U-beygja í námi
Ekki tekst alltaf að veðja á rétta braut í fyrstu atlögu. Mikið er um að háskólanemar skipti um námsbraut, þá iðulega snemma í náminu. Slík stefnubreyting er hvað algengust hjá fólki hefur háskólagöngu í beinu framhaldi af stúdentsprófi. Dæmi eru þó um „gráðu-gar“ Bjarnfreðarssonar-týpur sem klára margar háskólagráður. Vegna umfjöllunar um kvartævikreppuna þótti okkur áhugavert að heyra frá fólki sem hefur tekið mikla stefnubreytingu í námi. Viðmælendur eiga það allir sameiginlegt að þessu sinni að hafa lokið sínu fyrra námi áður en stefnunni var breytt.
Nafn: Frímann Kjerúlf Björnsson
Aldur: 37 ár
Fyrra nám: Myndlist
Seinna nám: Eðlisfræði
Frímann hóf námsferil sinn fyrir hálfgerða slysni í myndlist við 25 ára aldur. Hann var þá ungur tónlistarmaður sem hafði nýverið misst allar sínar upptökur þegar harður diskur í hans eigu skall í gólfið. Áhugasviðspróf beindi honum í listfræði, en vegna ártalablindu tók hann stefnuna frekar í myndlistardeild LHÍ, þrátt fyrir að vita varla nokkurn skapaðan hlut um myndlist.
Stigmagnandi notkun hans á flókinni tækni í list sinni olli því að lokum að hann byrjaði að læra eðlisfræði í HÍ, og það áður en hann kláraði Listaháskólann. Fyrir lokaverkefni sitt þurfti hann t.a.m. að reikna út geislagang ljóss í gegnum glerbúr. „Það var einhver áhugi á því hvaða náttúrufyrirbrigði valda því að eitthvað teljist fagurt og svo tæknileg vanhæfni mín í að kljást við lokaverkefni mitt sem gerðu það að verkum að mig langaði að afla mér einhverrar svona tækniþekkingar og líka að fá innblástur fyrir listina úr heimi eðlisfræðinnar.“ Því var ekki um skarpa U-beygju að ræða, heldur náttúrulega þróun í námi. Þriðja stefnubreytingin kom svo til nýverið þar sem hann hóf nám í reikniverkfræði við HÍ.
Frímann fór einnig á sama tíma í skiptinám til Frakklands í ljósverkfræði en það rúmaðist innan veggja eðlisfræðinámsins. Í Frakklandi var honum bent á að hafa ekki hátt um að hann hafi verið í myndlist áður. Þar þykir ekki flott að blanda saman námi á þennan hátt. Hönum þykir fögin tvö bæði gefandi en á mjög á mismunandi hátt. „Það var ekki gaman að fara í gegnum eðlisfræðina, aðallega bara erfitt, en lokaútkoman er mjög gefandi. Myndlistin er skemmtileg á meðan þú ert að gera hana en endaútkoman er ekki jafn mikilvæg, mér er í raun alveg frekar sama um hana.“
Frímann hugsaði aldrei til þess á yngri árum hvað hann sæi fyrir sér að gera í framtíðinni. „Á einhverjum tímapunkti tók ég ákvörðun um að læra bara það sem ég hefði áhuga á. Það myndi á endanum skila mér einhverju áhugaverðu [starfi eða verkefnum].“ Hann hefur náð að samtvinna ólíka menntun sína í ýmsum verkefnum. Sem dæmi má nefna kúrs sem hann kennir nú í Myndlistarskóla Reykjavíkur sem leggur áherslu á hvernig megi nota vísindalegan innblástur við listsköpun. Einnig tekur hann að sér 360° ljósmyndun og er þar að auki í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöðina um að búa til hljóðfæri úr ljósleiðara.
Nafn: Fjölnir Ólafsson
Aldur: 25 ára
Fyrra nám: Klassískur söngur
Seinna nám: Lögfræði
Fjölnir útskrifaðist með B.A. gráðu í söng við Hochschule Für Music Saar í Saarbrücken í Þýskalandi sumarið 2014. Hann á ekki langt að sækja tónlistaráhugann enda hafa faðir hans, afi og langafi allir starfað innan tónlistargeirans. Fjölnir skynjaði þó aldrei pressu á að feta í fótspor þeirra, varð aðeins fyrir óbeinum áhrifum þess að fæðast inn í tónlistarfjölskyldu. Hann æfði klassískan gítarleik í fjölmörg ár, eða allt þar til í framhaldsskóla, þegar þátttaka hans í Hamrahlíðarkórnum varð til þess að hann skipti yfir í söng.
Meðfram náminu tók Fjölnir þátt í fjölmörgum sýningum og öðrum söngverkefnum, mestmegnis í óperuhúsinu í Saarbrücken. Á meðan söngnáminu stóð ágerðist smátt og smátt sú einkennilega hugsun um að kannski vildi hann ekki vinna við þetta eitt og sér til frambúðar, allavega ekki sem aðaltekjulind. Það grefur að vissu leyti undan sköpunargleðinni að þurfa að reiða sig svo mikið á sönginn. Meðfram þessu sótti lögfræði æ meira að honum. Á þeim tíma var hann tíður gestur hjá frænku sinni í Strasbourg rétt handan landamæra Frakklands og Þýskalands. Hún vann þar sem lögfræðingur og Fjölnir fékk hjá henni tækifæri til að glugga í réttarheimspekibækur, sem hjálpaði töluvert til við ákvörðunartöku um áframhaldandi nám.
Örfáum mánuðum eftir að hann útskrifaðist úr söngnáminu hóf hann nám í lögfræði við HÍ. Lögfræðin heillaði Fjölni ekki vegna starfsöryggis eða tekna, heldur vegna einskærs áhuga á lögum og öllu sem þeim fylgja. „Þetta var engin skyndiákvörðun, ég hafði velt þessu fyrir mér í ár eða meira á meðan ég var úti. Ég hef alltaf haft áhuga á lögum og pólitík og fleiru, svo þetta lá beint við.“
Í æsku ætlaði Fjölnir á tímabili að verða bóndi þó svo að tónlistin hafi alltaf staðið honum nærri. Spurður hvort það sé erfiðara að afla sér tekna sem tónlistarmaður í dag en áður fyrr segir hann að það sé aðallega öðruvísi og að hann telji það í raun alltaf hafa verið frekar erfitt að afla sér tekna sem tónlistarmaður.
Fjölnir er nú aðeins á öðru ári í lögfræði en strax er farið að bera á samspili námsgreinanna tveggja. Gott dæmi um það er að hann hefur tekið þátt í samningagerð fyrir Schola Cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju, í viðræðum þeirra við útgefendur og skipuleggjendur tónlistarhátíða. Tónlistarnámið varð jafnframt til þess að Fjölnir tileinkaði sér öguð vinnubrögð, alveg frá unga aldri. „Maður lærir gríðarlegan aga í tónlistarnámi, þú komst ekkert heim til þín eftir skóla og gerðir bara hvað sem er, það var þessi þörf á að æfa sig heima. Það hefur hjálpað mér í lögfræðinni, þar sem þetta er nú mikill lestur og svona.“ Einnig telur hann að ekki sé jafn mikið um það í dag að nám skili einstaklingi starfi sem er beint framhald af náminu. „Maður nýtir sér þá reynslu og þekkingu sem maður sankar að sér í allt sem maður gerir.“
Viðtal: Hjalti Freyr Ragnarsson
Myndir: Håkon Broder Lund