Innlit á Stúdentagarðana

Jóna Ástudóttir er 21 árs stjórnmálafræðnemi sem flutti á Stúdentagarðana í haust, alla leið frá Kirkjubæjarklaustri. Hún unir sér þar vel í fallegri paríbúð ásamt kærastanum sínum.

Fannst þér áskorun að gera Stúdentagarðaíbúð að þinni eigin? Nei, ekki beint. Það er alveg hægt að gera hana huggulega, maður þarf bara að hafa auga fyrir því. Það gerir manni þó vissulega erfiðara fyrir að geta ekki sett upp neinar myndir, málað veggi eða hengt upp hillur.

Hver eru þín uppáhalds húsgögn í íbúðinni? Afi minn á Kirkjubæjarklaustri smíðaði bæði skrifborðið mitt og stofuborðið mitt og því þykir mér afar vænt um þau bæði.

Hver er þinn uppáhaldsstaður í íbúðinni? Ég held ég verði að segja sófinn minn. Hann er bara svo mjúkur og þægilegur og það er fátt betra en að leggjast í hann eftir langa skóladaga.

Hvar sækir þú þér innblástur fyrir heimilið? Ég verð að viðurkenna að ég pæli ekki mikið í innanhússhönnun, ég vel bara það sem mér finnst fallegt hverju sinni. Flest af þessu er dót sem ég hef tekið með mér að heiman eða sankað að mér héðan og þaðan. Með tímanum vona ég að safnist alltaf meira og meira í búið, sérstaklega þegar maður hættir að vera fátækur námsmaður.

Hvernig finnst þér að búa á Stúdentagörðunum? Mér finnst það bara mjög fínt, þetta er stutt frá skólanum og íbúðin er alveg mátulega stór. Ég bjóst reyndar við því að það væri meiri svona heimavistarstemning, jafnvel einhverjir sameiginlegir viðburðir en maður veit varla hver býr við hliðina á sér.


Viðtal: Birna Stefánsdóttir

Myndir: Håkon Broder Lund