Húsnæðiskreppan - Séð með augum alþjóðlegs nemanda

matese-fields-233175.jpg

Skiptinemar hvaðanæva að eru sammála um að það er óhjákvæmilega krefjandi að halda til náms í nýju landi. Að vera langt frá heimilinu sínu og þurfa að takast á við nýtt tungumál, nýja menningu og nýtt landslag er bæði spennandi og skelfilegt. Varnaðarorð um hinn „ómögulega“ og „fokdýra“ húsnæðismarkað á Íslandi sem þú færð að heyra áður en þú flytur eykur aðeins taugatitringinn.

Í apríl gaf Íbúðalánasjóður út skýrslu þar sem kemur fram að til þess að anna eftirspurn eftir húsnæði, þurfi að byggja rúmlega 9000 íbúðir á næstu þremur árum. Verð fara síhækkandi, bæði fyrir heimamenn og ferðafólk. Nýir skiptinemar fylgjast með síðum á borð við Rentmate og Félagsstofnun stúdenta, auk þess sem þeir sitja um íbúðir sem auglýstar eru á húsnæðissíðum Facebook. Örfáum mínútum eftir að auglýsing hefur verið birt, er búið að leigja út húsnæðið. Þetta gerist jafnvel áður en þú nærð að athuga hvort að herbergið sé á góðum stað eða á góðu verði. Tölvupóstsamskipti virðast aðeins leiða þig inn í botnlanga. Það sem meira er, Stúdentagarðar hafa afskaplega takmarkaðan fjölda íbúða á sínum snærum og skiptinemum er ráðlagt að hafa ekki einu sinni fyrir því að sækja þar um. Til eru dæmi um pósta á Facebook sem vara við ástandinu. Þeir eru frá fólki sem hafði áður flutt til Íslands og lenti í því að vera húsnæðislaust mánuðum saman. Þetta eru ekki þær upplífgandi fréttir sem þig langar til að heyra áður en þú flytur til annars lands.

Kelda, nemandi frá háskólanum í Sussex, sagði frá áhyggjum sínum varðandi flutningana. „Mér fannst hryllilegt að reyna að finna húsnæði. Satt að segja var ég farin að íhuga aðra möguleika en Ísland. Að flytja til annars lands er nógu erfitt, þó ekki bætist við sá möguleiki að hafa engan samastað.“

Samræður milli nýrra skiptinema á Íslandi snúast óhjákvæmilega um lygilega háa verðlagningu á öllu og engu. Þetta á við um húsnæðiskostnað sem hefur bara versnað við húsnæðiskreppuna. Nemendur á vegum Erasmus fá fjárstyrk fyrir hvern mánuð sem þeir dvelja erlendis. Það er því ótrúlegt að uppgötva að af einhverri óútskýranlegri ástæðu telst Ísland til lágkostnaðarlands og því fá nemendur sem koma hingað lægsta mögulega fjárstyrkinn. Þetta setur Ísland í hóp með löndum á borð við Pólland og Tékkland, í stað þess að vera í flokki með Frakklandi og Ítalíu sem teljast til hárra kostnaðarlanda. Á einum tímapunkti var ekkert húsnæði í boði sem ég hafði efni á og því neyddist ég til þess að horfast í augu við það að kannski væri ég ekki á leiðinni til Íslands.

Þolinmæði borgar sig. Það er til húsnæði þarna úti, það er bara langt og flókið ferli að finna það. Margir nemendur greiða háa leigu fyrir herbergi sem þeir þurfa að deila með öðrum, herbergi utanbæjar og herbergi með einungis dýnu á gólfinu. Það sem er enn furðulegra er að sumir auglýsa herbergi sem hafa engan aðgang að sturtu eða baðkeri. Það er ekki beint raunhæft að þurfa að rölta í næstu sundlaug til þess að komast í sturtu í heilt ár. Þetta eru hins vegar þeir heppnu. Sumir nemendur, eftir að hafa dvalið á Íslandi í nokkrar vikur, búa enn á tjaldsvæði. Það er mjög krefjandi að reyna að venjast nýju umhverfi og námsleiðum þegar þú býrð í tjaldi.

Ísland er óvenjulegt land. Það að húsnæðiskreppan gæti fælt nemendur frá því að koma hingað í skiptinám er enn óvenjulegra. Þá væri svo sannarlega verið að sóa tækifærum, bæði fyrir heimamenn og skiptinema.

SjónarmiðStúdentablaðið