Leyndardómsfull boð og bönn: Um menntun í Íran og Afganistan
Íran og Afganistan eru nágrannalönd í Mið-Austurlöndum. Fyrir stuttu var ég, 22 ára íslensk háskólastúdína, fær um að finna þessi lönd á korti án mikilla vandkvæða en ég vissi ekkert um þau. Þar sem löndin hafa landamæri hvort að öðru gerði ég ráð fyrir að skólaganga barna í þessum löndum væri sambærileg en það er öðru nær. Að því hef ég komist í gegnum vinkonur mínar, Homu og Maryam.
Homa
Fyrir ári síðan tók líf Homu, 24 ára gamallar íranskrar stúlku, óvænta stefnu. Á þeim tíma var hún hálfnuð með meistaranám við Tehran háskóla, einn virtasta háskóla Írans. Öryggi Homu og fjölskyldu hennar var ógnað af því að þau höfðu gerst kristin í óþökk ríkisins. Þegar vinur þeirra var tekinn af lífi fyrir að vera kristinn vissu þau að tími þeirra væri runninn út. Þau flúðu til Tyrklands og fóru þaðan til Grikklands. Þar sátu þau í fangelsi í heilan mánuð, eins og glæpamenn. Enginn útskýrði fyrir þeim af hverju. Hálfu ári síðar komust þau í öruggt skjól á Íslandi. Umsókn þeirra um hæli var samþykkt og nú lifa þau góðu lífi, vinna og læra íslensku.
Algengt að fara í háskóla
Í Íran er tólf ára skólaskylda. Skólastigin skiptast í þrennt, það er barnaskóla, gagnfræðaskóla og framhaldsskóla. Skóladagurinn er sex klukkustundir í ríkisskólum en gjarnan lengri í einkaskólum. Íranskir nemendur læra ýmis grunnfög, þar á meðal persnesku, arabísku og ensku. Þegar nemendurnir fara í tíunda bekk þurfa þeir að velja sér sérsvið.
Homa stundaði nám í ríkisreknum skóla og valdi stærðfræði sem sitt sérsvið þar sem hún stefndi að því að verða verkfræðingur. Eftir útskrift úr tólfta bekk fór hún beint í háskóla. „Allir sem ég umgengst halda áfram námi og fara í háskóla,“ segir Homa. Líkt og vinir Homu fóru foreldrar hennar í háskólanám þegar þau voru á hennar aldri en afi hennar og amma gerðu það ekki. Þegar þau voru ung var ekki eins algengt að fólk færi í háskólanám.
Lærði í 17 klukkustundir á dag
Homa er hörkudugleg stelpa með metnaðarfulla framtíðardrauma. Að komast inn í háskóla í Íran er ekki jafn auðvelt og það er á Íslandi. „Ef þú vilt fara í einn af góðu háskólanum þá er það ekki erfitt. Það er hræðilegt. Ég gat ekki gert neitt annað en að læra. Ég svaf bara í um tvo til þrjá tíma á nóttu og notaði lágmarkstíma í að sinna öðrum grunnþörfum.“ Homa hefur upplifað svona brjálæði tvisvar á ævinni, fyrst þegar hún vildi hefja grunnnám og aftur til að komast inn í framhaldsnám.
Til að búa sig undir stóra inntökuprófið fór hún í aukatíma fjórum sinnum í viku og tók stór æfingapróf annan hvern föstudag. „Spurningarnar eru alltaf ótrúlega flóknar og á hverju ári eru þetta dæmi sem maður þarf aldrei að leysa í daglegu lífi. Það er ekki nema með því að leggja hart að sér við námið sem maður getur skilið þau og lært að leysa þau.“ Námið heldur áfram að vera krefjandi eftir að nemendur komast inn í háskólann. „Það eru tvær tegundir af háskólum. Það er auðvelt að komast inn í aðra [dýra einkaskóla] en erfitt að komast inn í hina [ódýrari ríkisskóla] en það er erfitt að útskrifast úr báðum. Maður þarf að hafa fyrir því að útskrifast. Það er svo erfitt í báðum skólunum,“ segir Homa. Engu að síður hafði Homa gaman af náminu.
Eftir að hafa lokið grunnnámi í verkfræði við Payame noor-háskóla fór Homa í rekstrarhagfræði við Tehran-háskóla. Hún var hálfnuð með prófgráðuna þegar hún þurfti skyndilega að leggja land undir fót. „Ég er svo leið, því þrátt fyrir að hafa reynt og reynt mitt besta til að ná þessu markmiði, tókst mér ekki að klára það en ég vona að ég geti haldið áfram hér,“ segir Homa. „Ég átti mér ekki draumastarf ennþá. Það var mér mikilvægt að fá fyrst prófgráðuna og eftir það fara í doktorsnám. Mig langar svo mikið í doktorsnám. Eftir það langaði mig að byrja að vinna.“
Bannað að dansa
Háskólasamfélagið í Íran er ólíkt háskólasamfélaginu á Íslandi. Við Háskóla Íslands er mikið félagslíf en í Íran er ekkert slíkt. Í landi þar sem bannað er með lögum að dansa og horfa á tónlistarmyndbönd kemur þetta ef til vill ekki á óvart. „Í landinu okkar er aldrei neitt klúbbastarf. Áhugamálið okkar á að vera að fara heim og læra meira af því að við megum ekki dansa. Við megum ekki fara á bar og fá okkur drykk en við megum læra.“ Þrátt fyrir þetta er ekki erfitt að eignast vini. „Það er auðvelt af því við tölum sama tungumál,“ segir Homa og vísar til breyttra aðstæðna hennar nú á Íslandi. Með vinum sínum í Íran fór Homa gjarnan „á kaffihús, heim til einhvers eða í ræktina. En ræktin er kynjaskipt í Íran þannig að stelpur og strákar geta ekki verið saman.“ Já, í Íran viðgangast aðrar hugmyndir um kynin en á Íslandi. „Alla skólaskylduna eru strákar og stelpur skilin að. Það eru sér skólar fyrir stelpur og sér fyrir stráka en í háskólanum, þökk sé Guði, eru þau saman,“ segir Homa.
Reknar fyrir að tala við stráka
Erfitt er fyrir Írani að skilja margar af reglum ríkisstjórnarinnar. „Allt sem er bannað langar stelpurnar enn meira að gera. Í sjöunda til tólfta bekk eru stelpur og strákar í aðgreindum skólum en fyrir vikið langar þau meira til að vera saman. Strákarnir koma fyrir framan skólahliðið á hverjum degi. En það er líka bannað. Ef kennararnir sjá þá lenda þeir í klípu og sama á við um stelpurnar sem þeir eru að bíða eftir. Þær geta verið reknar úr skólanum fyrir að tala við stráka. Þetta eru spennandi ár fyrir stelpur og stráka því þau geta ekki verið saman en þau langar til þess,“ segir Homa. Samt sem áður finna strákar og stelpur leiðir til að hafa samband hvort við annað. Þegar Homa var yngri laumuðu strákarnir gjarnan pappírssneplum með símanúmerunum sínum til stelpnanna. Nú er orðið algengara að þau tali saman í gegnum samfélagsmiðlana. Eitt sem íranskir strákar þurfa að gera sem stelpur sleppa við er að fara í herinn. Strákar geta lært eins mikið og þeir vilja en eftir það þurfa þeir að ganga í herinn. Þetta er veruleiki unnusta Homu. „Hann þarf að fara í herinn núna. Við vitum ekki hvað gerist eftir það. Herinn er tvö ár. Þetta er hræðilegt,“ segir Homa.
„Girls just want to have fun“
Allir kennararnir í kvennaskólunum sem Homa og systir hennar gegnu í voru kvenkyns. Stelpurnar áttu að hylja hárið á sér öllum stundum í skólanum líkt og annars staðar úti í samfélaginu. Yngri systir Homu útskýrði þetta svona: „Maður þarf að hafa hijab-slæðu í skólanum. Maður getur ekki tekið hana niður því foreldrar eða karlmenn gætu komið í heimsókn. En þegar það er mjög heitt í veðri verðum við klikkaðar og tökum hana af, því að við bara þolum þetta ekki. Við höfum slæðuna heldur ekki á okkur þegar kennararnir eru ekki að horfa. Við kunnum ekki að meta hana. Við setjum hana bara á okkur af því kennararnir segja okkur að gera það.“ Um kynjaskipta skólakerfið sagði systir Homu: „Ég veit ekki af hverju þau eru aðskilin. Bæði vilja fá að vera saman og geta það ekki fyrr en í háskólanum. Það eru bara allir spenntir að fara í háskólann.“ Hver veit nema eitt af því sem drífur unga Írana áfram í námi sé biðin eftir því að geta átt samskipti við hitt kynið í háskólanum.
Maryam
Um það leyti sem Maryam, 19 ára gömul afgönsk stúlka, var að komast á táningsaldurinn fóru faðir hennar og bróðir á hátíð sem haldin var í óþökk yfirvalda og komu aldrei aftur. Líf kvenna í Afganistan einkennist af óöruggi án verndar karlmanna. Þegar 55 ára gamall stríðsherra vildi giftast 14 ára gamalli Maryam ákváðu hún og móðir hennar að flýja til Evrópu. Eftir langt ferðalag enduðu þær í Svíþjóð. Þar biðu þær í þrjú ár en var neitað um hæli. Maryam og móðir hennar hafa verið á Íslandi í eitt og hálft ár og voru fyrst núna að fá jákvætt svar. Biðin hefur reynst þeim erfið.
Sýra beint í andlitið
Áður en Talibanar og Daesh komu til Afganistan gengu drengir og stúlkur saman í skóla og konur unnu úti. Ástandið er annað í dag. Engin skólaskylda er í landinu og því er staðan sú að ef feður eru ómenntaðir senda þeir börnin sín ekki í skóla. Í stóru borgunum, þar sem áhrif Talibana og Daesh eru minni en þau eru í smærri borgum, er þó eitthvað af menntuðum foreldrum sem gera það. Meira að segja í höfuðborginni Kabúl, sem jafnan er talin öruggari en aðrar borgir, er nemendum stefnt í hættu. Að minnsta kosti einu sinni í mánuði eru tilfelli þar sem ættingjar eða nágrannar, sem eru ósáttir við að stúlkur gangi í skóla, skvetta sýru í andlit þeirra um leið og þær ganga framhjá. Einnig eru tilvik þar sem kennarar misnota aðstæður sínar og nauðga nemendum sínum. Hrottalegar afleiðingar hlutust einnig af því þegar Talibanar settu eitur í vatnstank skóla. Sökum þessara aðstæðna eru foreldar síhræddir um að eitthvað gæti komið fyrir börnin þeirra ef þeir leyfa þeim að fara í skóla.
Hættulegt að vera falleg
Skólar eru lokaðir á þeim stöðum þar sem Talibanar og Daesh ráða ríkjum. Þar eru einungis „madrasa” fyrir þá sem vilja verða Talibanar og „masjed” fyrir þá sem vilja stúdera Kóraninn. Trúarbragðakennslan byggir á bókstafstrú og eru hugmyndir um stöðu kynjanna gjörólíkar því sem við þekkjum í hinum vestræna heimi. Konur eiga ekki að yfirgefa heimili sitt að óþörfu. Ef þær fara út eiga þær að hylja sig með því að klæðast búrku. Öðrum stundum hylja þær hár sitt með hijab. Konur geta ekki ferðast um einar. Faðir þeirra eða bróðir ætti alltaf að vera með þeim því annars eiga þær það á hættu að einhver hrífist af þeim og hafi þær á brott með sér. Samkvæmt Talibönum þurfa konur ekki að læra meira en í mesta lagi að lesa og skrifa þar sem hlutverk þeirra eru hvort sem er einungis að giftast og sjá um húsverkin.
Maryam gekk aldrei í skóla í Afganistan. Hún lærði ekki að lesa og skrifa á móðurmáli sínu, dari, fyrr en hún fór í skóla í Svíþjóð. Ólíkt Maryam fór móðir hennar í skóla sem stelpa en aðeins í um fimm ár. Foreldrar hennar, sem voru ómenntaðir, refsuðu henni þegar hún sagðist vilja læra meira eins og vinir hennar úr menntuðum fjölskyldum. Faðir Maryam og afi höfðu menntast en þeir voru bókstafstrúar og lítið gefnir fyrir að stúlkur menntuðust. Hefðin í Afganistan er að stúlkur giftist allt frá níu ára aldri en móðir Maryam var sextán ára þegar hún giftist. Fólk hafði áhyggjur af því að hún myndi ekki giftast þar sem hún var orðin svo gömul.
Skólatafla í stiganum
Maryam og fjölskylda bjuggu í Íran í fjögur ár þegar hún var ung. Þar sem þau voru ólöglegir innflytjendur gat hún ekki gengið í ríkisskólann þar. Um tíma gekk hún þó í lítinn afganskan skóla. Það var ekki góður skóli. Kennslustofan var einn salur og þar var fjórum bekkjum kennt á sama tíma. Stiginn sem lá niður í kjallara var einnig nýttur sem kennslustofa. Þar sátu börnin á pullum í tröppunum og horfðu upp á skólatöflu sem þar hafði verið komið fyrir. Það voru alltaf mikil læti og stundum slógust krakkarnir. Þá daga sem nemendurnir höfðu námsbók höfðu þeir ekki glósubók; þá daga sem þeir höfðu glósubók var enginn kennari. Maryam leið ekki vel í skólanum og fannst hún ekki læra neitt.
Maryam og fjölskylda voru send aftur til Afganistan. Þau sneru aftur til Helmand-héraðs, sem svo illa vildi til að var eitt af aðal yfirráðasvæðum Talibana. Þar voru þau bændur á landi sem þau höfðu erft og höfðu fólk í vinnu við að hjálpa sér að sjá um dýrin og rækta ávexti og grænmeti. Á þessum árum fór Maryam aldrei út fyrir landsvæðið sem þau áttu ólíkt bróður sínum sem fékk öðru hverju að fara í erindagjörðir með föður þeirra.
Skóli í Svíþjóð
Það var ekki fyrr en Maryam kom til Svíþjóðar að hún fór í ríkisskóla. Kennararnir voru frábærir og hvöttu hana til að leggja hart að sér við námið. Hún var fljót að læra og lærði að lesa og skrifa á dari, móðurmáli sínu, auk þess að leggja stund á sænsku og önnur fög. Móður hennar leiddist stundum að vera ein heima í framandi landi og fór því með henni í skólann. Um leið og þær fengu fyrstu neitunina um hæli og síðan aðra, hrakaði heilsu móðurinnar og Maryam missti æ oftar úr skólanum til að hugsa um móður sína. Suma daga þegar hún mætti ekki í skólann kom kennarinn og sótti hana á bílnum sínum og fór með hana í skólann.
Maryam segist mjög þakklát fyrir þá vinsemd sem kennararnir sýndu henni. Þeir voru meira en bara kennarar. Í hádegishléinu sátu þeir hjá nemendum sínum og af því að Maryam var ný í landinu kenndu þeir henni að versla í matinn og aðlagast sænsku samfélagi. Eftir þriðju neitunina í Svíþjóð komu Maryam og móðir hennar til Íslands. Fyrir utan stöku íslensku- og enskutíma hafa mæðgurnar haft lítið fyrir stafni á Íslandi annað en að bíða. En nú með hækkandi sól hafa þær fengið hæli á Íslandi og því fylgir, líkt og vorsólinni, bjartsýni.
Við sem alin erum upp á Íslandi höfum örugglega öll einhvern tímann óskað okkur þess að við værum veik svo við gætum sleppt því að mæta í skólann og hangið heima og gert ekki neitt. Eftir að hafa heyrt sögu vinkvenna minna hef ég betur áttað mig á því hversu mikil forréttindi það eru að fá að ganga í skóla. Menntakerfið á Íslandi er að mörgu leyti til fyrirmyndar og ég er þakklát fyrir að fá að vakna á morgnana og fara í skólann.
Blaðamaður: Karítas Hrundar Pálsdóttir