10 hlutir frá 10. áratugnum

1. Smellubuxur

Skömmu fyrir aldamót urðu smellubuxur frá Adidas afar vinsælar þótt sú staðreynd sé með öllu óskiljanleg í dag. Hægt var að smella frá báðum hliðum buxnanna en enginn skildi almennilega af hverju og þessi fítus sást sjaldnast nýttur til fullnustu, jafnvel þótt buxurnar drægju nafn sitt af smellunum. Líklegt er að rekja megi buxurnar til vinsælda The Spice Girls en íþróttakryddið Mel C var afar hrifin af flíkinni. Seinna meir fór þó að bera á eftirlíkingum af upprunalegu smellubuxunum og lengi vel seldi Rúmfatalagerinn smellubuxur með tveimur röndum á hliðinni, í stað þriggja. Ef þú hefur af einhverjum ástæðum áhuga á að fjárfesta í smellubuxum, þá eru þær falar hér

2. Garpur

Svaladrykkurinn Garpur var hressileg viðbót í íslenska djúsflóru á sínum tíma en hann var blanda af ávaxtasafa og mysu. Því miður hélt drykkurinn ekki velli og hvarf að endingu af markaði. Þessi auglýsing birtist í Morgunblaðinu í maí 1997. 

3. Tommi tómatur

Tommi tómatur var gríðarstór talandi tómatur í verslun Hagkaupa í Kringlunni. Ef ýtt var á hnapp í grennd við Tomma flutti hann stutta tölu um ágæti grænmetisneyslu. Tommi grætti mörg börn á starfsævi sinni því mörg yngstu barnanna töldu hann skrímsli eða ófreskju. Hvar Tommi er í dag er ekki vitað en við vonum innilega að honum hafi ekki verið fleygt á haugana. 

4. Gúmmíboltar

Þessir gúmmíboltar heita Koosh og hófst framleiðsla á þeim árið 1989. Boltarnir voru gæddir þeim eiginleikum að auðvelt var að grípa þá og kasta og því komu þeir sér vel fyrir krakka sem áttu erfitt með slíkt. Svo var hægt að handleika þá á ýmsa vegu, til dæmis með því að djöggla þeim eða toga í spottana. Það besta við Koosh-boltana var án alls vafa lyktin af þeim, sem var megn gúmmíþefur. Hér má lesa nokkrar athyglisverðar staðreyndir um boltana. 

5. POGs 

Skömmu fyrir aldamót urðu þunnar pappírsskífur, POGs, óheyrilega vinsælar hjá krökkum og unglingum. Leikurinn snerist um að safna POGsunum og spila uppá þau með þar til gerðum sleggjum. Svo var hægt að harka með sleggjurnar, sem var ekki síðra sport. Krakkar á Íslandi nýttu hverjar frímínútur í þessa iðju á tímabili en síðan tóku við aðrar dellur, svo sem Dracco-karlar og Pokémon spil. Ef þú ert í nostalgíukasti yfir POGsum og langar til þess að eignast svoleiðis þá er einhver meistari að selja svoleiðis á bland.is akkúrat núna. 

6. Goggur

Tiltölulega einfalt er að föndra gogg og það eina sem til þarf eru litir og pappírsörk. Notagildi hans var óumdeilanlegt en goggurinn gat svarað ýmsu um framtíð okkar, lífið og tilveruna. Við hvetjum þá sem hafa áhuga á að eignast þetta þarfaþing að kynna sér leiðbeiningarnar í myndbandinu hér fyrir ofan. 

7. Heimsókn í flugstjórnarklefann

Hér áður fyrr var lítið mál að fá að kíkja í stutta heimsókn til flugmannanna. Við sem erum komin vel yfir tvítugt munum eflaust eftir að hafa fengið að líta inn í flugstjórnarklefann og fá hálfgerðan svima við að sjá alla þessa takka. Eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september voru reglugerðir varðandi aðgengi að flugstjórnarklefa í farþegavélum hertar og fyrir vikið eru heimsóknir farþega ekki daglegt brauð lengur. 

8. Tölvugæludýr

Framleiðsla tölvugæludýra hófst í Japan árið 1996 og urðu þau geysivinsæl strax í kjölfarið. Þegar kveikt er á tölvugæludýri í fyrsta skipti birtist egg á skjánum og úr því klekst dýr. Eigandi tölvugæludýrsins þarf að „sjá um“ dýrið með því að gefa því mat, leika við það og hlúa að því. Ef eigandinn sinnti gæludýrinu ekki sem skyldi gat það dáið. Það gerði þó ekkert til því hægt var að endurræsa tækið og þá fæddist nýtt dýr. Tölvugæludýrið var afar vinsælt á Íslandi um tíma og sumir áttu jafnvel fleiri en eitt. 

9. Tívolíið á Hafnarbakkanum 

Tívolíið á Hafnarbakkanum var starfrækt á tíunda áratugnum en það var rekið af breska fyrirtækinu Tivoli UK. Tívolíið var sett upp á sumrin og starfaði í um það bil einn mánuð á ári. Ekki voru allir hrifnir af tívolíinu en íbúar miðbæjarins mótmæltu um árabil vegna hávaða og óláta því tengdu. 

10. Eyewitness-lagið

Í grunnskóla var ekkert betra en að koma inn úr frímínútum og sjá að búið var að koma fyrir sjónvarpi fyrir framan miðja töfluna. Þegar svo bar við var okkur oftar en ekki sýndar fræðslumyndir frá Eyewitness sem voru mjög skemmtilegar og hressilegt upphafslag, sem leikið er á panflautu, er ógleymanlegt. 

Aðrir hlutir sem vert er að nefna:

X18 skór

Bíómyndin Space Jam

Fiðrildahárklemmur

Kærleiksbirnirnir

Buffalo-skór

Tomma og Jenna-svali

Gosbrunnarnir í Kringlunni

Power Rangers

Jógúrtin Smellur