Dögun: „Róttækar kerfisbreytingar í íslensku samfélagi"

Þann 29. október ganga landsmenn til kosninga en að því tilefni lagði Stúdentablaðið nokkrar spurningar fyrir flokkana sem bjóða fram til Alþingis. Hér eru svör Dögunar um stefnu flokksins er varðar háskólana og málefni stúdenta.

Hver er stefna flokksins í málefnum háskólanna í stuttu máli?

Framlag ríkisins til háskólastigsins þarf að aukast verulega til að ná meðaltali OECD-ríkja og það er stefna Dögunar að gera það sem fyrsta skref til eflingar háskólastigsins. Einnig telur Dögun mikilvægt að tryggja og efla starfsemi háskólasetra á landsbyggðinni. 

Hver er afstaða flokksins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna?

Dögun leggur áherslu á kerfi að norrænni fyrirmynd þar sem styrkir gegna stóru hlutverki. LÍN lán eiga að vera óverðtryggð, með lægri vöxtum og tekjutengdum afborgunum. Dögun telur einnig afar mikilvægt að LÍN hækki tekjuþak nemenda til þess að taka lán, þar sem það er allt of lágt í dag og vinnuletjandi. Það viðheldur fátæktargildru meðal margra nemenda og gerir þeim síður kleift að taka þátt í samfélaginu með greiðslu tekjuskatts. Slíkt samræmist ekki hugmyndum Dögunar um jöfnuð til náms og jafna þátttöku í samfélaginu. 

Dögun er á móti nýju frumvarpi um LÍN þar sem að þó vissulega sé jákvætt að sjá innleiðingu styrkjakerfis, er kostnaðinum velt á þá sem þurfa að nýta sér hærri lán eins og lágtekjuhópar, einstæðir foreldri og nemar í framhaldsnámi.

Er flokkurinn reiðubúinn til að gera allt hvað hann getur til að sjá háskólunum fyrir viðunandi fjármagni?

Já, flokkurinn er lausnamiðaður umbótaflokkur sem boðar róttækar kerfisbreytingar í íslensku samfélagi sem miða að hagsmunum almennings. Við viljum gera gagngera breytingu á hagstjórn hvort heldur sem um er að ræða efnahags, skatta- og lífeyriskerfi eða auðlindakerfi. Þannig mun okkur takast að færa öllum almenningi arð af raunverulegu ríkidæmi Íslands. Þannig er hægt að veita mjög þörfu fjármagni í heilbrigðis- og menntamál.

Á skalanum 1 til 10, hversu mikilvægt telur flokkurinn að forgangsraða þurfi í þágu stúdenta og háskólanna? (1; alls ekki mikilvægt. 10; mjög mikilvægt)

Svarið er 10, þar sem flokkurinn forgangsraðar að hér sé byggt réttlátt samfélag til framtíðar. Menntun og rannsóknir eru forsenda farsællar framtíðar á Íslandi. Fyrir alla!