Píratar: „Kominn tími til þess að endurskoða LÍN"

Teikning: Halldór Sánchez

Teikning: Halldór Sánchez

Þann 29. október ganga landsmenn til kosninga en að því tilefni lagði Stúdentablaðið nokkrar spurningar fyrir flokkana sem bjóða fram til Alþingis. Hér eru svör Pírata um stefnu flokksins er varðar háskólana og málefni stúdenta.

Hver er stefna flokksins í málefnum háskólanna í stuttu máli?

Píratar vilja tryggja fjármagn fyrir velferðarkerfið okkar með því að tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum okkar. Háskólinn hefur verið fjársveltur alltof lengi og mikið af vandamálum hans væri hægt að leysa einfaldlega með meira fjármagni. Opinberar stofnanir eiga að geta verið gjaldfrjálsar og teljum við ekki gagnsæi fólgið í því að rukka skjólagjöld í formi skráningargjalds. Einstaklingurinn er í forgrunni hjá Pírötum og ef einstaklingar eiga að nýta hæfileika sína sem best þurfa allir að fá aðgang að gjaldfrjálsu háskólanámi. 

Hver er afstaða flokksins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna?

Það er vissulega kominn tími til þess að endurskoða LÍN, en það þarf að gera það með hagsmuni stúdenta að leiðarljósi. Það þarf að taka upp fyrirframgreiðslu námslána þannig að stúdentar hafi betri yfirsýn yfir útgjöld sín á hverjum mánuði og þurfi ekki að leita ásjónir bankans til þess að brúa bilið. Það þarf líka að sjá til þess að sú framfærsla sem LÍN býður upp á sé raunhæf, en skv. greiningum SHÍ þá eru einungis 18% stúdenta sem telja framfærslulán LÍN duga fyrir framfærslu.

Það ætti líka að taka upp á því að styrkja foreldra í námi - reyna að sjá til þess að fólk komi úr námi með svipaða lánabyrði að baki eftir því að hafa tekið framfærslulán. Það er margt innan LÍN sem þarf að breyta, m.a. auka sveigjanleika, hækka frítekjumark og auka þjónustulund. Það á að vera gaman að tala við LÍN því það er svo gaman að læra!

Er flokkurinn reiðubúinn til að gera allt hvað hann getur til að sjá háskólunum fyrir viðunandi fjármagni?

Já - það er nauðsynlegt ef við ætlum að halda fjölbreyttu háskólasamfélagi á Íslandi. Eitt af því sem Háskóli Íslands hefur m.a bent á er að sjóðir sem eru til þess að styrkja nemendur í doktorsnámi við HÍ eru fjármagnstekjuskattskyldir, en með því að afnema það væri sem dæmi einföld leið til þess að auka fjármagn til háskólasamfélagsins.

Á skalanum 1 til 10, hversu mikilvægt telur flokkurinn að forgangsraða þurfi í þágu stúdenta og háskólanna? (1; alls ekki mikilvægt. 10; mjög mikilvægt)

Auðvitað 10 - en það þarf að gerast samhliða öðru.

 

 

 

Teikning: Halldór Sánchez

Teikning: Halldór Sánchez