Hvað er með álfum? Álfatrú Íslendinga er engin tilviljun

Þegar gengið er um stræti borgarinnar er ekki margt sem leiðir hugann að álfum og huldufólki. Eða dettur einhverjum í hug að álfar búi á hringtorginu við Háskólabíó eða í stuðlaberginu á Hverfisgötu? Kannast einhver við að vera með álfastein í garðinum? 

Á malbikuðum bílaplönum innan um háreistar steinsteypublokkir í reykjarmekki og umferðargný er erfitt að ímynda sér nærveru ósýnilegra, eyrnalangra og miðnesislausra náunga sem búa í steinum.

Hvaðan ættu þeir að koma? Hvernig geta þeir verið ósýnilegir? Hvernig er hægt að búa í steinum? Er netsamband þar? Eiga álfar snjallsíma? Og fyrir nú utan hina augljósu spurningu um hvernig nokkrum manni getur hafa dottið slíkt í hug til að byrja með?

Álfar eru ekki séríslenskt fyrirbæri

Staðreyndin er víst sú að þjóðtrú á borð við sögur um álfa hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Hún á sér ýmsar birtingarmyndir sem eru eins margar og fjölbreyttar og öll þau samfélög manna sem hafa byggt jörðina.

Til dæmis eru til þjóðsögur frá Havaíeyjum um Menehune-fólkið, smávaxinn þjóðflokk (15–60 sm á hæð) sem átti að hafa búið á eyjunum áður en fyrstu mennirnir numu þar land. Þetta fólk skemmti sér við að steypa sér fram af klettum, byggði hof, tjarnir o.fl. og notaði galdraörvar til að skjóta kærleika í hjörtu reiðs fólks. Í Grikklandi og Rómaveldi til forna urðu til sögur um dísir (nymfur) sem höfðust við í náttúrunni og voru oftast tengdar við sérstaka staði.

Í Vestur-Afríku finnast sögur um Aziza, yfirnáttúrulegan þjóðflokk sem býr í frumskógum og hjálpar veiðimönnum með göldrum. Þeim er lýst sem litlu og loðnu fólki sem býr í mauraþúfum og trjám. Tengu eru japanskar þjóðsagnaverur sem búa í fjöllum og skógum og hafa eiginleika fugla og manna. Hægt er að týna mýmörg dæmi til viðbótar.

En í Norður-Evrópu voru það ósýnilegar verur í mannsmynd sem mennirnir deildu landinu með (ásamt öðrum yfirnáttúrulegum verum). Þessar verur voru lífseigar fram á 20. öld en fóru þá að týna tölunni víðast í álfunni og nú á dögum eru Ísland og Írland síðustu vígi þeirra. Á Írlandi búa svokallaðir fairies sem eiga rætur að rekja til samtvinnaðra goðsagna frá miðöldum og sagna af landnámi Írlands.  Þeir eru ýmist taldir jafnháir mönnum eða á stærð við ungabörn, oft eru þeir sagðir rauðir eða í rauðum fötum, sumir þeirra eru glaðlegir fjörkálfar en aðrir píndar sálir. Og hér á Íslandi höfum við álfa.

Vegir sveigðir vegna álfabyggðar

Maður skyldi þó ætla að ekki færi mikið fyrir samfélagi sem er ósýnilegt og lifir í stokkum og steinum – en raunin er sú að þrátt fyrir óhaldbærar sannanir á tilvist þeirra hafa þeir einatt blandað sér í umsvif mannanna. Um slíkt finnast fjölmörg dæmi.

Í kringum aldamótin 1900 stóð til að reisa kirkju uppi á Álfaborginni í Borgarfirði eystra. Álfaborgin er stór klettur í miðjum firðinum sem talinn er hvort tveggja höfuðból álfa á Austurlandi og höll álfadrottningar Íslands. Einn sóknarnefndarmanninn dreymdi mikilfenglega konu sem bað hann að hindra smíð kirkjunnar því að hún ætti þar heima. Svo fór að kirkjan var reist á mel neðan við Álfaborgina.

Árið 1999 var álfasteinninn Grásteinn við Grafarholt færður þegar þar var lagður vegur. Þáverandi vegamálastjóri sagði steininn færðan til af tveimur ástæðum; „annars vegar þar sem um skemmtilegt og nokkuð áberandi kennileiti sé að ræða, en hins vegar vegna sögusagna um álfabyggð í steininum.“

Þá var 70 tonna álfakirkja færð úr vegstæði Álftanesvegar í Gálgahrauni, ekki lengra síðan en árið 2015.

Skynjun á verum í umhverfinu á sér rökræna skýringu

Hvernig fer þjóðfélagshópur, sem á enga fulltrúa á Alþingi, enga fjármuni, er ósýnilegur og hugsanlega bara alls ekki til, að því að valda slíkum usla meðal manna? Hvaðan koma þessir álfar og af hverju eru þeir alltaf að skipta sér af?

Upptakanna gæti verið að leita á svipuðum slóðum og róta annarrar þjóðtrúar og trúarbragða. Í hugrænni trúarbragðafræði (e. cognitive science of religion), tiltölulega nýrri fræðigrein, er að finna áhugaverðar kenningar um náttúrulega trúarþörf mannsins.

Í grein sem nefnist „Eru trúarbrögð náttúruleg?“ fjallar trúarbragðafræðingurinn Guðmundur Ingi Markússon um þessa tegund trúarbragðafræði og þar er m.a. rætt um uppruna trúarhugsunar og útbreiðslu trúarhugmynda.

Guðmundur fjallar um kenningar eins frumkvöðla hugrænnar trúarbragðafræði, Stewart Guthrie, um skýringar á því hvers vegna hugmyndir um yfirnáttúrulegar verur (hvort sem það er guð eða álfar) eru svo útbreiddar í heiminum. Guthrie telur að rætur þessara hugmynda sé ekki aðeins að finna í mannlegri hugarstarfsemi heldur hjá flestum dýrategundum. Hann álítur rótina vera svokallaða „sálgervingu“ (e. animism), þ.e. sjálfvirka taugastarfsemi sem hafi tilhneigingu til að gera ráð fyrir lifandi verum í umhverfinu. Samkvæmt Guthrie felst notagildi sálgervingar í því annars vegar að dýr geri frekar ráð fyrir að rándýr sé á ferð og forði sér, og hins vegar í því að auðvelda rándýrum að finna æti.

Að mati Guthrie þróuðu tegundir með sér sálgervingu vegna óáreiðanleika skynjunar þeirra – því að allri skynjun á umhverfinu og túlkun þeirra upplýsinga fylgi hætta á mistúlkun. Eins og flestir ættu að kannast við er nefnilega ekki alltaf allt sem sýnist í náttúrunni. Þannig hafi sálgerving orðið til sem mikilvægt tæki til að forða dýrategundum frá hugsanlegri hættu. Eins og Guðmundur bendir á í greininni birtist sálgerving meðal manna yfirleitt sem svokölluð „manngerving“ (e. anthropomorphism) og hafa þá þær verur sem menn telja sig skynja mannlega eiginleika. Samkvæmt Guthrie er manngerving þannig stór þáttur í hugmyndum mannkyns um yfirnáttúrulegar verur eins og álfa og guði í mannsmynd.

Álfatrú Íslendinga ekki á undanhaldi

En ef þetta er uppruni hugmynda mannfólks um álfa skýrir það ekki að öllu leyti hvers vegna hugmyndirnar eru svo lífseigar hér á landi. Eins og áður kom fram dró verulega úr slíkri þjóðtrú annars staðar í Norður-Evrópu á 20. öld með aukinni þéttbýlisvæðingu og undanhaldi gamalla lifnaðarhátta sveitasamfélagsins. Ísland var að vissu leyti eftir á í þessari þróun, en frá því að borgarmyndun hófst hér með hernámi Breta í kringum 1940 má segja að íslenskt samfélag hafi tekið hverri stökkbreytingunni á fætur annarri. Svo að nú á dögum getum við ekki borið fyrir okkur ungdóm samfélagsins sem ástæðu þeirrar útbreiðslu álfatrúar sem kannanir sýna.

Árið 1974 framkvæmdi Erlendur Haraldsson sálfræðingur könnun á þjóðtrú Íslendinga. Þessi könnun vakti mikla athygli innanlands sem utan. Einna mesta athygli vakti að þrátt fyrir að lítið hlutfall segðist trúa á tilvist álfa voru fáir tilbúnir að fullyrða að þeir væru ekki til. Sömu sögu var að segja af annars konar þjóðtrú, eins og fylgjum, berdreymi og framhaldslífi.

Á árunum 2006–2007 var síðan gerð önnur rannsókn á vegum þjóðfræðiskorar Háskóla Íslands. Um það bil 1000 svör bárust við síðari könnuninni. Um 40% þátttakenda voru karlar og um 60% konur. Skiptingin var nokkuð jöfn milli þéttbýlis og landsbyggðar og aldursdreifing var frekar jöfn.

Í ljós kom að viðhorf landsmanna til álfa (og annarrar þjóðtrúar) hafði lítið sem ekkert breyst. Þrátt fyrir að aðeins 5% teldu sig hafa séð álf gátu aðeins 14% þátttakenda staðhæft að álfar væru óhugsandi.

Eru rætur þjóðtrúar á Íslandi einfaldlega svona djúpar? Niðurstöður rannsóknarinnar styðja þá kenningu því að samanborið við hefðbundna íslenska þjóðtrú (eins og álfa) er lítil stemmning meðal Íslendinga fyrir nýaldarhugmyndum og dönskum áhrifum eins og fljúgandi furðuhlutum og blómálfum.

Ósýnilegir málsvarar náttúrunnar

Þó er vert að skoða betur á hvaða hátt álfar blanda sér inn í líf mannanna. Þeir eru hættir að nema börn á brott og koma fyrir umskiptingum í stað þeirra. Þeir eru líka hættir að leita eiginmanna og eiginkvenna í mannheimum (dæmi um slíkt frá því um 1900 má þó finna í Íslenzkum þjóðháttum þar sem sagt er frá mennskri stúlku sem „trúlofaðist huldumanni úti í Fljótum“). Það eina sem þeir virðast skipta sér af nú á dögum er þegar mennirnir hyggjast hrófla við heimkynnum þeirra, náttúrunni. Þeir fara aldrei fram á eyðileggingu heldur vilja ávallt að komið sé í veg fyrir hana.

Álfar virðast hafa tekið að sér hlutverk eins konar talsmanna náttúrunnar – eða kannski öllu heldur persónugervinga náttúrunnar. Öll hjátrú tengd álfum felur í sér að bera virðingu fyrir náttúrunni; til að spilla ekki friðnum milli álfa og manna. Til að mynda segir hjátrú tengd höll álfadrottningarinnar í Borgarfirði til um að taka skuli tillit til íbúa hennar og ekki hafa læti eða hrófla við umhverfi hennar.

Terry Gunnel, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands, hefur bent á að Íslendingar hafi ef til vill ögn frábrugðnara viðhorf til náttúrunnar en gengur og gerist. Eins og haft var eftir honum í viðtali við The Guardian (í þýðingu greinarhöfundar):

Þetta er land þar sem húsið þitt getur verið eyðilagt af einhverju sem þú sérð ekki (jarðskjálftum), þar sem vindurinn getur feykt þér um koll, þar sem lyktin af brennisteini úr krananum segir þér að það sé ósýnilegur eldur skammt fyrir neðan fætur þína, þar sem norðurljósin gera himinninn að stærsta sjónvarpsskjá heimsins, og þar sem hverir og jöklar „tala“. […] Í stuttu máli eru allir meðvitaðir um að landið er lifandi, og hægt er að segja að sögur af huldufólki og þörfin til að vinna gætilega með þeim endurspegli skilning á því að landið krefjist virðingar.

Afkoma Íslendinga hefur gersamlega verið undir náttúrunni komin frá því að fyrstu mennirnir settust hér að. Það er því kannski ekki skrítið að Íslendingar hafi ósjálfráða þörf fyrir að halda góðu sambandi við náttúruna. Sögur af álfum og huldufólki bera þannig vott um óttablandna virðingu fyrir náttúrunni – og ef til vill tilraun til að færa hana nær mönnunum.

Samkvæmt þjóðsögunum eru álfar eins og menn. Þeir hafa (næstum) sama útlit, stunda sömu vinnu og hafa svipaða menningu. Það sem skilur þá frá mönnum eru nánari tengsl við náttúruna og yfirburðir í gáfnafari og atgervi. Álfar eru þannig eins og einhvers konar fyrirmyndarsamfélag. Meðan mennirnir börðust fyrir lífi sínu gegn óvægum náttúruöflum – uppskerubresti, óveðrum, eldgosum – lifði þessi hulduþjóðflokkur í fullkomnu sambandi við náttúruna. Og hann sá til þess að halda mönnunum á mottunni og minna þá á að ganga vel um náttúruna með því að hefna fyrir ef hreyft var við álagablettum eða álfakirkjum.

Áframhald álfa

Tengsl álfa og náttúru eru órjúfanleg. Maður sér ekki fyrir sér álfa í borgum. Það er því erfitt að ímynda sér að borgarbörn sem hafa aldrei þurft að glíma við náttúruöflin (nema kannski nístandi norðanátt á leið út í bíl) gefi hugmyndum um álfa almennt mikinn gaum. Maður veltir því fyrir sér hvernig niðurstöður úr rannsóknum á þjóðtrú verði í framtíðinni. Munu álfarnir halda velli, munu þeir breytast á einhvern hátt eða munu þeir hreinlega hverfa?

Vísbendingar um framtíð álfa er hugsanlega að finna á sama stað og rætur þeirra; í hugrænni trúarbragðafræði. Í fyrrnefndri grein Guðmundar Inga fjallar hann um þá kenningu sálfræðingsins Justin L. Barrett, eins frumkvöðla hugrænnar trúarbragðafræði, að algert trúleysi geti aðeins skotið rótum í þeim aðstæðum sem einkenna vestrænt borgarsamfélag. Í slíku samfélagi er umhverfið ekki síbreytilegt vegna óviðráðanlegra umhverfisþátta. Flestar sviptingar eiga sér augljósar skýringar og fólk hefur yfirleitt gott aðgengi að veraldlegum skýringum.

Höfuðborg og bæir landsins skera sig einmitt úr hinu almenna vestræna borgarlandslagi. Þéttbýlið er umkringt náttúru; ekki þarf að fara langt til að komast að sjávarborðinu þar sem öldurnar minna reglulega á sig með því að róta upp göngustígum, sums staðar eru hús beinlínis reist í miðju hrauni og hinum sífjölgandi glerhjúpuðu turnum tekst aldrei fullkomlega að skyggja á fjallahringinn.

Kannski er bara besta mál að við sitjum ennþá uppi með hina ósýnilegu en fyrirferðarmiklu nágranna okkar sem virðast stundum gæta umhverfisins betur en við.

Heimildir:

http ://www.to-hawaii.com/legends/menehune.php

http://www.worldlibrary.org/articles/Aziza_(African_mythology) 

http://www.worldlibrary.org/articles/Tengu

Valdimar Tr. Hafstein. „Eru álfar til?“ Vísindavefurinn, 5. nóvember 2001. Sótt 1. febrúar 2016. http://visindavefur.is/svar.php?id=1937

Elísabet Pétursdóttir. 2012. Írskir fairies – uppruni, eðli og möguleg tengsl við íslenska huldufólkshefð. BA-ritgerð. Bls. 12

Eyrún Hrefna Helgadóttir. 2012. „Það er eitthvað í Álfaborginni!“ Nýting þjóðtrúar í ferðaþjónustu á Borgarfirði eystra. BA-ritgerð. Bls. 32

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/443210/

http://www.ruv.is/frett/faerdur-ad-beidni-alfa-og-dverga

Guðmundur Ingi Markússon. 2006. Eru trúarbrögð náttúruleg? Um hugræna trúarbragðafræði. Glíman 3. S. 165–193. Bls. 170–172

Modern Legends in Iceland – Terry Gunnell

Jónas Jónasson frá Hrafnagili. 2010. Íslenzkir þjóðhættir. Bls. 407

http://www.theguardian.com/world/2013/dec/22/elf-lobby-iceland-road-project


Texti og teikningar: Elísabet Rún Þorsteinsdóttir

 

MenningStúdentablaðið