Stóra ostborgarasúpumálið

Þegar ég hélt að stafasúpa væri toppurinn á súpum veraldar birtist orðið „ostborgarasúpa“ á svörtum krítarvegg Hámu á grámyglulegum janúarmorgni. Fyrsta hugsunin var að þetta hlyti að vera á einhverskonar misskilningi byggt. Hamborgari er eins víðsfjarri súpuglundri eins og hægt er. Safaríkir sjoppuborgarar úr 20 prósent kjöti og 80 prósent erfðabreyttu plati í mjúkri glúten-bombu. Maður fær vatn í munninn við tilhugsunina, og það er ekki einu sinni laugardags-hádegi eftir góða föstudagsvísó og skrallerí.

Æla eða súpa?

Æla eða súpa?

Tvítarar voru forviða. Jafnvel fólk utan Háskóla Íslands vildu vita hvað í súpupottinn væri búið.  Hvernig er ostborgarasúpa á bragðlaukunum og í sjón. Er hún með smá-ostborgurum fljótandi um í kremkenndum vökva? Eða eru heilu ostborgararnir kannski hakkaðir niður þar til myndaðist vænasti grautur. Kannski bleytt með kóki eða öðrum ropvökva sem maður fær sér venjulega með góðum börger á Búllunni.

Starfsmenn og kokkar Hámu eru duglegir við að koma með nýja rétti á matseðilinn. Þá aðallega eftir að Háma heimshorn opnaði í Tæknigarði en þar er mikið um nýjungagirni í matargerð, svona eitthvað útlenskt og framandi. Þó ég hafi aldrei smakkað, er forfallinn aðdáandi þess að belgja mig út af kaffi og kaffisúkkulaði frá Lindu til að þrauka veruna á lesstofunni, auk þess sem ég hreyfi mig vandræðalega lítið úr ht-búbblunni.

Undirrituð fór þó á ókannaðar slóðir háskólans til að finna súpuna en var lítið ágengt, líklegast hefur hún verið of vinsæl meðal háskólamanna. Einn neytandi lýsti áferð súpunnar þó á þann veg að hún minnti á „matvæli sem væru sett í magann í örverufræði“ og að hún minnti örlítið á íslenska þjóðarréttinn, kjötsúpuna, á bragðið. Sem gerir mig enn leiðari yfir að hafa ekki smakkað.

Þetta er þó ekki eitthvað sem að kokkar Hámu lágu í fliss-kasti yfir að hafa skapað deginum áður til að flippa í háskólanemum, heldur virðist sem svo, eftir stutt og laggott gúggl, að „cheeseburger-soup“ sé fremur algengur réttur. Þá líklegast aðallega í Bandaríkjunum, held alveg örugglega frá suðurríkjunum. Súpan virðist samansett úr nautakjöti, steiktu úr smjöri, grænmeti og cheddar-osti. Hvort að slíkt samansull eigi að líkja eftir bragðinu af einum sveittum er þó vafamál.

Annars kann ég ekkert að elda og held að súpur séu svolítið mikið matur sem kokkar geta troðið í hvaða fjára sem er án þess að nokkur verði þess var. Maður hakkar þetta allt bara saman þar til það þekkist ekki. Skott af ketti eða bútar af gamalli einangrun, enginn veit. Skrítið að McDonalds hafi ekki tekið þennan rétt upp á sína arma. Tasty McSoup kannski?

Ég fagna hinsvegar því að Háma skuli kynna fyrir nemendum spennandi nýjungar í matargerð. Súpan gaf allavega skammdegisþunglyndum tvíturum eitthvað til að tísta um í janúar. Enda gerist ekkert í janúar. Bíð síðan spennt eftir því að þeir komi með pítsu-súpuna. En slík uppskrift hlýtur að vera til.

(Þess skal getið að blaðamaður reyndi ítrekað að hafa samband við stjörnukokkinn Jamie Oliver til að spyrjast fyrir um hvað honum fyndist um breyttar áherslur í mötuneyti Háskólans og hvort tenging væri á milli offitu þjóðar og ostborgara í fljótandi formi, en án árangurs). 

Texti: Díana Sjöfn Jóhannsdóttir