Alþýðufylkingin: „Skólarnir þurfa að vera félagslega reknir"

Teikning: Halldór Sánchez

Teikning: Halldór Sánchez

Þann 29. október ganga landsmenn til kosninga en að því tilefni lagði Stúdentablaðið nokkrar spurningar fyrir flokkana sem bjóða fram til Alþingis. Hér eru svör Alþýðufylkingarinnar um stefnu flokksins er varða háskólana og málefni stúdenta.

 

1. Hver er stefna flokksins í málefnum háskólanna í stuttu máli?

Tilgangur háskóla er menntun og rannsóknir og til þess að þeir sinni því sem best, er eðlilegast að þeir séu félagslega reknir, þ.e. að aðkoma einkarekinna fyrirtækja eða fjármagns þeirra sé sem minnst. Við viljum ekki banna einkarekstur í menntakerfinu, en ef skóli fær peninga frá ríkinu viljum við að það sé skilyrði að hann sé ekki rekinn í hagnaðarskyni.

Við viljum að háskólakennarar kunni að kenna áður en þeir byrja á því, þannig að kennslan sé á háu gæðastigi, og við viljum að námsmat sé strangt þannig að prófgráður séu til marks um raunverulega frammistöðu. Við viljum að akademísk ábyrgð fylgi akademísku frelsi, þannig að t.d. ritstuldur eða rógur þrífist ekki í skjóli akademíunnar.

 

2. Hver er afstaða flokksins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna?

Til að byrja með þarf að losa hann úr nágreipum fjármálakerfisins. Manneskja sem þarf að fá námslán ætti aldrei að þurfa að koma nálægt banka, heldur ætti sjóðurinn sjálfur að hafa fjármagn til að lána. Við viljum að námslán (og önnur lán) séu án vaxta og séu veitt fólki á öllum aldri, við viljum frammistöðutengda niðurfellingu á lánum og að fyrstu tíu árin sem fólk vinnur á Íslandi eftir útskrift, séu þau fryst en falli niður að þeim tíma liðnum. Í fyllingu tímans viljum við stefna á námsstyrki í stað námslána, eins og tíðkast í siðmenntuðum löndum.

 

3. Er flokkurinn reiðubúinn til að gera allt hvað hann getur til að sjá háskólunum fyrir viðunandi fjármagni?

Já, og til að það sé hægt þarf að fullnægja tveim skilyrðum: Skólarnir þurfa að vera félagslega reknir þannig að þeir fari vel með féð sem þeir fá, og: Fjármálakerfið í landinu þarf að vera félagslega rekið að sem mestu leyti til þess að samfélagið geti hætt að eyða peningum í gróða handa bankamönnum og farið í staðinn að verja þeim í menntun og önnur þjóðþrifamál.

(Smá fyrirvari samt: „Allt sem hann getur" er auðvitað meint innan þeirra velsæmis-/skynsemismarka, að frumþörfum þarf að sinna á undan öðru. Þess vegna mundum við t.d. ekki hætta að framfleyta öryrkjum til þess að fjármagna háskóla. En sú valþröng er tæpast raunhæf, sérstaklega ef við losnum við blóðsugur fjármálakerfisins.)

 

4. Á skalanum 1 til 10, hversu mikilvægt telur flokkurinn að forgangsraða þurfi í þágu stúdenta og háskólanna? (1; alls ekki mikilvægt. 10; mjög mikilvægt)

 

Auðvitað mjög mikilvægt, en ef „10" væri svarið tæki fólk því kannski þannig að öllu öðru yrði rutt til hliðar, þannig að það er kannski viturlegra að segja „9" sbr. fyrirvarann við síðasta svar.

Teikning: Halldór Sánchez

Teikning: Halldór Sánchez