Spákvæmni

Terrafugia-flugbíl

Terrafugia-flugbíl

Framtíðin er hér! Eða svo héldum við. Árið 2017 er gengið í garð en hvar eru fljúgandi bílarnir? Í tilefni af umfjöllunarefni blaðsins ákvað blaðamaður Stúdentablaðsins að rýna í hvaða sýn fólk fyrr á tímum hafði af árinu 2017 og hvernig árið 2017 hefur ýmist brugðist eða staðið undir þeim væntingum.

Brunnur kvikmyndaheimsins virðist langdrýgstur þegar leitað er að slíkum spádómum, hvort sem þeir eru metnaðarfullar tilraunir til raunverulegrar framtíðarsýnar eða ekki. Kvikmyndir taka sig misalvarlega í tilraunum sínum til sköpunar á framtíðarveruleika, sem er gott að hafa í huga þegar kafað er í djúpan brunn vísindaskáldskaparins. Tvö góð dæmi eru um myndir á miðjum aldri sem eiga að gerast árið 2017.

Skylmingaþrælar og morðóð illmenni

Í myndinni The Running Man frá árinu 1987 leikur Arnold Schwarzenegger ranglega fangelsaðan mann sem berst fyrir frelsi sínu sem framtíðarskylmingarþræll í raunveruleikaþáttum samnefndum myndinni. Í þeim kljást fangar við alls kyns morðóð illmenni í von um frelsi. Myndin er dystópísk framtíðarsýn, Bandaríkin eru alræðisríki og fylgst er með hverri hreyfingu íbúanna. Stjórnvöld sefja almúgann með sjónvarpsefni á borð við áðurnefnda þætti, sem eru langvinsælasta sjónvarpsefnið.

Að raunveruleikasjónvarp sé vinsælasta áglápið er vissulega sönn spá en þó er enn ekki farið að leggja líf fólks að veði fyrir það. Hin margfræga allsherjarhlerun NSA er ekki fjarlæg slíkri framtíðarsýn og almúginn er að mestu aðgerðarlaus, sefjaður af bergmálsklefum samfélagsmiðlanna.

Óskammfeilin nasistaeftirmynd

Með hækkandi frægðarsól um miðbik tíunda áratugarins fór Pamela Anderson að reyna fyrir sér á hvíta tjaldinu. Myndin Barb Wire frá árinu 1996, byggð á samnefndri myndasögu, skartar henni í aðalhlutverki.  Fjallað hefur verið um hversu „sannspá” ræman reyndist um pólitískt landslag í Bandaríkjunum árið 2017, þrátt fyrir að fátt annað við hana hafi heppnast sérlega vel. Reyndar svo illa að myndin var tilnefnd til 6 Razzie verðlauna.

Í myndinni takast uppreisnarmenn á við stjórnvöld sem eru óskammfeilin nasistaeftirmynd í „seinna þrælastríðinu.” Sögusviðið er borgin Steel Harbour, sem er eina borgin sem Bandaríkjamenn geta flogið frá til að flýja stríðshrjáð landið. Pamela leikur Barböru, nektardansmær og málaliða sem berst af hörku gegn handbendum yfirvaldsins og fleiri mönnum sem eru hver öðrum sveittari og ágengari. Í fyrstu hljómar þetta ansi fjarri lagi, en rísandi kynþáttahatur og kvenfyrirlitning meðal stjórnvalda er okkur alkunnug um þessar mundir. Í myndinni, líkt og í raunveruleikanum, dreymir Bandaríkjamenn um að flýja til Kanada.

Báðar myndirnar eru algjörlega lausar við svifbílarugl og í raun er lítið um framtíðartækni í þeim. Jafnvel væri hægt að fullyrða að stöðnun hafi átt sér stað í tækniþróun milli gerðar myndanna og sögutíma þeirra.

Flugdrossíur og svifrennireiðar

Sjálfkeyrandi bílar nálgast óðfluga, þó flugbílar virðist vera fjarlægur veruleiki. Nýlega var reyndar fyrsti flugbíllinn samþykktur af helstu öryggiseftirlitsaðilum lofts- og landfarartækja, en hann lítur frekar út eins og flugvél og bíll sameinuð í eitt heldur en sjarmerandi svifrennireið. Dálítið svipað og ef myndavél og sími væru fest saman með límbandi og útkoman kölluð myndavélasími. Mörg dæmi sýna að svifbílarnir eru algeng framtíðarvon en þeim bregður t.d. fyrir í kvikmyndunum Blade Runner, Back To the Future II, Metropolis, Star Wars og svo mætti lengi telja.

Aðeins eru 2 ár í að tímasvið Blade Runner gangi í garð. Þar eru vissulega svifbílar, en reyndar sjálfkeyrandi svifbílar. Sjálfkeyrandi bílar eru nú þegar á vegum úti í tilraunaakstri hjá Google, Uber og fleirum. Verulega ólíklegt er þó að vélmenni, sem eru að mestu óaðgreinanleg frá mannfólki, verði til árið 2019 líkt og í myndinni. Bókin Do Androids Dream of Electric Sheep eftir Philip K. Dick, sem myndin er byggð á, átti að gerast árið 1992. Þar stöndum við spánni mjög langt að baki. Myndin Back To The Future II frá árinu 1989, sem átti að miklu leyti að gerast árið 2015, var þó ansi sannspá þrátt fyrir að hafa reiknað með flugdrossíunum. Meðal annars smellhitti hún í mark með flatskjái og myndsamtöl.

Blóðþyrsta íþróttin Rollerball

Myndin Rollerball frá árinu 1975 gerist árið 2018 í enn einum dystópískum raunveruleika. Allar þjóðir heims urðu gjaldþrota og sameinuðust síðan í eina risaþjóð eftir að „fyrirtækjastríðin” höfðu gengið yfir. Þessari sameinuðu þjóð er stjórnað af stórfyrirtækjum, þ.á.m. Energy Corporation, eigendum Rollerball-liðs söguhetjunnar. Blóðþyrsta íþróttin Rollerball er miðpunktur myndarinnar.  Menn í stjórnunarstöðum gera u.þ.b. það sem þeim sýnist en einn þeirra ákveður að „taka” eiginkonu söguhetjunnar til sín í sveitasetur sitt á Ítalíu og gera hana að sinni. Þetta er daglegt brauð og fólk kyngir því almennt, þar til söguhetjan rís upp á móti óréttlætinu. Ekki gerir konan hans það þó, þrátt fyrir þessi viðskipti með hana, en það er ein af birtingarmyndum eins helsta galla myndarinnar. Konurnar eru sýndar sem hálfheiladauðar í myndinni, alveg skertar persónuleika og virðast einungis þjóna því hlutverki að vera verðlaunagripir fyrir stórkarlalega mennina. Auk þess sem að hún varpar ljósi á yfirmáta karllægni og rembu kvikmyndargerðarmannanna er þessi túlkun á kvenfólki líklega lélegasta gisk þeirra á stöðu mála í dag. Jafnrétti kynjanna hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 1975, þó enn sé langt í land.

Að þessu undanskyldu á margt í myndinni við í dag, þægindi og öryggi virðast trekk í trekk valin fram yfir það að rísa upp gegn óréttlætinu. Frjáls vilji er gefinn upp á bátinn því það er auðveldara. Eins og margt annað innan vísindaskáldskapar spáði Rollerball e.t.v. nokkuð réttilega um framtíð þar sem peningar stjórna heiminum og fólk með slík völd kann almennt ekki að fara með þau. Einnig að almúginn er ýmist dáleiddur af afþreyingu og tekur þá ekki eftir vandamálum heimsins, eða tekur eftir þeim, og aðhefst ekkert vegna þess að það er óöruggara eða óþægilegra.

Það sem flestar umræddar kvikmyndir klúðra í spádómum sínum er að búast við einhvers konar alræðisríki, eða að tækniþróun leiði til takmarkana á upplýsingum. Helst má sjá dæmi um slíka útkomu í Norður-Kóreu. Þvert á móti hefur internetið gert fólki kleift að nálgast ógrynni upplýsinga og vandamálið er frekar á þá leið að fólk hafi of mikinn aðgang að upplýsingum hvaðanæva úr heiminum. Fólki líði jafnvel eins og það sé að drukkna í upplýsingum sem virðist leiða til aukins sinnuleysis.

Faxtækin tilheyra fortíðinni

Erfiðara er að finna íslenskan skáldskap eða kvikmyndir með sögusvið í framtíðinni en finna má ýmis annars konar dæmi um mismunandi framtíðarsýn.

Skemmtilegt er að rýna í erindi framkvæmdastjóra Eimskipa,  Þorkels Sigurlaugssonar, á ársfundi Skýrslutæknifélagsins árið 1991. Erindið fjallar m.a. um framtíð í tækni. Þó að spárnar hans séu að mörgu leyti nákvæmar þá fær úrelt tækni á borð við faxtækin að fljóta með:

„Þegar þú ferð á veitingastað spyrðu ekki um borð við glugga heldur borð með síma og faxi.”

Fjarlægir draumar um að fá matseðilinn sendan með faxi á borðið urðu því miður ekki að veruleika. Öðru máli gegnir um myndsamtöl:

„Í stað þess að grípa til símans, þá snertir fisksalinn á uppboðsmarkaðnum tölvuskerminn og segir orð eða „skipanir.” „Vinsamlegast hringdu í Harima,” „klukkan er 7 að morgni í Japan,” segir tölvan við þig. Eftir fáeinar sekúndur birtist mynd á skerminum af Harima. Hann er á hótelherbergi í Tokyo og ennþá í rúminu. Með því að snerta aftur skerminn kemur sjálfvirk þýðing á samtalinu úr japönsku yfir á ensku og úr ensku yfir á japönsku.”

Þó mælandi hitti beint í mark með myndsamtölin virðast þýðingarforrit vera heldur aftarlega á merinni. Skype og fleiri forrit bjóða upp á tæknina sem þarna er lýst, en hún er ekki gallalaus. Það er heljarinnar verkefni að fullkomna þá tækni, enda þýðingar tungumála virkilega margslungnar. Þýðingartæki á borð við ili lofa þó góðu.

Sjáendur og berdreymnir

Leiðinlegt væri að útiloka úr umfjölluninni alla vitnisburði sjáenda, sérstaklega ef það býður upp á að véfengja spádóma þeirra.

„Farið var með hann í flugferð yfir svæðið næst höfuðborginni. Honum var sagt, að þáverandi tímatal væri 2020 og honum voru sýndar breytingarnar, sem orðnar voru. Hið helsta úr lýsingunni var það, að Hafnarfjörður var kominn undir hraun að miklu leyti. Byggðin á Seltjarnarnesinu öllu var eydd og gamli miðbær Reykjavíkur sokkinn í sæ. Þéttasta byggðin átti hins vegar að vera komin í Mosfellsdalinn.”

Guðmundur Sigurfreyr Jónasson vitnar hér í draumlýsingu berdreymins íslensks manns. Spádómurinn á að vísu ekki að rætast fyrr en eftir 3 ár en þessi 3 ár virðast þó ætla að verða mjög viðburðarrík.

Hvernig verður 2030?

Viðeigandi er að ég endi þessa umfjöllun með eigin spá fyrir árið 2030 svo fólk geti grafið hana upp og annað hvort dáðst að nákvæmninni eða hlegið að framtíðarblindunni. Myndsamtöl munu verða að raunverulegum heimsóknum til viðmælandans í sýndarveruleikarými. Svifbílar halda áfram að vera draumórar sama hversu heitt ég þrái þá. Sjálfkeyrandi bílar verða þó allsráðandi. Ef olíusamsteypurnar fara loksins að lúffa þá verða þeir flestir rafknúnir (krossleggjum fingur). Sjálfkeyrandi bílaflotinn verður ekki í jafn mikilli einkanotkun heldur á stöðugri ferð og þegar þú þarft að komast á milli staða kallarðu bara á næsta bíl. Þú átt kannski bílinn en sendir hann bara út á rúntinn (og færð þá einhverjar tekjur á móti).

Einhvers konar flaga eða sambærilegur smáhlutur verður mögulegur sem ígræðsla, sem staðgengill snjallsíma eða tölvu. Auglýsingar verða sérsniðnar að þér hvert sem þú ferð.

Ferðamannabólan á Íslandi verður löngu sprungin, og yfirgefin hótelborgin verður tómleg og gráguggin í fyrstu. Smátt og smátt verða hótelherbergin heimili hústökufólks eða breytt í ódýrt húsnæði. Íslendingar læra ekkert af skammsýninni. Germanskt dauðareggí verður allsráðandi í tónlistarheiminum og fólk mun reykja dauðann úr skel í stað síga- og rafrettureykinga.

Blaðamaður: Hjalti Freyr Ragnarsson
Grein birtist fyrst í 4. tbl. 92. árg. Stúdentablaðsins.