Lokapróf námskeiðs er bók
Uppskriftabók - skáldverk er afrakstur námskeiðsins Smiðja: Á þrykk sem er í boði er fyrir nemendur HÍ á meistarastigi í ritlist og hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Markmiðið með námskeiðinu er að fela nemendum hið krefjandi verkefni að gefa út bók. Ritlistarnemarnir skrifa skáldverk sem nemar í hagnýtri ritstjórn og útgáfu ritstýra en nemendur námskeiðsins sjá einnig um alla aðra þætti bókaútgáfunnar, ss. fjármögnun, umbrot, kápuhönnun og kynningu. „Það má í raun segja að lokaprófið í námskeiðinu sé bók,“ segir Sigþrúður Gunnarsdóttir, leiðbeinandi námskeiðsins og einn af ritstjórum Forlagsins.
Frá hugmyndavinnu að útgáfu
Þegar hópurinn hittist fyrst nú í janúarbyrjun hófst hann þegar handa við hugmyndavinnuna. Sigþrúður gerði nemendum strax grein fyrir að tíminn væri naumur og til þess að ná að gefa út bók á vormánuðum þyrfti skipulagið að vera skothelt. Bekknum var skipað upp í nefndir sem hver um sig sá um einhvern einn lið bókaútgáfunnar. Ritlistarnemar ydduðu blýantana og hófu skrif sín strax í byrjun annar og ritstjórar urðu síðan hluti af því ferli.
Skáldskapurinn hverfist um uppskriftir
Hópurinn ákvað að leggja upp með ákveðið þema sem er rauði þráðurinn í bókinni allri. Þemað er, eins og titill bókarinnar gefur til kynna, uppskriftir. Í bókinni má finna smásögur, ljóð, myndir og ýmislegt fleira sem allt hverfist á einn eða annan hátt um uppskriftir. Efnistök eru ólík, enda er rithöfundahópurinn afar fjölbreyttur. Skáldverkin fela meðal annars í sér uppskriftir að framandi menningu, furðulegu ferðalagi í geimnum, sköpun heimsins, hafragraut, pönnusteiktum mannshjörtum og afskiptum óvelkominna nágranna.
Eins og áður kom fram er öll fjármögnun bókarinnar í höndum nemenda. Hópurinn mun fjármagna verkefnið á Karolina Fund en forsala á bókinni hófst þar í dag. Þeir sem vilja tryggja sér eintak geta smellt HÉR.