Lygtal við Kæluna Miklu
Frá upphafi fjölmiðlaútgáfu hafa ótal viðtöl verið tekin og er það skoðun blaðamanns að löngu sé orðið tímabært að hrista aðeins upp í hlutunum og brjóta upp hið hefðbundna viðtalsform. Í tilefni af þema blaðsins ákvað blaðamaður að taka annan pól í hæðina og taka lygtal við stúlknapönksveit af höfuðborgarsvæðinu, Kæluna Miklu. Lygtöl fela ekki í sér sömu markmið og hefðbundin viðtöl, þar sem spurt er spurninga og iðulega er svarað þægilegum sannleik, sannleik sem lætur viðmælanda yfirleitt koma vel fyrir. Þar sem sjaldgæft er að finna svo innilega hreinskilni í viðtölum að þau gagntaki áhuga manns förum við í þveröfuga átt og leyfum viðmælanda að svara hverju sem hann vill, svo lengi sem það er ekki sannleikurinn.
Sælar konur. Hvað heitið þið? F.v. á mynd: Grimmhildur Gára, Garún, og Sigga, kölluð Sibba Bubba.
Hvaðan eruð þið? Sigga og Grimmhildur eru úr sveitinni og í raun erum við allar voðalega miklar sveitastelpur. Nema Garún, hún er frá útlöndum.
Þið þrjár myndið sveitina Kæluna Miklu. Hvert er hlutverk hverrar ykkar innan hennar? Sigga spilar á ýmis áblásturshljóðfæri, Garún á söngskál og Grimmhildur Gára spilar á cymbala.
Hvað gerið þið fyrir utan hljómsveitina? Sigga vinnur í Bitabílnum og dútlar töluvert við mótorsport, „4x4, sko.“ Grimmhildur er sushikokkur á Sakubarnum en hefur sér ekki áhugamál utan þess. Garún vinnur sem kaffibarónn en styttir sér stundir með Jane Fonda eróbik-líkamsrækt.
Hver er uppáhaldsliturinn ykkar? Röndóttur. Svona bleikur að innan og grænn að utan.
Eigið þið gæludýr? Grimmhildur Gára á gúbbífisk með visinn ugga og Garún á gælulax sem heitir Relax.
Hvaðan kemur nafn sveitarinnar? Þetta er karakter í Hringadróttinssögu, galdrakarlinn með skeggið. Hann heitir þetta á útlensku, ekki íslensku. Þetta er gaurinn sem kemur með hringinn. Sá sem ekki má nefna.
Hvað er á döfinni árið 2016 hjá Kælunni Miklu? Við erum allavega ekki að fara að gefa út neina plötu og þá sérstaklega ekki hjá neinu útgáfufyrirtæki. Við höfum verið í því að taka upp ekki nein lög undanfarið og munum halda því áfram. Við munum spila á engum tónleikum og svo ætlum við að hætta. Við ætlum að taka fyrstu skrefin að breyta Kælunni Miklu úr hljómsveit í fatalínu. Síst af öllu viljum við koma okkur á framfæri.
Textar sveitarinnar eru mjög ljóðrænir og oft kaldranalegir, mynduð þið flokka ykkur sem gotaguggur? Nei, en það er í tísku núna. Við erum meiri svona heilsugotar. Við ráðum í raun ekkert hvað við spilum, við fylgdum bara tískunni eins og hún var þegar við vorum að byrja. Við ætluðum aldrei að vera í svona „screamo“ hljómsveit en þetta er bara það sem tískan stýrði okkur í átt að.
Þú ert einnig með nýstofnuðu útgáfuna Hið Myrka Man, Grimmhildur. Á síðasta ári komu út fyrstu útgáfur hennar, hvað er næst á dagskrá? Næst á dagskrá eru styrktartónleikar þar sem fjármunum verður safnað til að geta útrýmt KONY 2012.
Hvernig kom til að þið byrjuðuð að gera tónlist saman? Æ, bara, okkur vantaði allar pening. Sigga gúgglaði „how to make money“ og fékk svarið „start successful band.“ Hún setti svo inn smáauglýsingu í Fréttablaðið og óskaði eftir einhverjum til vera með sér í hljómsveit til að „græða fúlgur fjár“. Hún var þá búin að mynda töluvert af samböndum í bransanum með því að trúbba reglulega á Danska Barnum. Við hinar tvær vorum ekki lengi að bíta á agnið þegar við sáum hvers kyns peningar voru í boði.
Þó að lítið hafi verið hægt að fræðast um Kæluna Miklu í þessu lygtali þá er ekki seinna vænna en að gefa þeim gaum en hægt er að kynna sér hljómsveitina á http://kaelanmikla.bandcamp.com/ & http://soundcloud.com/kaelan-mikla/
Hljóðgervladrifið gotapönk þeirra er fremst meðall jafningja í kraftmikilli endurvakningu á slíkri músík hér á landi nýverið, sem helst í hendur við svipaða þróun erlendis síðustu ár. Þær hafa vakið töluverða athygli bæði hér heima sem og í Evrópu, en þær hafa tvisvar lagt upp í lítilsháttar tónleikaferðalög um meginlandið.
Texti: Hjalti Freyr Ragnarsson
Myndir: Håkon Broder Lund