennandi.“
Þegar hafa komið inn nokkur fyrirtæki sem verða með starfsemi á Vísindagarðalóðinni. Fyrirtækið CCP er meðal annars á leiðinni, ýmis sprotafyrirtæki, lyfjaþróunarfyrirtækið Alvogen er þegar á svæðinu og þá er Íslensk erfðagreining einnig á lóðinni en svo fátt eitt sé nefnt.
„Þetta er bara mjög spennandi, það hefur tekið svolítinn tíma að byggja þetta upp eins og gengur en þarna er eitthvað sem ætti, í þessu þekkingarþorpi hérna í Vatnsmýrinni, að vera mjög öflugt,” segir Jón Atli. „Það eru að hefjast framkvæmdir í þessu hugmyndahúsi sem heitir Gróska, það mun rísa á næstu tveimur árum geri ég ráð fyrir,” bætir hann við, en þar mun CCP til að mynda vera til húsa auk annarra nýsköpunarfyrirtækja. „Þetta gerist kannski svona hægt og sígandi þegar það eru að koma fleiri fyrirtæki inn á þennan frábæra stað.”
Jafnframt segir Jón Atli það vera spennandi, að í þessu nýja nýsköpunarhúsi, Grósku, verði fyrirtæki sem leggi mikla áherslu á þverfræðilegt samstarf við allar deildir, hvort heldur sem er innan félagsvísinda, hugvísinda, verkfræði, heilbrigðisvísinda eða annað. „Það verður svona einhver suðupottur þarna,” segir Jón Atli.
Öflugar rannsóknir, alþjóðasamstarf og Háskólatorg
„Það er ýmislegt sem kemur upp í hugann,“ segir Jón Atli, spurður um hvað sé honum helst minnisstætt síðan hann tók til starfa í háskólanum. „Ég kem til starfa 1991, þá er sem sagt meistaranám bara að byrja í flestum deildum og fólk svona var að velta því fyrir sér hvort það væri eðlilegt.” Áhersla hafi ávallt verið lögð á að nemendur fari utan og öðlist einnig reynslu í öðrum löndum, en HÍ á til að mynda í öflugu samstarfi við marga erlenda háskóla þar sem nemendum gefst kostur á að sækja skiptinám.
Þá nefnir hann að ein stærsta breytingin á undanförnum 25 árum hafi verið þegar mörkuð var sú stefna að leggja aukna áherslu á rannsóknarnám og að efla doktorsnám. Á árunum 2005-2006 var gerður samningur við ríkið um að efla rannsóknarnám sem hafði jákvæð áhrif að mati Jóns Atla. „Það var mjög stórt skref fram á við. Það var búið að lýsa því yfir í upphafi aldarinnar þessarar að Háskóli Íslands væri rannsóknarháskóli, þá verður þessi breyting. Þá fáum við fleiri nemendur inn í rannsóknarnámið, þá er þetta meira viðurkennt og fleiri erlendir nemendur koma inn,” útskýrir Jón Atli.
Þá megi ekki gleyma tilkomu Háskólatorgs sem gegndi mikilvægu hlutverki fyrir háskólasamfélagið. „Það er alveg lykilpunktur, og ef við tökum þetta saman; öflugt alþjóðastarf, öflugt rannsóknarnám og Háskólatorg, þá finnst mér það vera stóru breytingarnar á undanförnum árum,” segir Jón Atli að lokum.
Blaðamaður: Elín Margrét Böðvarsdóttir
Viðtal birtist fyrst í 4. tbl. 92. árg Stúdentablaðsins