Daði og Gagnamagnið: Daði & Árný ætla að flytja til Kambódíu

Ljósmynd/Facebook

Tónlistarmanninn Daða Frey Pétursson kannast eflaust flestir við en hann kom, sá og hafnaði í öðru sæti í Söngvakeppninni í ár. Daði og vinir hans í Gagnamagninu hafa vakið mikla athygli og hefur lagið hans „Hvað með það” eða „Is this love” eins og það kallast á útlensku, heyrst óma úti um allar trissur síðan. Peysurnar fagurgrænu hafa ekki síður vakið mikla lukku og geta áhugasamir nú orðið sér úti um peysurnar fínu. Daði á sannarlega framtíðina fyrir sér í tónlistinni en Stúdentablaðið ræddi stuttlega við Daða um daginn og veginn og verkefnin framundan en hann er nú búsettur í Berlín ásamt kærustunni sinni Árnýju Fjólu Ásmundsdóttur.

Til gamans má geta að þrír meðlimir Gagnamagnsins eru nemendur við Háskóla Íslands, þar á meðal Árný, sem stundar fjarnámi í mannfræði. Hún er þó ekki ein í þeirri deild en Jóhann Sigurður Jóhannsson í Gagnamagninu er einmitt formaður HOMO, nemendafélags mannfræðinema. Þá stundar Stefán Hannesson mastersnám í íslenskukennslu en auk þeirra í Gagnamagninu eru þær Hulda Kristín Kolbrúnardóttir og Sigrún Birna Pétursdóttir, systir Daða.

-Hvað ertu að bardúsa þessa dagana?

Eins og er er ég á fullu að vinna í lokaverkefnunum mínum fyrir BA-námið mitt í dBs music í Berlín. Nú er komið svo mikið sumar líka að stundum förum við Árný út í almenningsgarða og lærum þar.

-Hvað ætlarðu að gera í sumar, vinna við tónlistina eða eitthvað annað?

Ég ætla að reyna að einbeita mér að tónlistinni alfarið í sumar. Ég hef verið að reyna að koma mér í auglýsingatónlistargerð og ætla að sjá hvort að það séu ekki einhver tækifæri þar. Annars ætla ég bara að vera duglegur að gera meiri tónlist. Ég hef verið að vinna sem hljóðmaður við bíómyndir en það er svo mikil vinna að það kemst eiginlega ekkert annað fyrir.

-Hvað áttu mikið eftir af náminu? Stefnirðu að því að flytja aftur til Íslands að því loknu?

Ég er að klára námið núna í vor og verð áfram í Berlín eftir það. Ég kem eitthvað heim í sumar í kringum hátíðir til að spila, en þess á milli verð ég í Berlín að vinna að meiri tónlist. Eftir sumarið, sennilega eftir Airwaves, ætlum við Árný svo að flytja til Kambódíu í sirka hálft ár til að kynnast nýrri menningu, gera tónlist og hafa það gott.

-Er eitthvað nýtt efni á leiðinni frá þér, er plata eða eitthvað slíkt í bígerð?

Eins og er er brjálað að gera í skólanum svo ég hef ekki mikið náð að klára neitt nýtt. En ég er með eitt lag sem fer að verða tilbúið og ég á bara eftir að klára, ætli ég hendi svo ekki í EP-plötu í eða eftir sumarið, ég er með nóg af hugmyndum allavegana.

-Hvert er markið sett í framtíðinni, hver er draumurinn?

Ég hef í rauninni ekki spáð mikið í hvar ég vil vera í framtíðinni. Við Árný ætlum að vera saman allavegana, ég veit það. Annars bara tónlist. Ég vil gera tónlist í framtíðinni. Það er draumurinn.

-En þegar þú varst yngri, hver var draumurinn þá? Hefur það alltaf verið tónlistin?

Ég ætlaði að vera teiknari frá því að ég var í leikskóla og alveg þangað til ég varð svona þrettán ára. Þá stofnaði ég hljómsveitina Finnski Herinn, við æfðum einu sinni í viku í tónlistarherbergi Laugalandsskóla. 2011 ákvað ég svo að demba mér í raftónlist og þá varð hljómsveitin RetRoBot til, við unnum músíktilraunir 2012 (akkúrat 5 ár síðan þegar ég skrifa þetta) og eftir það var draumurinn bara að vinna við að gera tónlist.

-Hvernig hefur þátttakan í Söngvakeppninni haft áhrif á líf þitt? Gætirðu hugsað þé að taka þátt aftur?

Söngvakeppnin hafði náttúrulega alveg ótrúlega góð áhrif á sýnileika minn á Íslandi. Allt í einu veit fullt af fólki af mér og af tónlistinni minni. Ég er ekki viss um að ég taki þátt aftur, þetta var mjög skemmtilegt en ég held ég hafi fengið allt út úr þessari keppni sem ég gat fengið. En maður veit ekki, kannski verð ég í rosa stuði á morgun og sem annað júrólag.

-Annað að lokum?

Stay in school.

Viðtal birtist fyrst í 4. tbl. 92. árg. Stúdentablaðsins.