Furðutungan færeyska

Íslensk og færeysk tunga eru að mörgu líkar. Svo líkar að í raun mætti auðveldega halda að samtal þeirra tveggja væri á milli málhaltrar manneskju annarsvegar og sauðdrukkinnar hinsvegar. Þetta gerir það að verkum að íslenska hljómar oft spaugilega í eyrum Færeyinga og öfugt.

Mælt var með því við blaðamann nýverið að skoða færeyska Wikipedia. Ekki leið á löngu þar til heilu kvöldstundirnar fóru í að smella sér leið í gegnum þessa tiltölulega smávöxnu útgáfu Wikipedia alfræðiritsins, slíka afþreyingu er hægt að finna í samanburði tungumálanna tveggja.
Til að réttlæta þetta afsprengi frestunaráráttu tók blaðamaður saman nokkur af þeim skemmtilegustu orðum og orðasamböndum sem hann rakst á í vefferðalagi sínu. Þá var einnig leitað á náðir færeyskra fjölmiðla, auk nokkurra kumpána sem tala bæði málin, við gerð samantektarinnar.

Neðst má finna beinar þýðingar á orðunum ef einhver vafi liggur á. Þar að auki eru færeysku útgáfur orðanna feitletraðar og íslensku útgáfurnar skáletraðar.

Margir hafa heyrt um gildan lim í ríðingarfélaginu (meðlim í reiðfélaginu), að sæði sé afgangur („borðaðu nú afganginn, Nonni minn“) og að taka stórt skref væri þýtt sem að taka stóra píku. Þýðingarnar sem mest hafa verið umtalaðar virðast oft vera kynferðislegar, og vegna þess mun blaðamaður hér gera tilraun til að halda sig fjarri þeim.
 
Y-ið í Reyði Krossurinn sýnir málfræðilegu tenginguna við rauðan lit, en ímyndin um að fólkið með ógnarstóru hjörtun sem vinnur fyrir þessi risavöxnu hjálparsamtök, séu í raun bara titrandi af teiknimyndalegri reiði með reykjarstróka úr eyrunum er samt sem áður skemmtileg. 
 
Yfirgangsfólk með bumbur ættu Íslendingar auðveldlega að geta tengt við feitt fullorðið yfirstéttarfólk sem lætur rigna í nef sér. Það má til dæmis finna í röðinni á Te & Kaffi með yfirlæti og dónaskap við starfsfólkið. Í Færeyjum veldur þetta fólk þó enn meiri skelfingu, þar sem þetta á við hryðjuverkamenn með sprengjur
 
Ekki þætti Íslendingi það spennandi að láta afmynda sig, en fyrir Færeyinga á okkar dögum er það orðið nær daglegt brauð, hvort sem smellt er af með Snapchat, Instagram eða öðru.
 
Sá Íslendingur sem tæki upp á því að spæla fótbolta þætti eflaust snargeðveikur, eða í það minnsta svo exótískur matgæðingur að það telst hálfpervertískt, en það þykir fullkomlega eðlileg dægradvöl í Færeyjum að spila þessa vinsælu íþrótt.
 
Pældu í því ef þú myndir ganga inn á kamar sem væri samt líka rúm, og þar inni myndirðu leggjast á sæng og breiða yfir þig dýnu! Hvað ef ég segði þér að þú gerðir þetta daglega?
Ég þykist vita þetta því flestöll kvöld gengur hinn meðal Jói Spói Spýturass inn í herbergi, leggst á dýnu og breiðir yfir sig sæng.

Hér má sá þau óþægindi sem fylgja að sofa undir dýnunni inná kamri. Mynd: Hjalti Freyr Ragnarsson

Hér má sá þau óþægindi sem fylgja að sofa undir dýnunni inná kamri. Mynd: Hjalti Freyr Ragnarsson

Fylgisveinar flytja ljóð beint heim í stofur landsmanna. Ljóðaldur tengist ekkert því að ljóð verði betri með aldrinum eins og vín, heldur sveiflum í efni sem við þekkjum sem hljóðbylgjur. Fylgisveinarnir okkar, gervitunglin, flytja þess vegna því miður bara hljóð í þessu samhengi.

Skuldsettur fyri svik móti landskassanum”. Það frábæra við færeysku er að hún hljómar oft eins og barnahjal. Landskassi hljómar svo mikið eins og sandkassi að maður fyrirgefur skattsvikaranum strax. Að vera skuldsettur hljómar fremur eins og maður skuldi stærsta krakkanum í sandkassanum aur heldur en að maður sé handtekinn. Maður á miðjum aldri var skuldsettur “fyri at seta lívið hjá øðrum fólkum í vanda”. Hljómar ofsalega saklaust og krúttlegt þar til ljóst er að um íkveikju var að ræða og hann var að stefna fólki í lífshættu.

Bestu pingvinir að leik.

Bestu pingvinir að leik.

Orðabókin

Hér má finna beinar þýðingar nokkurra skemmtilegra orða

Færeyska - Íslenska
afgangur – sæði
skref – píka
limur – meðlimur
ríðingarfélag – hestamannafélag
Reyði Krossurinn – Rauði Krossinn
ástand - málningartröppur
bert – einungis/aðeins (eins og í bert starfsfólk -> aðeins starfsfólk)
yfirgangsfólk – hryðjuverkamenn
bumba – sprengja
afmynda – taka mynd
spæla – spila
herbergi - rúm annars vegar og kamar hins vegar
dýna - sæng
sæng - dýna
fylgisveinn – gervitungl
ljóð – hljóð
ljóðaldur – hljóðbylgjur
skuldsettur – handtekinn
landskassi – „ríkiskassi“
lífsvandi - lífshætta
raketta – eldflaug
pingvinir - mörgæsir
skeiðbundna skipanin - lotukerfi
sjúkrabilur - sjúkrabíll
(hljóm)plötur - flögur
bylting - kollvelting
rúsdrekkakoyring - akstur undir áhrifum
‘vinir lova ikki vinum at koyra skít’ - vinir leyfa ekki vinum að keyra fullir

Höfundur: Hjalti Freyr Ragnarsson

 

MenningGuest User