Framsóknarflokkurinn: „Lokið verði við endurskoðun laga um LÍN"

Þann 29. október ganga landsmenn til kosninga en að því tilefni lagði Stúdentablaðið nokkrar spurningar fyrir flokkana sem bjóða fram til Alþingis. Hér eru svör Framsóknarflokksins um stefnu flokksins er varðar háskólana og málefni stúdenta.

Hver er stefna flokksins í málefnum háskólanna í stuttu máli?

Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt fyrir samfélagið í heild sinni að ný þekking og hugmyndastraumar í greinum háskólastigsins berist jafnt og þétt til landsins. Í þeim tilgangi er mikilvægt að íslenska háskólasamfélagið hvetji nemendur til framhaldsnáms á háskólastigi erlendis. Einnig þarf að leggja áherslu á að fá hingað til lands erlenda fræðimenn til kennslu og rannsóknarstarfa.

Styðja þarf við uppbyggingu þekkingar- og rannsóknarsetra á landsbyggðinni sem eykur möguleika fólks með fjölbreytt háskólanám að setjast að utan höfuðborgarsvæðisins.

Við viljum einnig efla nám í verk-, tækni-, hönnunar- og listgreinum á öllum skólastigum. Framsóknarflokkurinn vill að farið verði í heildarmat á fyrirkomulagi iðnmenntunar í landinu og að sérstaklega verði tryggt að skólar sem leggi áherslu á iðn- og verknám fái nægilegt fjármagn til að halda úti öflugri verklegri kennslu.

Hver er afstaða flokksins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna?

Framsóknarflokkurinn vill að lokið verði við endurskoðun laga um LÍN með þeim breytingum sem unnið hefur verið að í þinglegri meðferð málsins. Einnig þarf að hækka frítekjumark, endurskoða reglulega raunverulegan framfærslukostnað í samræmi við aðra launahópa og jafna aðstöðu nemenda óháð búsetu.

Er flokkurinn reiðubúinn til að gera allt hvað hann getur til að sjá háskólunum fyrir viðunandi fjármagni?

Eins og áður segir viljum við tryggja að skóla sem leggja áherslu á iðn- og verknám fái nægilegt fjármagn til að halda úti öflugri kennslu. Það sama á við um aðra skóla á háskólastigi. Íslenska menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins. Framsóknarflokkurinn leggur ríka áherslu á að styrkja það og efla með hagsmuni nemenda sem og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi.

Á skalanum 1 til 10, hversu mikilvægt telur flokkurinn að forgangsraða þurfi í þágu stúdenta og háskólanna? (1; alls ekki mikilvægt. 10; mjög mikilvægt)

10.